Kári Stefánsson hefur verið afar umdeildur maður í íslensku samfélagi undanfarna áratugi allt frá því að hann snéri heim til föðurlandsins til að setja á fót Íslenska erfðagreiningu/DeCode á tíunda áratug síðustu aldar. Næstu árin komust Kári og fyrirtækið í fréttirnar fyrir fordæmalausa tilraun íslenska ríkisins til þess að veita því ríkisábyrgð, laga sem áttu að veita fyrirtækinu rétt til að setja upp og starfrækja miðlægan gagnagrunn með ópersónugreinanlegum heilsufarsupplýsingum Íslendinga og umfangsmikilla viðskipta íslenskra gullgrafara með bréf Decode á gráum markaði sem endaði í sorgarsögu hjá flestum sem ætluðu að verða rosalega ríkir rosalega fljótt, skráningu á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum. Í kjölfarið fylgdi greiðslustöðvun slitameðferð og upprisa. Já, og auðvitað umdeildar lífssýnatökur sem björgunarsveitarmenn söfnuðu saman í samstarfi við fyrirtækið.
Kári hefur alltaf verið stopull þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni og vakið athygli fyrir að vera beittur, jafnvel dónalegur, í skrifum sínum. Frá lokum síðasta árs hefur þessi óbeina stjórnmálaþátttaka Kára þó orðið mun reglulegri, og ljóst má vera að greinar hans og skilaboð eru að hafa mikil áhrif. Það sést best á því að æðstu stjórnmálamenn þjóðarinnar sjá sig oftar en ekki knúna til að svara honum þegar Kári hnýtir í þá. Og svo tókst honum auðvitað að safna 86 þúsund undirskriftum til stuðnings endurreisnar íslenskaa heilbrigðiskerfis, sem er stærsta undirskriftarsöfnun Íslandssögunnar. Áhrifa hennar mun gæta mjög í aðdraganda komandi kosninga. Því má með góðum rökum fullyrða að Kári sé orðinn stór leikandi í í íslenskum stjórnmálum. Þótt hann hafi aldrei boðið sig fram til þátttöku í slíkum.
Ætlaði að safna 100 þúsund manns gegn ríkisstjórninni
Yfirstandandi óbein stjórnmálaþátttaka Kára hófst með grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið 10. desember 2015. Fyrirsögn greinarinnar var „Einnota ríkisstjórn“.
Í greininni gagnrýndi Kári þáverandi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar harkalega vegna þess ástands sem væri við lýði í heilbrigðismálum þjóðarinnar og sagði að við það yrði ekki lengur búið. Þess vegna vildi hann láta fjárlaganefnd Alþingis vita að ef hún breytti ekki fjárlagafrumvarpi ársins 2016, sem þá var fyrirliggjandi en ósamþykkt, myndi hann safna 100 þúsund undirskriftum undir plagg sem myndi hvetja „landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur þá stjórnmálaflokka sem standa að þessari ríkisstjórn vegna þess kulda og afskiptaleysis sem hún sýnir sjúkum og meiddum í okkar samfélagi. Söfnunin verður létt verk og löðurmannlegt. Þjóðinni ofbýður.“
„Toppari Íslands“ og beina lýðræðið
Sigmundur Davíð svaraði Kára daginn eftir í grein í Fréttablaðinu sem hann kallaði „Toppari Íslands“. Í greininni minntist þáverandi forsætisráðherra aldrei á Kára en rakti sögu af ónafngreindum manni sem hann sagði að hafi verið svokallaður „toppari“, og raunar „mesti toppari Íslands“.
Í greininni sagði Sigmundur Davíð að öllum mætti vera ljóst hversu rangt og beinlínis óheiðarlegt það væri að saka þau stjórnvöld sem þá sátu, og hefðu forgangsraða mest í þágu heilbrigðismála, að vera viljandi að svelta heilbrigðiskerfið. Það að gunguskapur stjórnvalda gagnvart erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna hafi orðið til þess að ekki séu 150 milljarðar króna til staðar til að setja í heilbrigðiskerfið væri ómerkilegt bull.
Kári sagðist upp með sér að fengið skvettu úr koppi forsætisráðherra. Hann myndi þvo hana af sér og þurrka.
Ellefu dögum eftir að grein Kára birtist, 21. desember 2015, var hann mættur til viðtals í Morgunútvarpi Rásar 2. Þar sagðist hann ætla að safna undirskriftum frá þjóðinni sem nota ætti til að „handjárna næstu ríkisstjórn þannig að hún verði að setja það fé í heilbrigðismálin sem eðlilegt má teljast." Hann sagði Íslendinga nú eyða 8,7 prósent af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála en meðaltalið í löndunum í kringum okkur væri rúmlega tíu prósent. „Við erum lítil þjóð þannig að það er líklegt að kostnaður við heilbrigðisþjónustu á nef hvert sé töluvert meiri hér en á meðal stærri þjóðanna. Þannig að ég held að það sé ekkert óeðlilegt að við stefnum að því að við eyddum í kringum 11 prósent af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála."
