Íslensk-hollenska hátæknifyrirtækið Mint Solutions hefur lokið við 650 milljón króna fjárfestingu sem gerir fyrirtækinu kleift að hraða markaðssetningu og innleiðingu lyfjaöryggiskerfisins MedEye á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í Evrópu og í Bandaríkjunum. Fjármagnið kemur frá hópi fjárfesta undir forystu BOM Capital í Hollandi og tveggja núverandi hluthafa, LSP og Seventure Partners, ásamt Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og íslenskum einkafjárfestum.
„MedEye sér til þess sjúklingarnir fái rétt lyf, í réttu magni á réttum tíma og kemur því í veg fyrir lyfjamistök,” segir Gauti Þór Reynisson, framkvæmdastjóri Mint Solutions. Hann segir ennfremur að fjárfestingin muni nýtast við að þróa MedEye áfram og svara eftirspurn frá sjúkráhúsum og heilbrigðisstofnunum í Hollandi og víðar. „Fjárfestingin gerir okkur kleift að efla þróun MedEye enn frekar og svara aukinni eftirspurn frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í Hollandi og víðar í Evrópu. MedEye kemur í stað mun flóknari og dýrari lausna, t.d. strikamerkinga á hverjum lyfjaskammti fyrir sig, og við getum því gjörbylt þeim markaði sem við erum á,“ segir Gauti Þór.
Sjö ára saga
Mint Solutions var stofnað á Íslandi árið 2009 og hefur síðan þá unnið að þróun lyfjaöryggiskerfisins MedEye. Kerfið stórbætir lyfjaöryggi á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum, að því er segir í tilkynningu.
Á Íslandi og í Hollandi
Öll þróunarvinna fer fram á Íslandi. Fyrirtækið er nú með 18 starfsmenn, níu hér á landi og níu í Hollandi, sem er stærsti markaður þess, að því er segir í tilkynningu. Með fjárfestingunni stefnir Mint Solutions á frekari landvinninga á alþjóðlegum mörkuðum, m.a. í Belgíu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í félaginu árið 2011 og og hefur fylgt fjárfestingunni eftir síðan þá. „Við höfðum strax trú á þessari vöru og sáum tækifæri til þess að leysa viðamikið vandamál á sviði heilbrigðistækni. Þróun MedEye hefur gengið vel og Mint Solutions hefur nú fengið einkaleyfi fyrir tækninni og hafið markaðssetningu í Hollandi. Við fögnum þessari nýju fjárfestingu þar sem hún mun gera Mint Solutions og MedEye kleift að ná fótfestu á heimsvísu,“ segir Hekla Arnardóttir, fjárfestingastjóri hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.
Alþjóðlegir hluthafar
Aðrir helstu hluthafar í Mint Solutions eru LSP, Seventure Partners og BOM Capital, ásamt minni einkafjárfestum, stofnendum og starfsfólki. Tækniþróunarsjóður lagði einnig til styrki við fyrirtækið þegar þróun MedEye hófst.
MedEye er komið í notkun á fjórum hollenskum sjúkrahúsum og verið er að innleiða kerfið á þremur til viðbótar. Að sögn Gauta Þórs hefur MedEye nú þegar sannað gildi sitt og komið í veg fyrir fjölda lyfjamistaka. „Sem dæmi hefur Deventer sjúkrahúsið í Hollandi verið með MedEye í notkun síðan í ágúst á síðasta ári og kerfið er nú notað við öll 250 sjúkrarúm spítalans. Á þessum tíma höfum við komið í veg fyrir yfir þúsund rangar lyfjagjafir.“
Viðræður standa nú yfir við mörg stærstu sjúkrahús Hollands, þar á meðal háskólasjúkrahús. Gauti segir því von á fleiri góðum fréttum af fyrirtækinu. „Eftirspurnin eftir MedEye hefur aukist mikið á síðustu mánuðum. Sjúkrahúsin eru að átta sig á því að MedEye er mun ódýrari og öruggari kostur í samanburði við keppinauta okkar,“ segir Gauti Þór.
Ívar Helgason, Gauti Reynisson og María Rúnarsdóttir stofnuðu fyrirtækið, og hafa fylgt eftir öflugu vaxtarskeiði þess inn á alþjóðlega markaði.