Hefðbundin skilgreining á költ-mynd er sú að aðdáun á henni nái út fyrir „eðlileg“ mörk. Yfirleitt eru költ-myndir söngleikir, hryllingsmyndir eða vísindaskáldskapur sem byggja á einhverju óvenjulegu eða yfirnáttúrulegu. Stark Trek og The Rocky Horror Picture Show eru einhver bestu dæmin sem til eru um költ. En af hverju er The Big Lebowski, venjuleg gamanmynd um letingja sem hefur gaman að keilu, ein allra mesta költ-mynd sem til er?
Rólega af stað
Sjöunda mynd Coen bræðra,The Big Lebowski, kom út vorið 1998 og fékk tiltölulega hógværar undirtektir, bæði af gagnrýnendum og bíógestum. Atburðarrásin þótti skrítin og stefnulaus, jafnvel á þeirra mælikvarða, og persónurnar líka. Flestum fannst myndin vera virkileg vonbrigði eftir þá mynd sem Coen bræður gerðu á undan, Fargo frá 1996. Hinn frægi kvikmyndarýnir Gene Siskel sagði að Kingpin hefði verið mun betri keilumynd en The Big Lebowski.
Í kvikmyndahúsum náði myndin rétt svo að dekka framleiðslukostnaðinn.
Tilurð myndarinnar nær aftur til ársins 1989 þegar bræðurnir Joel og Ethan hripuðu niður fyrstu línurnar. Handritið var svo gott sem tilbúið tveimur árum seinna en þá frestaðist framleiðsla myndarinnar vegna skipulagsárekstra. Bræðurnir höfðu skrifað persónurnar með ákveðna leikara í huga. Sumir af þeim, þ.m.t. Jeff Bridges og Steve Buscemi, voru ekkert sérstaklega hændir að handritinu en fengust loks til að taka þátt en eftir að þeir höfðu unnið að öðrum verkefnum. Bræðurnir geymdu því handritið og gerðu The Hudsucker Proxy (1994) og Fargo í millitíðinni.
The Big Lebowski gerist árið 1991 en atburðarrásin er í stórum dráttum fengin úr film noir bókum og kvikmyndum frá fimmta og sjötta áratugnum. Sérlegan innblástur fengu þeir úr verkum um einkaspæjarann Philip Marlowe, sem rithöfundurinn Raymond Chandler skóp og leikarar á borð við Humphrey Bogart, James Garner og Robert Mitchum hafa túlkað í gegnum tíðina. Fyrirmyndirnar af helstu persónum myndarinnar voru hins vegar fengnar frá ýmsu fólki sem bræðurnir höfðu kynnst úr kvikmyndabransanum. Má þar helst nefna framleiðandann Jeff Dowd, fyrrum hippa sem kallaður er Dude og drekkur hvíta rússa, og byssuóða leikstjórann John Milius.
Költ verður til
Kvikmyndir verða ekki költ samstundis heldur tekur það yfirleitt nokkurn tíma. Í tilfelli The Big Lebowski gerðist það eftir að hún kom út á DVD disk. Salan á myndinni jókst stöðugt og fleiri fóru að taka eftir henni. Um þremur árum eftir að hún kom út er hægt að tala um að eiginlegt æði hafi átt sér stað. Tekjur af DVD sölu voru fimmfaldar á við tekjurnar úr kvikmyndahúsunum. Myndin vakti sérstaka hrifningu meðal háskólanema og hún hefur sennilega verið til á hverju einasta herbergi á hverri einustu heimavist í Bandaríkjunum. Aðdáendur, sem nú voru farnir að kalla sig „afreksfólk“ (sbr. Little Lebowski Urban Achievers), voru farnir að tala á ákveðinn hátt, þ.e. í frösum úr myndinni. Þeir urðu fljótir að spotta hvern annan og fóru að átta sig á því að hér var um töluvert stórt samfélag að ræða.
