Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvestur- og Suðurkjördæmi um helgina reyndust konum í flokknum hörð lexía. Þar eru karlar, flestir um og yfir miðjum aldri, í öllum efstu sætum á framboðslistum. Einu konurnar sem gætu átt möguleika á að komast á þing sitja í baráttusætum. Enn á eftir að staðfesta framboðslistanna í miðstjórn og þótt að lykilfólk í forystu Sjálfstæðisflokksins - þar á meðal flokksformaðurinn Bjarni Benediktsson - hafi lýst yfir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem er komin upp er ljóst að andstaða við breytingar á niðurstöðum prófkjara er einnig mikil. Í Staksteinum Morgunblaðsins eru kynja- og aldurskvótar í prófkjörum til að mynda harðlega gagnrýndir og sagt að það sé „tímabært að hætta þessum kynja- og aldurskvótum og treysta kjósendum til að raða listum á lýðræðislegan hátt.“
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í dag 19 þingmenn. Þá fékk hann 26,7 prósent atkvæða. Í nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist fylgi hans 26,3 prósent og því má ætla, haldist sú staða, að þingmannafjöldi flokksins verði svipaður að loknum kosningum í október. Ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda öllum sömu þingsætunum og hann fékk árið 2013 yrði fjöldi kvenna í þingmannahópnum sá sami og hann var að loknum þeim kosningum, þær yrðu sex en karlarnir 13. Á kjörtímabilinu bættist reyndar ein kona, Sigríður Á. Andersen, við þingmannahópinn þegar Pétur Blöndal lést. Því yrði staða kvennanna verri en hún er í dag ef allt færi á sama veg.
Það þarf þó lítið út af að bregða til að kynjahlutföll í þingmannahópi Sjálfstæðismanna verði afleit. Fjórar þeirra kvenna sem eiga góðan möguleika á þingsæti sitja nefnilega í baráttusætum á listum í sínum kjördæmum, þ.e. síðasta sætinu sem skilaði Sjálfstæðisflokknum manni á þing í kosningunum 2013. Tapi Sjálfstæðisflokkurinn þingsætum í þeim fjórum kjördæmum fækkar konunum í þingmannaliðinu úr sex í tvær. En karlarnir verða áfram 13.
Konurnar berjast, karlarnir öruggir
Þær konur sem eru í baráttusætum eru Bryndís Haraldsdóttir (fimmta sæti í Suðvesturkjördæmi), Sigríður Á. Andersen (þriðja sætið í öðru hvor Reykjavíkurkjördæminu), Unnur Brá Konráðsdóttir (væntanlega í fjórða sæti í Suðurkjördæmi) og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (í öðru sæti í Norðvesturkjördæmi).
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er líkast til nokkuð örugg með þingsæti þar sem hún mun sitja í öðru sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu hjá Sjálfstæðisflokknum. Fjórar konur sitja þar í efstu átta sætunum í höfuðborginni og þrjá þeirra eiga raunhæfa möguleika á að ná inn á þing. Framboðslisti flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum hefur samt sem áður legið undir gagnrýni fyrir einsleitni. Þannig eru nefnilega sjö af átta efstu lögfræðingar eða í lögfræðinámi. Eina undantekningin er Guðlaugur Þór Þórðarson, sem er stjórnmálafræðingur og mun leiða annað Reykjavíkurkjördæmið.
Í Suðvesturkjördæmi var Elínu Hirst, sitjandi þingmanni, rækilega hafnað og fjórum körlum raðað í efstu fjögur sætin á lista flokksins. En kvennaleysið í efstu sætum á lista Sjálfstæðisflokksins er ekki eina kynbundna áfallið sem flokkurinn hefur orðið fyrir. hin þrautreynda Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem var varaformaður flokksins og ráðherra fyrir hann, hefur nefnilega ákveðið að bjóða sig fram í kjördæminu fyrir Viðreisn. Það gerir henni án efa auðveldara að marka sér nýja stöðu með nýjum flokki að engin kona situr í efstu sætunum í hennar gamla flokki. Afstaða Þorgerðar Katrínar til stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins, áður en hún yfirgaf hann, á ekki að hafa farið fram hjá neinum. Í viðtali við Fréttablaðið í október í fyrra sagði hún:„Flokkurinn, í ljósi sögunnar, hefur alltaf látið sér nægja að hafa einhverja eina konu einhvers staðar sem ákveðna fjarvistarsönnun fyrir því að það sé bara allt í lagi.“
Ein kona leiðir
Þá liggur fyrir að einungis ein kona mun leiða lista Sjálfstæðismanna í kosningunum 2016, varaformaðurinn Ólöf Nordal sem mun sitja í fyrsta sæti í öðru hvor Reykjavíkurkjördæminu. Í hinum kjördæmunum fimm verða oddvitarnir Bjarni Benediktsson (Suðvesturkjördæmi), Páll Magnússon (Suðurkjördæmi), Haraldur Benediktsson (Norðvesturkjördæmi) og Kristján Þór Júlíusson (Norðausturkjördæmi). Í kosningunum 2013 voru konurnar sem leiddu tvær: Hanna Birna Kristjánsdóttir sat í fyrsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi Suður og Ragnheiður Elín Árnadóttir í Suðurkjördæmi. Hanna Birna hefur þegar ákveðið að hætta í stjórnmálum og sömu sögu er að segja af Ragnheiði Ríkharðsdóttur, sem var í öðru sæti á framboðslista flokksins í Kraganum 2013.
