Þurfa íslenskir ljósvakamiðlar pólitíska vernd frá nýjungum?

Stjórnendur íslenskra ljósvakamiðla hafa áhyggjur af veru RÚV á auglýsingamarkaði og gjörbreyttu landslagi fjölmiðlanna í harðandi samkeppni við erlendar efnisveitur. Hvernig skal bregðast við? Stjórnendurnir vilja lagabreytingar.

Nýlega sendu æðstu stjórn­endur fimm íslenskra fjöl­miðla, þ.á.m. for­stjórar 365 og Sím­ans (sem rekur Skjá­inn), frá sér grein þar sem kallað var eftir laga­breyt­ingum á íslenskum fjöl­miðla­mark­aði, svo fjöl­miðl­arnir geti betur átt í sam­keppni við RÚV ann­ars vegar og erlenda keppi­nauta hins veg­ar. Lagðar eru fram til­lögur að breyt­ing­um, meðal ann­ars að RÚV hverfi af aug­lýs­inga­mark­aði, fjöl­miðlar fái und­an­þágu frá virð­is­kauka­skatti og að erlendar efn­isveitur lúti sömu lögum og íslenskir fjöl­miðlar hvað varðar textun og tal­setn­ingu. Til að árétta kröfur um laga­breyt­ingar boð­uðu fjöl­miðl­arnir síðan sjö mín­útna langa stöðvun á útsend­ingum fimmtu­dag­inn 1. sept­em­ber.

Hægt er að skipta áhyggjum stjórn­end­anna í tvennt. Ann­ars vegar veru RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði og hins vegar gjör­breytt lands­lag fjöl­miðl­anna í harðn­andi sam­keppni við erlendar efn­isveitur um áskrift­ar­tekjur og sam­fé­lags­miðla um aug­lýs­inga­tekj­ur. Fyrr­nefnda málið er langt því frá nýtt af nál­inni og útlit er fyrir að þverpóli­tísk sam­staða sé um það. Hið síð­ar­nefnda, þ.e. inn­reið efn­isveita og sam­fé­lags­miðla, er síðan kjarni þess nýja veru­leika sem hefð­bundn­ir, línu­legir sjón­varps­miðlar starfa nú við. Og þótt Alþingi verði við kröfum fjöl­miðl­anna, með því að veita und­an­þágur frá skatti og almennt slaka á gerðum kröf­um, þá er alls óvíst hvort núver­andi við­skipta­módel fjöl­miðl­anna eigi sér fram­tíð. 

Breyttur heimur

Sjón­ar­horn stjórn­end­anna er auð­skilj­an­legt, að minnsta kosti hvað varðar for­stjóra 365 og Sím­ans. Net­fl­ix, Hulu og aðrar streym­isveitur hafa haft gríð­ar­leg áhrif á rekstr­ar­grund­völl hefð­bund­inna sjón­varps­stöðva. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í það hvernig erlendu efn­isveit­urnar eiga í beinni sam­keppni við sjón­varps­stöðv­ar, inn­lendar sem erlend­ar. Efn­isveit­urnar bjóða upp á sömu þjón­ustu (sjón­varps­gláp) á þægi­legri og ódýr­ari hátt. Og þrátt fyrir að vera ekki opið íslend­ingum með beinum hætti fyrr en í jan­úar 2016, þá nýttu þús­undir íslenskra heim­ila sér Net­flix langt fyrir þann tíma með ein­földum króka­leið­um. Í febr­úar 2014 voru um 16,7% heim­ila lands­ins með aðgang að Net­flix, sam­kvæmt könnun MMR. Þegar MRR kann­aði vin­sæld­irnar að nýju í febr­úar 2016, skömmu eftir að opnað var fyrir aðgang á Íslandi, þá var hlut­fallið tvö­falt hærra eða 33,2%. 