Kári sagðist hafa verið að forma með sér, með hjálp góðra manna, hugmynd að undirskriftasöfnun um heilbrigðismál og velti fyrir sér hvort ekki væri mögulegt að ná meirihluta þjóðarinnar til að skrifa undir hana. „Og það sem ég er raunverulega að segja er að það er kominn tími til þess að beita beinu lýðræði í málaflokki eins og þessum. Beina lýðræðið er möguleiki í dag með netaðgangi. Ég held að það sé hægt að ná til fólksins í landinu og gefa því tækifæri til þess að tjá sig um þennan málaflokk á tiltölulega stuttum tíma. Ekki held ég að það verði þægilegt fyrir þá sem setjast á ráðherrastóla næst að sitja uppi með undirskriftir, við skulum segja 80 prósent þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum ættu þeir að hunsa slíkan vilja?"
Söfnun og tveggja ára offitusjúklingur
22. janúar 2016 var tilkynnt um að Kári hefði hleypt af stokkunum undirskriftasöfnun á síðunni endurreisn.is. Í tilkynningu frá Kára vegna þessa sagði að undirskriftasöfnunin væri til stuðnings kröfunni um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þar var eftirfarandi haft eftir Kára: „Heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum nútímasamfélags og sýnir vilja þess til þess að hlúa að þeim sem eru sjúkir og meiddir. Gott heilbrigðiskerfi endurspeglar sjálfsagða samhygð en lélegt heilbrigðiskerfi óásættanlegan kulda gagnvart þeim sem eru hjálpar þurfi. Það er okkar mat að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi.[...]Þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar um aldarfjórðungsskeið hafa ekki haft að því frumkvæði að fjármagna heilbrigðiskerfið eins og skyldi, ætlum við undirrituð að taka frumkvæðið."
2. febrúar skrifaði Kári síðan aðra grein, í þetta sinn í Morgunblaðið. Þar sagði hann ekkert að marka það sem ríkisstjórnin segiði um að hlúa að heilbrigðiskerfinu og það sama mætti segja um margar þeirra sem á undan henni hafa setið. Ríkisstjórnin segði einn daginn að ekki sé til fé til að setja 2,5 milljarða króna í heilbrigðiskerfið en tilkynni nokkrum dögum seinna að afgangur af ríkisrekstri verði 300 milljarðar króna.
Þann 5. febrúar var birt viðtal við Kára í blaðinu Reykjavík Grapevine, sem er skrifað á ensku. Þar kallaði Kári Sigmund Davíð, sem þá var enn forsætisráðherra þjóðarinnar, lítinn tveggja ára offitusjúkling. Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum. „Þessi skítur á minni ábyrgð. Þessa lotu vann forsætisráðherra 10-0."
Skortur á fjarveru bitnar á þjóðinni
Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina hafði áhugi Kára á Sigmundi Davíð síst minnkað. 18. mars skrifaði hann opið bréf til forsætisráðherrans þar sem hann sagði að skortur á fjarveru hans frá Alþingi bitnaði á allri þjóðinni. Sigmundur Davíð væri „best geymdur annars staðar og við aðra iðju eins og til dæmis á Flórída að fá útrás fyrir áhuga þinn á skipulagsmálum með því að spila Matador við sjálfan þig.“
Skömmu áður hafði Sigmundur Davíð kynnt tillögu sína um að byggja nýjan Landsspítala við Vífilsstaði í Garðabæ í stað þess að hann byggðist upp við Hringbraut, líkt og stefna ríkisstjórnar hans sagði til um. Kári var gífurlega harðorður um þessa tillögu í greininni. „Þú lagðir fram Vífilsstaðatillöguna án þess að ræða hana við heilbrigðismálaráðherra sem fer með þau mál er lúta að Landspítalanum eða fjármálaráðherra sem hafði yfirumsjón með smíð fjárlaga sem kveða á um fé til Hringbrautarlausnarinnar. Það er með öllu fordæmislaust að forsætisráðherra í samsteypustjórn gangi opinberlega gegn mikilvægum ákvörðunum fagráðherra úr samstarfsflokki hans í ríkisstjórn.[...]Tillagan, sem í efni sínu var í það minnsta allt í lagi, var sett fram sem nokkurs konar stríðsyfirlýsing gegn samstarfsflokki þínum í ríkisstjórninni og þeim aðilum sem veita heilbrigðismálum forystu í landinu,“ skrifaði Kári.
