Þurfa íslenskir ljósvakamiðlar pólitíska vernd frá nýjungum?
Stjórnendur íslenskra ljósvakamiðla hafa áhyggjur af veru RÚV á auglýsingamarkaði og gjörbreyttu landslagi fjölmiðlanna í harðandi samkeppni við erlendar efnisveitur. Hvernig skal bregðast við? Stjórnendurnir vilja lagabreytingar.
Nýlega sendu æðstu stjórnendur fimm íslenskra fjölmiðla, þ.á.m. forstjórar 365 og Símans (sem rekur Skjáinn), frá sér grein þar sem kallað var eftir lagabreytingum á íslenskum fjölmiðlamarkaði, svo fjölmiðlarnir geti betur átt í samkeppni við RÚV annars vegar og erlenda keppinauta hins vegar. Lagðar eru fram tillögur að breytingum, meðal annars að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði, fjölmiðlar fái undanþágu frá virðiskaukaskatti og að erlendar efnisveitur lúti sömu lögum og íslenskir fjölmiðlar hvað varðar textun og talsetningu. Til að árétta kröfur um lagabreytingar boðuðu fjölmiðlarnir síðan sjö mínútna langa stöðvun á útsendingum fimmtudaginn 1. september.
Hægt er að skipta áhyggjum stjórnendanna í tvennt. Annars vegar veru RÚV á auglýsingamarkaði og hins vegar gjörbreytt landslag fjölmiðlanna í harðnandi samkeppni við erlendar efnisveitur um áskriftartekjur og samfélagsmiðla um auglýsingatekjur. Fyrrnefnda málið er langt því frá nýtt af nálinni og útlit er fyrir að þverpólitísk samstaða sé um það. Hið síðarnefnda, þ.e. innreið efnisveita og samfélagsmiðla, er síðan kjarni þess nýja veruleika sem hefðbundnir, línulegir sjónvarpsmiðlar starfa nú við. Og þótt Alþingi verði við kröfum fjölmiðlanna, með því að veita undanþágur frá skatti og almennt slaka á gerðum kröfum, þá er alls óvíst hvort núverandi viðskiptamódel fjölmiðlanna eigi sér framtíð.
Breyttur heimur
Sjónarhorn stjórnendanna er auðskiljanlegt, að minnsta kosti hvað varðar forstjóra 365 og Símans. Netflix, Hulu og aðrar streymisveitur hafa haft gríðarleg áhrif á rekstrargrundvöll hefðbundinna sjónvarpsstöðva. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í það hvernig erlendu efnisveiturnar eiga í beinni samkeppni við sjónvarpsstöðvar, innlendar sem erlendar. Efnisveiturnar bjóða upp á sömu þjónustu (sjónvarpsgláp) á þægilegri og ódýrari hátt. Og þrátt fyrir að vera ekki opið íslendingum með beinum hætti fyrr en í janúar 2016, þá nýttu þúsundir íslenskra heimila sér Netflix langt fyrir þann tíma með einföldum krókaleiðum. Í febrúar 2014 voru um 16,7% heimila landsins með aðgang að Netflix, samkvæmt könnun MMR. Þegar MRR kannaði vinsældirnar að nýju í febrúar 2016, skömmu eftir að opnað var fyrir aðgang á Íslandi, þá var hlutfallið tvöfalt hærra eða 33,2%.
Samkeppnin hefur síðan harðnað á allra síðustu árum, en eitt helsta útspil Netflix er framleiðsla á eigin efni. Tímaritið The Economist fjallaði nýverið um stöðu Netflix og benti á að fyrirtækið eyðir sex milljörðum dollara í efnisframleiðslu- og kaup á þessu ári, samanborið við 2 milljarða hjá sjónvarpsrisanum HBO, sem lengi hefur sett viðmiðið í sjónvarpsframleiðslu gæðaefnis eins og The Wire og Game of Thrones. Það er eflaust ljúfsárt fyrir íslensku stöðvarnar að sýna vinsælar sjónvarpsseríur á borð við Orange is The New Black og The Peaky Blinders – framleiddar af efnisveitunni Netflix sem ógnar rekstrargrundvelli þessara sömu miðla.
Sportið og innlent efni til bjargar?
Aukið val neytenda er að öllu leyti jákvætt fyrir þá, og ljóst að margir velja erlendu efnisveiturnar fram yfir áskrift að stöðvum 365 eða Símans. En það má ekki skilja sem svo að sjónvarpsstöðvar eigi sér enga von.
Í fyrsta lagi hefur sjónvarpsvæðing internetsins, enn sem komið er, ekki boðið upp á betri leiðir til að horfa á íþróttir en hefðbundnar sjónvarpsstöðvar. Blaðamaðurinn Ben Thompson, sem heldur úti síðunni Stratechery um viðskiptaumhverfi tæknifyrirtækja, telur íþróttir vera það besta sem stöðvarnar hafa fram yfir netfyrirtæki. Þótt blikur séu á lofti, m.a. dvínandi áhorf á Ólympíuleikana í línulegri dagskrá og áhugi Twitter á að sýna leiki NFL deildarinnar, þá vilja fyrirtæki enn ólm auglýsa í kringum íþróttaviðburði og neytendur eru tilbúnir að greiða fyrir áhorfið.
