Tyrkland er miðpunktur pólitískrar ólgu þessi misserin, og hefur auk þess verið vettvangur tíðra hryðjuverka á þessu ári. Um helgina dóu yfir 50 manns þegar barn sprengdi sig í loft upp í brúðkaupsveislu kúrda í borginni Gaziantep, skammt frá landamærunum við Sýrland. Í sumar hafa yfir 100 manns dáið í tveimur mannskæðum hryðjuverkum.
Erdogan forseti hefur tekið pólitíska andstæðinga sína úr umferð, einn af öðrum, eftir misheppnaða valdaránstilraun í júlí.
Hvað einkennir þetta stóra land á mörkum Evrópu og Asíu? Kjarninn tók saman tíu staðreyndir um Tyrkland.
1. Tyrkland er eitt af fjölmennustu ríkjum Evrópu en í lok árs 2015 bjuggu þar tæplega 76 milljónir manna. Til samanburðar voru íbúar Bretland 65 milljónir á sama tíma og Þýskalands 81 milljón. Tyrkland liggur á mörkum Evrópu og Asíu.
2. Tyrkland á landamæri að Sýrlandi, Írak, Íran, Armeníu, Azerbadjan, Georgíu, Búlgaríu og Grikklandi. Landfræðileg staða landsins hefur gert landið að miðpunkti áhrifasvæðis átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur sérstaklega haft mikil áhrif í Tyrklandi, þar sem straumur flóttafólks til landsins hefur verið nær óstöðvandi.
3. Ekkert land í Evrópu hefur tekið á móti fleiri flóttamönnum frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, Írak, Afganistan og norðurhluta Afríku en Tyrkland. Samtals eru 2,7 milljónir flóttamanna í Tyrklandi sem hafa komið frá Sýrlandi, en heildarfjöldinn er yfir þrjár milljónir. Til samanburðar er fjöldinn mun lægri í öðrum Evrópulöndum. Miðjarðarhafslöndin Grikkland og Ítala, sem hafa tekið á móti miklum fjölda flóttamanna og verið mikið til umræðu sökum þessa, eru þar meðtalin.
4. Recep Tayyip Erdoğan er forseti Tyrklands. Hann hefur gegnt því embætti frá árinu 2014. Hann var forsætisráðherra frá árinu 2003 og fram að embættistöku sinni sem forseti, og hefur því verið í með pólitíska valdaþræði í höndum sínum lengi. Hann er fæddur 26. febrúar 1954.
5. Í júlí var valdaránstilraun kæfð svo til í fæðingu, og hafa stjórnvöld beint spjótunum að andstæðingum Erdogans síðan. Yfir 20 þúsund einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við valdaránstilraunina. Þá hafa yfir 10 þúsund kennarar í háskólum, dómara við dómstóla og yfirmenn í hernum, misst störf sín og á stóri hluti þess hóps yfir höfði sér málshöfðun vegna meintrar aðildar að valdaránstilrauninni.
6. Helsti andstæðingur Erdogans, sem hann hefur alfarið kennt um valdaránstilraunina, er klerkurinn Fethullah Gulen. Hann býr í borginni Saylorsburgh í Pennsylvaníu ríki. Erdogan hefur farið fram á það formlega, að Gulen verði framseldur en við því hafa bandarísk yfirvöld ekki orðið. Gulen er 75 ára, fyrrverandi samherji Erdogans, og hefur verið í sjálfskipaðri útlegð undanfarin ár.
7. Gulen hefur harðneitað því að hafa komið að valdaránstilrauninni, og segir að allt bendi til þess að hún hafi verið sviðsett. Hann og hans stuðningsmenn hafi ávallt fordæmt beitingu hervalds í Tyrklandi og vopnuð valdaránstilraun sé eins víðsfjarri hugmyndum hans og hugsast getur. Hann segir Erdogan ekki verið í takt við raunveruleikann.
8. Atvinnuleysi mælist nú 10,1 prósent, sem er svipað og nemur meðaltalinu hjá Evrópusambandsríkjunum. Sé horft sérstaklega til samanburðar við önnur ríki við Miðjarðarhafið, þá er atvinnuleysi fremur lágt. Í Grikklandi hefur það verið yfir 20 prósent, frá árinu 2010, og sömu sögu eru að segja um Spán. Á Ítalíu er atvinnuleysið nú rúmlega tólf prósent.
9. Í fyrra var hagvöxturinn í landinu um fjögur prósent miðað við árið á undan. Verðbólgan mældist að meðaltali 7,7 prósent í fyrra og voru stýrivextir í kringum 7,5 prósent.
10. Miklar sveiflur hafa einkennt verðbréfamarkað í Tyrklandi, sem er bæði líflegur og stór. Til marks um það þá lækkuðu hlutabréf um 16,3 prósent í fyrra eftir að hafa hækkað um 26,4 prósent árið á undan. Árið 2012 var gríðarlega sóknarár á verðbréfamörkuðum í Tyrklandi, en á því ári hækkuðu hlutabréf um 52,6 prósent.