Facebook hefur greint frá því að horft sé á yfir 100 milljónir klukkutíma af myndböndum á Facebook á hverjum degi. Nicola Mendelsohn, yfirmaður Facebook í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku, hefur meira að segja spáð því að innan fimm ára verði Facebook líklega eingöngu í myndbandaformi. „Besta leiðin til að segja sögur í þessum heimi, þar sem svo mikið af upplýsingum er beint að okkur, er með myndböndum. Þú færð svo miklu meiri upplýsingar á mun styttri tíma. Svo þetta hjálpar okkur að melta meiri upplýsingar,“ sagði Mendelsohn á ráðstefnu í London í júní síðastliðnum.
Það er greinilegt af prófkjörsbaráttum undanfarinna vikna, sérstaklega í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, að þar ætlar fólk ekki að láta þessa tækni og leið til að koma sér á framfæri renna sér úr greipum.
Að minnsta kosti átján frambjóðendur í prófkjörum og flokksvölum þessara flokka réðust í myndbandagerð í baráttu sinni, og Kjarninn tók saman brot af myndböndunum.
Sumir fóru þá leið að birta „venjuleg manneskjuviðtöl“ þar sem talað er almennt um frambjóðandann, en ekki um stjórnmálin. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem hreppti annað sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, var einna duglegastur í myndbandagerð og eitt myndbandið var með þessum hætti. Hann birti hins vegar líka hálfgert grínmyndband, þar sem hann segir sögu af sjálfum sér buxnalausum í ræðustól Alþingis, og myndbönd um málefni sem hann hyggst berjast fyrir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir náði líka mjög góðum árangri í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík og lenti í þriðja sæti. Hún gerði mörg myndbönd, flest um málefnin, en einnig eitt grín- og manneskjulegt myndband, þar sem hún er sýnd í öðru ljósi.
Myndbandagerð getur verið góð leið fyrir nýja frambjóðendur að kynna sig. Sema Erla Serdar og Margrét Gauja Magnúsdóttir náðu fínum árangri í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi um helgina.
Nýir frambjóðendur voru sem fyrr segir duglegir við að koma sér á framfæri með myndböndum.
Bryndís Haraldsdóttir, sem lenti í fimmta sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, birti myndbönd með stuðningsfólki sínu, meðal annars Ragnheiði Ríkharðsdóttur, fráfarandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins.