Meirihluti atvinnuveganefndar leggur til að stofnaður verði nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun fyrir svína- og alifuglabændur með lægri vaxtakjör en á öðrum lánum sem þessar greinar hefðu aðganga að til að mæta nýjum aðbúnaðarreglum. Það myndi þýða að Byggðastofnun, sem rekin er með ríkisábyrgð, ætti að niðurgreiða lán til svína- og alifuglabænda. Þá er lagt til að heimilað verði að nýta fjármuni til úreldingar sem ætlaðir eru til fjárfestingar hjá svínabændum og að leitað verði leita til að andvirði tekna af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt verði ráðstafað til fjárfestinga og stuðnings við svína- og alifuglabændur til að uppfylla kröfur vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar um búvörusamningsfrumvarpið sem Kjarninn hefur undir höndum.
Lagt til að tillögunum verði mætt
Um er að ræða tillögur sem starfshópur, skipaður af landbúnaðarráðherra í apríl til að fjalla um viðbrögð við tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins, lagði fram og meirihlutinn gerir að sínum. Í starfshópnum sátu fulltrúar ráðuneyta, fulltrúar landbúnaðarins og fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins. Engir fulltrúar neytenda að annarra hagsmunaaðila sátu í starfshópnum. Starfshópurinn tók til starfa daginn eftir að Gunnar Bragi Sveinsson tók við embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þann 8. apríl 2016.
Tillögur starfshópsins eru eftirfarandi:
· Að skorti á tilteknum skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem skortur er á.
· Að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
· Að tollkvótum verði úthlutað oftar á árinu, allt að fjórum sinnum í stað einu sinni, til þess að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað.
· Stjórnvöld leiti allra leiða til að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings, m.t.t. gæðakrafna, einkum og sér í lagi að því er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða.
· Stjórnvöld skipi starfshóp sem verði falin greining á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart mögulegum breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Sérstöku fjármagni verði veitt í slíka greiningarvinnu.
· Að heimilað verði að nýta fjármuni til úreldingar sem ætlaðir eru til fjárfestingar hjá svínabændum.
· Að leitað verði leiða til að andvirði tekna af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt verði ráðstafað til fjárfestinga og stuðnings við svína- og alifuglabændur til að uppfylla kröfur vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða.
· Að stofnaður verði nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun fyrir svína- og alifuglabændur með lægri vaxtakjör en á öðrum lánum sem þessar greinar hefðu aðgang að til að mæta nýjum aðbúnaðarreglugerðum.
Meirihluti atvinnuveganefndar beinir því til landbúnaðarráðherra, að leitað verði leiða til að mæta tillögunum.
Ávinningur tekin aftur
Félag Atvinnurekenda gagnrýnir tillögurnar harðlega í frétt sem hefur verið birt á heimasíðu þess. Þar er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félagsins, að meirihluti nefndarinnar sé að gera að sínum tillgöur starfshóps sem hafi verið samdar án nokkurrar aðkomu neytenda eða innflytjenda búvöru. „Það þarf ekki að koma á óvart, miðað við að hópurinn var eingöngu skipaður fulltrúum ríkisins og innlendra framleiðenda, að tillögurnar ganga að hluta til út á að hafa aftur af neytendum þann ávinning í formi fjölbreyttara úrvals og lægra vöruverðs, sem samningurinn við ESB átti að færa þeim.“
Ólafur fullyrðir að tillögurnar séu neytendafjandsamlegar og efast um að þær standist samninginn sem gerður var við Evrópusambandið. „„Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að meirihluti atvinnuveganefndar láti það standa í nefndaráliti að hann geri þessar tillögur að sínum, ef ætlunin er að skapa hér einhverja sátt um landbúnaðinn. Það er svo kaldhæðnislegt að nú stendur málið þannig að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherrann sem gerði samninginn við ESB og stærði sig þá af því að hafa náð fram meira vöruúrvali og lægra verði fyrir neytendur, er kominn í stól landbúnaðarráðherra og á samkvæmt drögum að áliti atvinnuveganefndar að beita sér fyrir aðgerðum sem hafa aftur af neytendum þann réttmæta ávinning. Þetta er fjarstæðukennt.“