Árið 2002 tóku nokkrir aðdáendur sig saman og héldu hátíð til heiðurs myndinni í borginni Louisville í Kentucky fylki. Hátíðin heitir Lebowski Fest og hefur verið haldin á hverju einasta ári síðan. Aðdáendur í mörgum öðrum borgum Bandaríkjanna og í Bretlandi hafa fylgt fordæmi þeirra og komið á legg sinni eigin Lebowski-hátíð. Á þessum hátíðum koma gestir klæddir sem persónur úr myndinni, það er horft á myndina, keppt í keilu, spiluð tónlist úr myndinni og með Creedence Clearwater Revival, haldnar spurningakeppnir og svo eru auðvitað drukknir ófáir hvítir rússar. Margir af aðalleikurum myndarinnar hafa heimsótt þessar hátíðir. Jeff Bridges sem er sérlega duglegur við að rækta aðdáendahópinn er tíður gestur á þeim.
Orðið költ felur í sér trúarlega tengingu og í vissum tilvikum getur aðdáunin leitað inn á þær brautir. Það hefur t.a.m. gerst í tilviki Star Wars (Jedi-trúarbrögðin) og knattspyrnumannsins Diego Maradona (Kirkja Maradona). Árið 2005 stofnaði maður að nafni Oliver Benjamin trúarreglu sem nefnist dudeismi. Starfsemin fer að mestu fram á netinu og þar er hægt að sækja um að gerast vígður prestur. Um 350.000 manns um allan heim hafa gert það og í sumum fylkjum Bandaríkjanna hafa þeir hjónavígsluréttindi. Dudeismi er lauslega byggður á búddisma og taóisma en kennisetningar eru fáar og einfaldar. Skipulag er ekki það sem þessi trúarbrögð snúast um. Benjamin segir: „Því afslappaðra sem við höfum það, þeimun meira dude verður það.“
Í dudeisma er þó eitthvað skipulag. T.d. er haldið upp á hátíðina Kerabatsmas (í höfuðið á persónunni Donny Kerabatsos) þann 13. desember ár hvert en það er afmælisdagur Steve Buscemi. En eins og á öðrum hátíðardögum dudeisma þá felst hátíðarhaldið aðallega í því að slappa af. Jeff Bridges sjálfur hefur einnig kannað andlegu hlið kvikmyndarinnar. Árið 2014 gaf hann ásamt búddíska zen-meistaranum Bernie Glassman út bókina The Dude and the Zen Master þar sem þeir eiga samræðu um eðli persónunnar og þann lærdóm sem hægt er að draga úr myndinni. Glassman fullyrðir að ýmsar setningar úr myndinni eins og t.d. „The Dude abides“ og „Donny, you´re out of your element“ séu í raun svokölluð koan-ljóð, sem t.a.m. eru notuð til að þjálfa búddamunka.
Þetta eru ekki einu dæmin um það hversu aðdáunin á The Big Lebowski nær langt út fyrir mörk hins eðlilega. Í hverjum mánuði kemur út hljóðvarp (podcast) þar sem myndin er krufin til mergjar. Hægt er að kaupa The Big Lebowski pakka, sem inniheldur m.a. afsagaða plasttá. Kóngulóartegundin anelosimus biglebowski sem lifir í austur-Afríku er nefnd eftir myndinni. Einnig Lebowskia grandifola sem er útdautt barrtré sem lifði á perm jarðsögutímabilinu (fyrir um 300-250 milljón árum síðan). Í New York borg er verslun sem selur eingöngu vörur tengdar myndinni. Hér á Íslandi er meira að segja bar sem helgaður myndinni.
Af hverju þessi mynd?
Það er oft erfitt að skýra af hverju kvikmynd verður költ. Eitt sem víst er er að það var ekki vegna sögunnar sem slíkrar því að myndin er í raun hálf stefnulaus farsi. Flestum sem horfa á myndina er í raun sama um glæpamálið sem The dude er að reyna að leysa og margir muna ekki einu sinni hvernig eða hvort það leystist, jafnvel eftir að hafa séð myndina margoft. Joel Coen segir:
Með þessari mynd áttuðum við okkur á því að, ef hlutirnir verða aðeins og flóknir eða óskýrir, þá skiptir það í rauninni ekki máli. ... Þetta er svipað og hjá [Raymond] Chandler. Söguþráðurinn skiptir minna máli en aðrir hlutir sem eru að gerast í verkinu. Ég held að þó að fólk verið svolítið ringlað þá eigi það ekki að koma í veg fyrir að það hafi gaman að myndinni.
