Japanski lífeyrissjóðurinn GPIF (Japan‘s Government Pension Investment Fund) tapaði ótrúlegum fjárhæðum á öðrum ársfjórðungi ársins 2016, eða samtals 52 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 6.100 milljörðum króna. Ástæðuna má rekja til verðfalls á hlutabréfum í eigu sjóðsins og styrkingu jensins gagnvart Bandaríkjadal á sama tíma. Þróunin var þessum risavaxna lífeyrissjóði Japana því einkar óhagfelld.
Miklir hagsmunir
Þetta þýðir að 3,9 prósent af heildar eignasafni sjóðsins hefur gufað upp á undanförnum mánuðum, að því er fram kom í umfjöllun Bloomberg í morgun. Óhætt er að segja að japanska ríkið megi ekki við miklum skakkaföllum, ofan á þá stöðu sem fyrir er. Opinberar skuldir Japans nema meira 260 prósent af árlegri landsframleiðslu, og eru óvíða hærri í heiminum.
Japanska hagkerfið er hins vegar stórt og áhrifamikið í alþjóðaviðskiptum. Það er þriðja stærsta hagkerfi í heimi á eftir því kínverska og bandaríska, en íbúar í Japan eru 130 milljónir.
Lítill eða enginn hagvöxtur
Vaxandi vandi lífeyrissjóða í landinu, meðal annars vegna þess hve illa hefur gengið að byggja upp hagvöxt heima fyrir, er nú farinn að valda stjórnvöldum og fjárfestum miklum áhyggjum, samkvæmt Bloomberg.
Forstjóri sjóðsins, Norihiro Takahashi, sagði í yfirlýsingu í morgun, að hannGPIF væri með langtímasýn í fjárfestingum. Skammtímasveiflur væru eðlilegar, en það væri samt krefjandi fyrir sjóðinn að ná ásættanlegri ávöxtun í núverandi árferði.
Sjóðurinn er mikilvægur japönsku efnahagslífi, en um 60 prósent eigna hans er í hlutabréfum og skuldbréfum á japönskum markaði. Um 25 prósent er í erlendum eignum, og afgangurinn að mestu í skuldum erlendra ríkissjóða.
Gengissveiflur hættulegar fyrir Japan
Gengissveiflur jensins eru því mikill áhættuþáttur fyrir sjóðinn og það sama má segja um hagvöxt heima fyrir en hann hefur árum saman verið lítill, og vaxtastig ýmist við núllið eða neikvætt. Takahashi segir vonast til þess að lífeyrissjóðurinn japanski muni rétta úr kútnum á síðari hluta ársins, en erfitt er þó að spá fyrir um slíkt.