Sam­keppnin hefur síðan harðnað á allra síð­ustu árum, en eitt helsta útspil Net­flix er fram­leiðsla á eigin efni. Tíma­ritið The Economist fjall­aði nýverið um stöðu Net­flix og benti á að fyr­ir­tækið eyðir sex millj­örðum doll­ara í efn­is­fram­leiðslu- og kaup á þessu ári, sam­an­borið við 2 millj­arða hjá sjón­varps­ris­anum HBO, sem lengi hefur sett við­miðið í sjón­varps­fram­leiðslu gæða­efnis eins og The Wire og Game of Thro­nes. Það er eflaust ljúfsárt fyrir íslensku stöðv­arnar að sýna vin­sælar sjón­varps­s­er­íur á borð við Orange is The New Black og The Peaky Blind­ers – fram­leiddar af efn­isveit­unni Net­flix sem ógnar rekstr­ar­grund­velli þess­ara sömu miðla.

Sportið og inn­lent efni til bjarg­ar?

Aukið val neyt­enda er að öllu leyti jákvætt fyrir þá, og ljóst að margir velja erlendu efn­isveit­urnar fram yfir áskrift að stöðvum 365 eða Sím­ans. En það má ekki skilja sem svo að sjón­varps­stöðvar eigi sér enga von.

Í fyrsta lagi hefur sjón­varp­s­væð­ing inter­nets­ins, enn sem komið er, ekki boðið upp á betri leiðir til að horfa á íþróttir en hefð­bundnar sjón­varps­stöðv­ar. Blaða­mað­ur­inn Ben Thomp­son, sem heldur úti síð­unni Stra­techery um við­skiptaum­hverfi tækni­fyr­ir­tækja, telur íþróttir vera það besta sem stöðv­arnar hafa fram yfir net­fyr­ir­tæki. Þótt blikur séu á lofti, m.a. dvín­andi áhorf á Ólymp­íu­leik­ana í línu­legri dag­skrá og áhugi Twitter á að sýna leiki NFL deild­ar­inn­ar, þá vilja fyr­ir­tæki enn ólm aug­lýsa í kringum íþrótta­við­burði og neyt­endur eru til­búnir að greiða fyrir áhorf­ið.

Í öðru lagi verður inn­lend dag­skrár­gerð áfram sterk og sér­stæð sölu­vara fyrir hefð­bundnu stöðv­arn­ar. Það vita íslensku stöðv­arnar vel og hafa lagt mikið fé í inn­lenda dag­skrár­gerð á síð­ustu árum. Þó er vert að hafa í huga að þessi sér­staða er ekki sjálf­sögð, eins og fjár­mögnun Net­flix á heim­ild­ar­þáttum um Guð­mund­ar- og Geir­finns­málið sýnir.

Í þriðja lagi hafa sjón­varps­stöðv­arnar reynt að bjóða upp á sam­bæri­lega þjón­ustu og efn­isveit­urnar gera. Að áskrif­endur geti horft á efnið hvenær sem er auk þess sem boðið er upp á kvik­myndir og eldri þætti sem ekki eru lengur í sýn­ingu frá einni viku til ann­ar­ar. Þar feta íslensku stöðv­arnar nú í sömu spor og erlendar stöðv­ar, t.d. HBO sem hefur á allra síð­ustu árum stór­aukið aðgengi og úrval í gegnum eigin efn­isveitu.

Í könnun MMR síðan í febrúar á þessu ári kemur fram að um þriðjungur íslenskra heimila hefur aðgang að Netflix. Vinsældirnar höfðu tvöfaldast á tveimur árum. Það er bara ein þeirra efnisveita sem í boði.
Samsett mynd

Í fjórða og síð­asta lagi má benda á sam­þætt­ingu fjar­skipta­þjón­ustu og fjöl­miðla­þjón­ustu. Fjar­skipta­geir­inn er arð­bær og stöndug fjar­skipta­fyr­ir­tæki hafa ekki barist við sterka nýliða í sama mæli og þekk­ist t.d. í hót­el­brans­an­um, leigu­bíla­geir­an­um, og fjöl­miðl­um. Við­skipta­mód­elið þar sem fjar­skiptum og fjöl­miðlun er tvinnað saman er vel þekkt, enda eiga þjón­ust­urnar að mörgu leyti vel við hvor aðra. Þetta hefur Sím­inn lengi gert, og skerpti á með fullri sam­ein­ingu við Skjá­inn á síð­asta ári. 365 hefur í um tvö ár boðið upp á fjar­skipta­þjón­ustu, þ.e. inter­net og síma, eftir yfir­töku á rekstri Tals fjar­skipta­fyr­ir­tæk­is. Í gær dró síðan til tíð­inda, þegar Voda­fone til­kynnti að við­ræður standi yfir um kaup á stórum hluta fjöl­miðla 365. Það er engin til­viljun að við­ræð­urnar eigi sér stað á sama tíma og fjöl­miðla­heim­ur­inn gengur í gegnum örar breyt­ing­ar. 