Wintris og ásakanir um landráð
Á þeim tíma sem Kári skrifaði hið opna bréf var Wintris-málið að taka á sig mynd. Hann skrifaði síðan aðra grein í Morgunblaðið sem birtist 29. mars síðastliðinn þar sem umfjöllunarefnið var enn og aftur Sigmundur Davíð. Þar sagði hann að færa mætti rök fyrir því að forsætisráðherrann hefði orðið uppvís að landráðum og taldi að hann þyrfti að víkja. Þjóðarleiðtogi sem væri að semja fyrir hönd þjóðar sinnar og hefði sem einstaklingur hagsmuna að gæta með þeim sem hann væri að semja við og gegn þjóðinni væri óhæfur til þess að sinna starfi sínu.
Kári sagði líklegt að það væru aðilar í pólitík og utan sem væru honum ósammála um þessi efni. Næsta víst væri þó að margir sæju þetta á sama hátt. „Þar af leiðandi kemurðu til með að hrekjast úr embætti að endingu þótt svo þú berjist gegn því með kjafti og klóm. Því ráðlegg ég þér að sýna auðmýkt og lítillæti og segja af þér til þess að koma í veg fyrir að þjóðin þurfi að eyða þeirri orku í enn eina innri baráttuna sem mætti annars nýta til uppbyggingar.“
Sigmundur Davíð sagði ekki af sér í kjölfar greinarinnar. Það gerði hann hins vegar nokkrum dögum síðar, þann 5. apríl, í kjölfar þess að sjónvarpsþáttur um aflandsfélagaeign hans var sýndur á RÚV og eftir að 26 þúsund manns höfðu mótmælt honum og krafist kosninga á Austurvelli.
Stærsta söfnun Íslandssögunnar
Í lok apríl afhenti Kári Sigurði Inga Jóhannssyni, nýjum forsætisráðherra, um 86 þúsund undirskriftir um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Um var að ræða stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar sem hafði þá staðið yfir í um þrjá mánuði.
Kári hætti hins vegar ekkert að skrifa greinar. Og hann hætti ekki að beina spjótum sínum að Sigmundi Davíð heldur, þótt hann væri nú „bara“ formaður Framsóknarflokksins og óbreyttur þingmaður.
Þann 8. júní skrifaði kann grein í Fréttablaðið sem bar fyrirsögnina „Buxurnar heillar þjóðar“.
Þar rifjaði Kári upp að hann hefði einhverju sinni í fortíðinni gefið tveggja ára gamalli dóttur sinni of mikið sælgæti með þeim afleiðingum að hún kúkaði í sig. Þegar móðir hennar spurði hana út í hvort þetta væri rétt kenndi hún systur sinni um að hafa kúkað í buxurnar sínar. „Þetta er svolítið fyndið og jafnvel sætt út úr munni tveggja ára barns en eitthvað allt annað þegar það heyrist frá fyrrverandi forsætisráðherra lýðveldisins. Það vill meira að segja svo til að upptakan af Sigmundi Davíð, forsætisráðherra Íslands, þar sem hann sat aulalegur fyrir framan myndavélina og tafsaði og laug, barst um allan heim og varð til þess að grínistar í sjónvarpi og útvarpi, frá Íslandi til Ástralíu, hæddust að honum og landi og þjóð. Það má því leiða að því rök að Sigmundur Davíð hafi ekki bara gert í eigin buxur heldur buxurnar heillar þjóðar,“ skrifaði Kári.
Hann sagði að það yrði íslenskri þjóð til ævivarandi skammar ef maður sem heimsbyggðin liti á sem ljúgandi aula yrði aftur í forystusveit íslenskra stjórnmála. Það yrði að koma í veg fyrir það. „Framsókn skuldar þjóðinni að verja hana gegn Sigmundi Davíð. Hann er hennar Frankenstein.“
Kári snýr sér að Jóhönnu og fortíðinni
Eftir stutt sumarfrí hefur Kári verið iðinn við greinarskrif undanfarnar vikur. Þann 9. ágúst setti hann stöðuuppfærslu á Facebook sem vakti mikla athygli og rataði í fjölmiðla.
Þar sagðist hann vilja að Bjarni Benediktsson myndi leggja fram frumvarp til fjáraukalaga í ágúst til að losa sjúklinga undar greiðsluþátttöku, efla Landspítalann og endurreisa heilsugæsluna. Allir þingmenn ættu að greiða frumvarpinu atkvæði og sýna þannig að þeir þjóni þjóðinni sem vill að þetta gerist.