Ragnheiður Elín, sem setið hefur sem ráðherra, galt afhroð í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi um helgina. Hún sóttist eftir fyrsta sætinu að nýja en lenti í því fjórða, á eftir þremur körlum. Í gær tilkynnti Ragnheiður Elín svo að hún ætlaði sér ekki að þiggja sætið og að hún muni stíga út úr stjórnmálum að loknum næstu kosningum.
Tveimur öðrum þingkonum Sjálfstæðisflokks var hafnað í nýlegum prófkjörum og karlar settir í þau sæti á listum sem geta mögulega skilað þingsætum. Það eru Valgerður Gunnarsdóttir í Norðausturkjördæmi og Unnur Brá Konráðsdóttir í Suðurkjördæmi.
Þegar er byrjað að ræða mögulegt hægrisinnað kvennaframboð í kjölfar þeirrar niðurstöðu sem opinberuð var um helgina. Helga Dögg Björgvinsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, sagði slíkt framboð hugsanlegt í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 í morgun. Elín Hirst tók undir með henni á samfélagsmiðlum.
Eldra fólk kýs Sjálfstæðisflokk, yngra fólk síður
Þótt höfnun kvenna og gott gengi miðaldra karla í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins hafi komið mörgum í opna skjöldu þá kemur hún ekki að öllu leyti á óvart. Samkvæmt könnun MMR á fylgi flokka frá því í fyrra, þar sem fylgið var greint eftir aldri, kyni og ýmsu öðru, kom í ljós að færri konur styðja Sjálfstæðisflokkinn en karlar. Á þeim tíma, þegar fylgi flokksins mældist aðeins lægra en það mælist í dag, sögðust um fjórðungur karla kjósa Sjálfstæðisflokkinn en rúmlega fimmtungur kvenna.
Þá kom í ljós að þorri fylgis Sjálfstæðisflokksins kemur frá fólki yfir fimmtugu. Þar sögðust um 60 prósent ætla að kjósa flokkinn. Hann er hins vegar í greinilegum vandræðum við að ná til ungs fólks því að fylgi Sjálfstæðisflokksins hjá fólki á aldrinum 18-29 ára mælist mældist einungis 12,5 prósent.
Fyrrverandi vonarstjarna reyndist sannspá
Margir innan flokks virðast hafa séð þá þróun sem varð í prófkjörum helgarinnar fyrir. Einn þeirra er Ásdís Halla Bragadóttir.
Hún var á sínum tíma mikil vonarstjarna í flokknum, var bæjarstjóri í Garðabæ og oftsinnis orðuð við forystuhlutverk á landsvísu. Af því varð aldrei og fyrir áratug steig hún út úr pólitík og einbeitti sér að frama í viðskiptum.
Ásdís Halla tjáði sig um stöðu flokks síns í stöðuuppfærslu á Facebook um helgina. Þar sagði hún að nú yrði fróðlegt að sjá hvort niðurstöður í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins sem þá fóru fram yrðu í takti við þau sem er lokið, og þá sérstaklega með tilliti til árangurs kvenna. „Spurningin sem er efst í mínum huga er hvort að það verði staðfest að flokkurinn sé og verði alltaf bara ,einnar konu’ flokkur? Það eru flokkar sem velja til forystu eina reynda konu en inn á milli eru ungar og efnilegar konur til að ásýndin verði ekki eins karllæg. Um leið og efnilegu konurnar eru komnar með meiri reynslu og gera tilkall til frekari áhrifa eða embætta er þeim ýtt til hliðar – og nýjar ungar konur valdar í þeirra stað. Ég geri alls ekki lítið úr efnilegu konunum – ég hef verið ein af þeim, bjartsýn, kraftmikil og kjörkuð. Ég hef mikla trú á þeim, ég styð þær og vona innilega að þær nái sem mestum árangri – en óttast að fáar þeirra verði langlífar innan flokksins ef ekki verður breyting á menningunni.“
Hún rakti svo niðurstöður í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Norðvesturkjördæmum, þar sem tvær ungar konur fengu brautargengi en reyndri stjórnmálakonu var ýtt neðar á lista. Það hafi líka gerst í Norðausturkjördæmi þar sem Valgerður Gunnarsdóttir lenti í þriðja sæti, en karlar í tveimur sætum fyrir ofan hana, sem leiðir væntanlega til þess að Valgerður detti af þingi. Eina reynda þingkonan í þessum fjórum kjördæmum sem sé örugg með þingsæti sé Ólöf Nordal. Hinar sem gætu komist inn séu „ungar og efnilegar“.
Ásdís Halla spáði því svo fyrir að Elín Hirst myndi ekki ná öruggu þingsæti í prófkjöri um helgina og lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu tveggja reyndra þingkvenna, Ragnheiðar Elínar og Unnar Brá, í Suðurkjördæmi. „Hart er sótt að Ragnheiði og svo virðist vera sem í genum flokksins brjótist um það óþol að varla sé hægt að vera með of margar reyndar konur í áhrifastöðum. Miklu nær sé að velja til forystu karl, fjölmiðlamann, án reynslu af pólitík, til að fækka hugsanlegum kvenráðherrum.
Hvað gerist á laugardag verður fróðlegt að sjá.
Fá Ragnheiður og Unnur Brá þá glæsilegu kosningu sem þær eiga skilið? Eða er ósýnilega höndin svo sterk að ,einnar konu’ lögmálið verður enn og aftur ofan á?“
Niðurstaðan varð sú síðarnefnda.