Við­skipta­mód­elið mik­il­væg­ara en reglu­verkið

Þótt íslensku fjöl­miðl­arnir boði sjö mín­útna svart­nætti á fimmtu­dag, þá er tónn­inn í bar­áttu þeirra nokkuð mýrki en áður. Hið minnsta tala þeir ekki gegn því að Net­flix og aðrar efn­isveitur fái að starfa á Íslandi, enda væri það að berja höfð­inu við stein­inn (þó reyndar megi færa rök fyrir því að íslenskir rétt­hafar hafi lengi gert nákvæm­lega það). Net­flix er komið til Íslands, og jafn­vel þótt úrvalið sé ekki nema um 20% af því sem sést í Banda­ríkj­unum þá er það meira en stöðv­arnar bjóða upp á. 

Það er ekki alveg ljóst hvernig Útvarp Saga leikur hlut­verk í þessu öllu sam­an, en fyrir 365 og Sím­ann þá er umhverfi þeirra orðið alþjóð­legt, eins og fyr­ir­tækin sjálf benda á. Það er sjálf­sagt að bæta lagaum­hverfið þannig að þau verði sam­keppn­is­hæf­ari, en það má alls ekki fela í sér vernd af neinu tagi, t.d. auknar kvaðir á erlendar efn­isveitur um textun og tal­setn­ingu efnis eða skatt­lagn­ingu. Þá minnkar sam­keppnin og neyt­and­inn tap­ar. 

Í þessu sam­hengi sagði Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra að það yrði á skjön við hans stefnu ef einni atvinnu­grein yrði veitt und­an­þága frá greiðslu virð­is­auka­skatts, eins og stjórn­endur vilja. „En menn verða þá bara að skoða rökin ef til þess kæmi. Ég er ekk­ert búinn að kom­ast að nið­ur­stöðu, ég er bara að segja að það er ósann­gjarnt ef aðrir geta komið hingað án þess að greiða sam­bæri­lega skatta þar sem þeir starfa, veita þjón­ust­una og er lausir undan skatt­skyldu. Það bara gengur ekki upp,“ sagði Bjarni í við­tali hjá Þor­birni Þórð­ar­syni, frétta­manni 365

Breytt sam­keppn­is­staða íslensku fjöl­miðl­anna felst að hluta til í ójafn­væg­inu hvað varðar skatt­lagn­ingu, þar sem erlendu efn­isveit­urnar greiða ekki skatta hér­lend­is. En að langstærstum hluta felst breytt sam­keppn­is­staða íslensku miðl­anna í tækni­breyt­ing­unum sem orðið hafa, og auknu vali neyt­enda. Sterkasti leikur 365 og Sím­ans felst í sömu meg­in­þáttum og fyrr: Sam­keppn­is­hæfum verðum og þjón­ustu. Sam­keppni er góð. Margt bendir til að aukin sam­keppni erlendis frá hafi bætt íslenska fjöl­miðla og þá þjón­ustu sem þeir veita. Það sést meðal ann­ars á auknu aðgengi að eldra efni og bættu við­móti efn­isveita þeirra. Stöðv­arnar hafa, a.m.k. enn sem komið er, ýmsa styrk­leika umfram erlendu efn­isveit­urnar og geta bætt eigin efn­isveitur marg­falt. Þegar öllu er á botn­inn hvolft skiptir við­skipta­mód­elið meira málið en reglu­verk­ið. 

Upp­fært: Vert er að taka fram að Sím­inn breytti við­skipta­mód­eli sínu í októ­ber 2015 og varð að efn­isveitu, fremur en sjón­varps­stöð. Línu­legri dag­skrá á Sjón­varpi Sím­ans er haldið úti í opinni dag­skrá en efn­isveitan er aðgengi­leg gegn áskrift.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnHallgrímur Oddsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar