Skatttekjur hvers Norðmanns vegna auðlindanýtingar eru 18 sinnum hærri en þær skatttekjur sem skila sér í gegnum samneysluna til hvers Íslendings. Skatttekjur af auðlindum á hvern íbúa í Noregi eru 416.400 krónur en á Íslandi eru þær 23 þúsund krónur. Í Noregi kemur skatturinn að mestu vegna nýtingu á olíu (404 þúsund krónur) en einnig vegna orkuskatta. Á Íslandi er eina nýtingargjaldið sem greitt er fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar veiðigjald í sjávarútvegi, sem hefur farið hríðlækkandi á undanförnum árum. Þetta kemur fram í skýrslu sjálfstæðrar verkefnastjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld um breytingar og umbætur á skattkerfi sem birt var í dag.
Verkefnisstjórnin, sem hóf störf í febrúar á þessu ári, var skipuð sex sérfræðingum í skattmálum. Dr. Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands fór fyrir verkefnisstjórninni en hún var jafnframt skipuð þeim Völu Valtýsdóttur lögfræðingi, dr. Axel Hall hagfræðingi, Halldóri Benjamín Þorbergssyni hagfræðingi, Elínu Elmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra og Alexander Edvardssyni löggiltum endurskoðanda. Verkefnisstjórnin hefur þegar kynnt tillögur sínar fyrir Samráðsvettvangnum.
Það þarf að hækka auðlindagjöld
Í skýrslunni er meðal annars fjallað sérstaklega um breytingar á umhverfis- og auðlindagjöldum. Þar segir að þrjár meginstoðir séu í auðlindageiranum á Íslandi: ferðaþjónusta, sjávarútvegur og álframleiðsla. Útflutningstekjur á hvern Íslending séu 1.096 þúsund krónur vegna ferðaþjónustu, 796 þúsund vegna sjávarútvegs og 717 vegna álframleiðslu.
Skýrsluhöfundar segja að vegna takmarkaðs magns auðlinda þá þurfi arðsemi að aukast í öllum auðlindageirum á komandi árum. Gjöld fyrir nýtingu þeirra sem endurspegli umframhagnað eða auðlindarentu séu því hagkvæm tekjuöflun. Því er verkefnastjórnin að leggja til að umfangsmeiri en samræmdari gjöld verði lögð á auðlindanýtingu sem skili meiru í ríkiskassann ef atvinnuvegirnir sem nýta auðlindirnar gangi vel. Það sem kemur inn til viðbótar eigi að fara í að lækka aðra skatta á borð við virðisaukaskatt, tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald. Þannig njóti sem flestir ábatans.
Hækka gistináttaskatt og setja á bílastæðagjöld
Verkefnastjórnin leggur fram fimm tillögur. Í ferðaþjónustu leggur hún til að innheimta bílastæðagjalda við ferðamannastaði verði aukin og auðvelduð, enda séu bílastæðagjöld regla fremur en undantekning við fjölfarna ferðamannastaði alls staðar um hinn vestræna heim. Hún leggur einnig til að gistináttaskatti verði breytt og hann hækkaður.
Í tillögunum er lagt til að föst fjárhæð verði rukkuð fyrir hverja gistnótt en að tjaldsvæði verði undanþegin skattlagningunni. Þar er einnig lagt til að stærstur hluti skattteknanna renni til sveitarfélaganna þar sem skatturinn myndast, enda hafi þau orðið eftirá í tekjuöflun vegna vaxandi ferðaþjónustu þrátt fyrir að leika lykilhlutverk í móttöku þeirra. Þá eigi hluti teknanna að renna í framkvæmdasjóð ferðamála.
Gjaldataka í sjávarútvegi markist af afkomu
Um fátt hefur verið deilt jafn hatrammlega undanfarna áratugi á Íslandi og skiptingu arðsemi vegna nýtingu á fiskveiðiauðlindinni. Þar hefur langstærsti hluti arðseminnar fallið eigendum sjávarútvegs, sem hafa fengið úthlutað kvóta endurgjaldslaust, í té. Kjarninn greindi til að mynda frá því um liðna helgi að Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, hefði hagnast um 71,7 milljarða króna á fimm árum. Tveir menn eiga Samherja að mestu. Veiðgjöld sem lögð hafa verið á útgerðir landsins hafa lækkað um samtals 23 prósent í valdatíð sitjandi ríkisstjórnar og voru tæplega fimm milljarðar króna í fyrra.
Verkefnastjórnin leggur til fyrirkomulag nýtingaréttar og gjaldtöku verði byggt á sömu málefnalegu rökum óháð tegund auðlinda. Gjaldtakan eigi meðal annars að endurspegla afkomu í veiðum.
Skýrsluhöfundar leggja því til að gerðir verði einkaréttarlegir nýtingasamningar með föstum gildisíma í stað úthlutun aflamarks. Gjaldið sem greitt verði sé ákvarðað á markaðsforsendum og byggir á aflabrögðum og verði á sama fiskveiðiári.
Búa á til auðlindasjóð
Sama eigi að gilda um orkuframleiðslu. Þar verði gerðir langtímasamningar um greiðslu orkuskatta og að eignarhaldi auðlinda í eigu ríkisins safnað saman á einn stað. Slíkur staður yrði þá einhvers konar auðlindasjóður.
Verkefnastjórnin vill auk þess hækka kolefnisgjald, en tekjur ríkisins af því voru rúmlega þrír milljarðar króna á árinu 2015. „Hækkun gjaldsins gæti skilað umtalsverðri aukningu á tekjum og skapað hvata til að draga úr losun á þann hátt sem er skilvirkastur,“ segir í skýrslunni.
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um þær tillögur sem lagðar eru fram um breytingar og umbætur á skattkerfinu á næstunni.