Mikil umræða skapaðist um nauðsyn þess að Alþingi kæmi saman til funda nú í ágúst til þess að afgreiða mikilvæg og stór mál fyrir kosningar. Talað var um að stjórnarandstaðan mætti ekki „þvælast fyrir“ þessum stóru málum. En nú er óhætt að segja að mikil ládeyða sé yfir þingstörfunum, að minnsta kosti þeim sem sjást almenningi úr þingsal.
Aðeins fjögur mál eru á dagskrá þingfundarins í dag. Störf þingsins, sem er reglubundinn dagskrárliður á þriðjudags- og miðvikudagsfundum Alþingis, og svo atkvæðagreiðslur um þrjú frumvörp ríkisstjórnarinnar: frumvarp um lýðheilsusjóð, EES-frumvarp um fjármálafyrirtæki og frumvarp um þjóðaröryggisráð. Þegar búið er að ganga frá þessum þremur frumvörpum munu aðeins tvö til viðbótar bíða eftir síðustu umræðu á þinginu. Öll önnur mál ríkisstjórnarinnar eru til umfjöllunar í þingnefndum, utan örfárra sem ekki eru komin á dagskrá og tveggja frumvarpa frá félags- og húsnæðismálaráðherra sem enn eru ekki komin inn í þingið.
Í gær komust sex þingmannamál á dagskrá þingsins, en það er oft mælikvarði á skort á málum frá ríkisstjórninni þegar mörg slík mál komast á dagskrá.
Á að ljúka í næstu viku
Samkvæmt starfsáætlun þingsins á störfum þess að ljúka í lok næstu viku, og Eldhúsdagsumræður eig að vera eftir slétta viku. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á því í gær að þrátt fyrir að starfsáætlun þingsins geri ráð fyrir þingfrestun þann 2. september, á föstudag í næstu viku, þá er veittur frestur til að gefa umsagnir um nokkur stór mál ríkisstjórnarinnar til 1. september. Þegar umsagnir hafa borist fara þingnefndir yfir þær og afgreiða mál til annarrar umræðu í þingsal. Það er því ljóst að vægast sagt lítill tími er til stefnu ef ljúka á þingi á föstudag.
Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis, segir í samtali við Kjarnann að engar viðræður séu hafnar um það hvernig og hvenær ljúka eigi þingstörfum. Hann segir að málin muni líklega skýrast seinni hluta þessarar viku og það verði ekki fyrr en í kjölfar þess sem fundað verði um framhaldið. Hann ætli ekki að gefa neitt út fyrr en hann hafi fundað með þingflokksformönnum og mögulega muni forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar funda með stjórnarandstöðunni. Hann segir einnig að jafnvel þó að umsagnarfrestur sé til fyrsta september í stórum málum ríkisstjórnarinnar þá séu þingnefndirnar byrjaðar að fjalla um málin og búa sér þannig í haginn.
Munu ekki öll fara í gegn
Sem fyrr segir eru mörg stór mál inni í þingnefndum, og má nefna búvörusamninga, losun fjármagnshafta, breytingar á námslánakerfinu, stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð og breytingar á lögum um verðtryggingu. Þá eru ekki talin með tvö stór mál sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, er með í vinnslu í sínu ráðuneyti. Það eru breytingar á almannatryggingakerfinu og breytingar á fæðingarorlofi. Matthías Imsland, aðstoðarmaður Eyglóar, segir í samtali við Kjarnann að Eygló ætli sér að leggja bæði frumvörpin fram á þingi. Málin séu til meðferðar hjá fjármálaráðuneytinu og það ráðist af þeirri vinnu hvenær hægt verði að leggja þau fram fyrir ríkisstjórn og svo þingið.
Það getur haft veruleg áhrif á framgang mála Eyglóar að hún sat í síðustu viku hjá við afgreiðslu á fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í kjölfar þess að Eygló gæti ekki gert miklar kröfur um að fá framgang annarra mála á meðan hún styður ekki það sem aðrir ráðherrar geri.
Ríkisstjórnin fundar venjulega tvisvar í viku og það þýðir að þrír fundir eru eftir þangað til þingi á að vera lokið. Jafnvel þótt Eygló nái að leggja málin fram þar þá ættu þau eftir að fara í gegnum þingið.
Ekki mjög mikið svigrúm til frestunar
Búið er að boða að þingkosningar verði 29. október næstkomandi. Það sést í þingsal að þingmenn eru komnir með hugann við kosningar. Eitt skýrasta dæmið var kannski þegar verið var að ræða tillögu Bjartrar framtíðar um það að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við Evrópusambandið í gær. Einhvern tímann hefði verið mikil og eldfim umræða um slík mál, en í gær tóku þrír þingmenn til máls í umræðunni.
Jafnvel þótt eitthvað svigrúm sé til að halda þingstörfum áfram eftir lok næstu viku er ljóst að það er ekki mikið ef halda á kosningar 29. október. Og þrátt fyrir að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hafi sagt að stefnt verði að kosningum en ef þingstörf gangi ekki vel geti það breyst, þá er það ekki svo í raun og veru. Undirbúningur fyrir kosningar krefst þess einfaldlega að dagurinn haldi.