Í öðru lagi verður innlend dagskrárgerð áfram sterk og sérstæð söluvara fyrir hefðbundnu stöðvarnar. Það vita íslensku stöðvarnar vel og hafa lagt mikið fé í innlenda dagskrárgerð á síðustu árum. Þó er vert að hafa í huga að þessi sérstaða er ekki sjálfsögð, eins og fjármögnun Netflix á heimildarþáttum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sýnir.
Í þriðja lagi hafa sjónvarpsstöðvarnar reynt að bjóða upp á sambærilega þjónustu og efnisveiturnar gera. Að áskrifendur geti horft á efnið hvenær sem er auk þess sem boðið er upp á kvikmyndir og eldri þætti sem ekki eru lengur í sýningu frá einni viku til annarar. Þar feta íslensku stöðvarnar nú í sömu spor og erlendar stöðvar, t.d. HBO sem hefur á allra síðustu árum stóraukið aðgengi og úrval í gegnum eigin efnisveitu.
Í fjórða og síðasta lagi má benda á samþættingu fjarskiptaþjónustu og fjölmiðlaþjónustu. Fjarskiptageirinn er arðbær og stöndug fjarskiptafyrirtæki hafa ekki barist við sterka nýliða í sama mæli og þekkist t.d. í hótelbransanum, leigubílageiranum, og fjölmiðlum. Viðskiptamódelið þar sem fjarskiptum og fjölmiðlun er tvinnað saman er vel þekkt, enda eiga þjónusturnar að mörgu leyti vel við hvor aðra. Þetta hefur Síminn lengi gert, og skerpti á með fullri sameiningu við Skjáinn á síðasta ári. 365 hefur í um tvö ár boðið upp á fjarskiptaþjónustu, þ.e. internet og síma, eftir yfirtöku á rekstri Tals fjarskiptafyrirtækis. Í gær dró síðan til tíðinda, þegar Vodafone tilkynnti að viðræður standi yfir um kaup á stórum hluta fjölmiðla 365. Það er engin tilviljun að viðræðurnar eigi sér stað á sama tíma og fjölmiðlaheimurinn gengur í gegnum örar breytingar.
Viðskiptamódelið mikilvægara en regluverkið
Þótt íslensku fjölmiðlarnir boði sjö mínútna svartnætti á fimmtudag, þá er tónninn í baráttu þeirra nokkuð mýrki en áður. Hið minnsta tala þeir ekki gegn því að Netflix og aðrar efnisveitur fái að starfa á Íslandi, enda væri það að berja höfðinu við steininn (þó reyndar megi færa rök fyrir því að íslenskir rétthafar hafi lengi gert nákvæmlega það). Netflix er komið til Íslands, og jafnvel þótt úrvalið sé ekki nema um 20% af því sem sést í Bandaríkjunum þá er það meira en stöðvarnar bjóða upp á.
Það er ekki alveg ljóst hvernig Útvarp Saga leikur hlutverk í þessu öllu saman, en fyrir 365 og Símann þá er umhverfi þeirra orðið alþjóðlegt, eins og fyrirtækin sjálf benda á. Það er sjálfsagt að bæta lagaumhverfið þannig að þau verði samkeppnishæfari, en það má alls ekki fela í sér vernd af neinu tagi, t.d. auknar kvaðir á erlendar efnisveitur um textun og talsetningu efnis eða skattlagningu. Þá minnkar samkeppnin og neytandinn tapar.
Í þessu samhengi sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að það yrði á skjön við hans stefnu ef einni atvinnugrein yrði veitt undanþága frá greiðslu virðisaukaskatts, eins og stjórnendur vilja. „En menn verða þá bara að skoða rökin ef til þess kæmi. Ég er ekkert búinn að komast að niðurstöðu, ég er bara að segja að það er ósanngjarnt ef aðrir geta komið hingað án þess að greiða sambærilega skatta þar sem þeir starfa, veita þjónustuna og er lausir undan skattskyldu. Það bara gengur ekki upp,“ sagði Bjarni í viðtali hjá Þorbirni Þórðarsyni, fréttamanni 365.
Breytt samkeppnisstaða íslensku fjölmiðlanna felst að hluta til í ójafnvæginu hvað varðar skattlagningu, þar sem erlendu efnisveiturnar greiða ekki skatta hérlendis. En að langstærstum hluta felst breytt samkeppnisstaða íslensku miðlanna í tæknibreytingunum sem orðið hafa, og auknu vali neytenda. Sterkasti leikur 365 og Símans felst í sömu meginþáttum og fyrr: Samkeppnishæfum verðum og þjónustu. Samkeppni er góð. Margt bendir til að aukin samkeppni erlendis frá hafi bætt íslenska fjölmiðla og þá þjónustu sem þeir veita. Það sést meðal annars á auknu aðgengi að eldra efni og bættu viðmóti efnisveita þeirra. Stöðvarnar hafa, a.m.k. enn sem komið er, ýmsa styrkleika umfram erlendu efnisveiturnar og geta bætt eigin efnisveitur margfalt. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir viðskiptamódelið meira málið en regluverkið.
Uppfært: Vert er að taka fram að Síminn breytti viðskiptamódeli sínu í október 2015 og varð að efnisveitu, fremur en sjónvarpsstöð. Línulegri dagskrá á Sjónvarpi Símans er haldið úti í opinni dagskrá en efnisveitan er aðgengileg gegn áskrift.