En Kári gagnrýndi fleiri. Hann sagði mun á stjórnmálaflokkum virðast einungis vera til staðar þegar þeir væru í stjórnarandstöðu. „Þegar þeir eru komnir í stjórn eru þeir allir eins án tillits til hægri eða vinstri, upp eða niður, himnaríkis eða helvítis“. Í færslunni sagði hann ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa holað heilbrigðiskerfið að innan og endanlega losað hann við þá tálsýn að pólitísk hugmyndafræði hafi forspárgildi um það hvernig stjórnmálamenn hagi sér á valdastólum.
Jóhanna svaraði Kára fullum hálsi og sagði að hann yrði að setja hlutina í rétt samhengi ef hann vildi láta taka sig alvarlega. „Hefur Kári Stefánsson gleymt því að þegar vinstri stjórnin tók við árið 2009 voru fordæmalausar aðstæður á Íslandi og gjaldþrot blasti við þjóðinni,“ sagði Jóhanna í eigin stöðuuppfærslu.
Silfur er þungur málmur
Síðasta lotan í gagnrýnum skrifum Kára um ráðamenn þjóðarinnar átti sér svo stað í síðustu viku. Grein birtist í Morgunblaðinu sem snérist um gagnrýni á fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Þar sagði Kári að það væri ginnungagap milli þess sem höfuðið segir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og þess sem hjartað knýr hann til að gera. Bjarni hefði oftsinnis tekið undir þá skoðun Kára að það yrði að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga og auka fjárframlög til heilbrigðiskerfisins. Þetta væri ekki sýnilegt í áætluninni og því væri ekki að marka eitt orð sem Bjarni segði.
„Það er bara þannig að það er ekki í samræmi við eðli Bjarna sem formanns Sjálfstæðisflokksins að hlúa að velferðarkerfinu, án tillits til skoðana hans og yfirlýsts vilja. Silfur er þungur málmur og þungir málmar eru hættulegir heilanum og heilinn er það líffæri þar sem eðli manna verður til. Þegar menn tilheyra fjölskyldu þar sem börn hafa fæðst með silfurskeið í munni í tvær kynslóðir er hætta á því að þeim sé eðlilegra að vera kóngulóin sem situr í miðjum vefnum sem tengir saman viðskipti og stjórnmál en að hlúa að almúganum í landinu. Eðlið er nefnilega oftast viljanum yfirsterkara. Þess vegna hljótum við að koma Bjarna út af þingi við kosningarnar í haust og með því bjarga honum frá þeim sársauka sem hlýst af árekstri vilja og eðlis en fyrst og fremst kæmum við þannig í veg fyrir að stjórn landsins lendi aftur í höndunum á mönnum sem er ekkert að marka.,“ skrifaði Kári.
Dagur fær sneið
Á fimmtudag bætti Kári enn við gagnrýni sína í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið. Þar bað hann Bjarna afsökunar á því að hafa haft hann einan í mynd í fyrri grein, þótt allt sem hann hefði skrifað um ráðherrann hefði verið meira og minna satt. „Ég hefði til dæmis átt að sýna félagshyggjutröllið og borgarstjórann hann Dag B. Eggertsson sem ríkir í umboði Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Besta flokksins: Grunnskólar borgarinnar eru þær stofnanir þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur menntun sína sex ára að aldri. Það er í grunnskólunum sem börnin eru mótanlegust og móttækilegust fyrir hollum áhrifum. Góður grunnskóli er líka sú stofnun sem getur hlúð að börnum sem búa við erfiðar aðstæður heima fyrir. Grunnskólar Reykjavíkur eru hins vegar illa mannaðir og sveltir af fé að því marki að skólastjórar þeirra hafa mótmælt svo kröftuglega að búast má við að næsta skref þeirra verði vopnuð bylting.
Kári ætlar að safna liði ef honum verður ekki hlýtt
Athyglisverðasti hluti greinarinnar var hins vegar niðurlag hennar. Þar sagði Kári að hann væri að safna liði sem muni fylgjast grannt með hvernig núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sinna heilbrigðiskerfinu fyrir kosningar. Ef ekki verði gert raunverulegt átak í þeim málum muni Kári og lið hans „gera allt sem við getum til þess að sannfæra kjósendur um að hunsa ykkur[...]Við munum einnig geta okkar besta til þess að sjá til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir heiti stuðningi við heilbrigðiskerfið á þann hátt að það verði ekki auðveldlega svikið.“
Í ljósi þess hversu viðkvæmir stjórnmálamenn virðast vera fyrir gagnrýni Kára, hversu vel hann nær eyrum almennings með hvassri framsetningu sinni og hversu staðráðinn hann virðist vera í að ná sínu fram eru töluverðar líkur á því að stjórnmálaaflið Kári Stefánsson muni leika lykilhlutverk í komandi kosningabaráttu. Og það án þess að vera einu sinni á kjörseðlinum.