Margar af minnistæðustu persónum myndarinnar, eins og t.d. keilusnillingurinn og kynferðisafbrotamaðurinn Jesus Quintana, hafa nákvæmlega ekkert með söguþráð myndarinnar að gera. Það skiptir heldur ekki máli því að áhorfandinn er fyrst og fremst að fylgjast með persónunum sjálfum, aðstæðum þeirra og samtölunum. Þar kemur helsti styrkleiki Coen bræðra fram sem handritshöfunda, þ.e. að búa til persónur og samtöl sem eru skrítin en jafnframt sniðug og fyndin og fyrst og fremst eftirminnileg.
Valið á Jeff Bridges sem the dude var fullkomið. Hann naut sín við tökurnar og persónan dró allt það besta fram úr honum. The dude er ekki einungis aðalpersóna myndarinnar heldur er hann viðstaddur í hverju einasta atriði myndarinnar. Margar aðrar persónur í myndinni eru ógleymanlegar og eiga frábærar línur en költ The Big Lebowski snýst fyrst og fremst um The dude. Hann er nokkurs konar and-hetja, latur og ábyrgðarlaus, en honum er ýtt inn í aðstæður sem hann ræður illa við. Hann er eins langt frá því að vera einkaspæjari á borð við Philip Marlowe sem hugsast getur. The dude er nautnaseggur sem vill bara slaka á og margir áhorfendur tengja því einstaklega vel við hann. Coen bræður hafa búið til sæg af eftirminnilegum persónum í gegnum tíðina, s.s. óléttu lögreglukonuna Marge Gunderson úr Fargo, raðmorðingjann með ljóta hárið Anton Chigurh úr No Country for Old Men og ritstíflaða leikritaskáldið Barton Fink úr samnefndri mynd. En engin persóna er jafn greipt í minni fólks og The dude. Will Russell, stofnandi Lebowski Fest, segir:
The dude nær yfir öll mörk. Hann er þessi and-hetju, and-efnishyggju, lág-metnaðar, sátt-með-sjálfa-sig, ósvikna persóna. Fólk bregst við þannig karakter. The dude þarf ekki fínan bíl eða stórt hús. Hann er bara hamingjusamur ef hann kemst í freyðibað og í keilu með vinum sínum. Það er allt sem hann vill.
Í nútíma samfélagi geta fæstir lifað eins og The dude. Væntingar samfélagsins og utanaðkomandi þrýstingur er einfaldlega of mikill. Nákvæmlega þess vegna er hann svona dáður. Hann er það sem við viljum vera.
Samtölin, hinar einstöku setningar og aðstæðurnar sem þær eru skrifaðar inn í, eiga einnig einn stærsta þáttinn í vinsældunum. Það er ógrynni af gullnum línum sem gerir það að verkum að hægt er að horfa á myndina aftur og aftur og aftur. Það kemur ekki á óvart að hún hafi selst svona vel á DVD og Blu-ray, hún er hin fullkomna mynd til að eiga heima hjá sér. Það er alltaf hægt að setja hana í gang, finna eitthvað nýtt eða endurvekja kynnin við frasana sem maður þekkir svo vel. Allir eiga sínar uppáhalds línur úr myndinni.
Framhald
Vegna þessarra síðbúnu vinsælda The Big Lebowski hefur verið þrýst á Coen bræður að gera framhaldsmynd. Þeir eru aftur á móti alls ekki á þeim buxunum að verða við því. Joel hefur t.a.m. sagt að hann einfaldlega fyrirlíti framhaldsmyndir. Bræðurnir hafa ávallt farið sínar eigin leiðir og samningur þeirra við kvikmyndaverin tryggir þeim fullt listrænt frelsi sem er mjög óalgengt í kvikmyndabransanum í dag. Í mörg ár hefur leikarinn John Turturro þrábeðið þá um að gera sérstaka kvikmynd (spin-off) um persónuna sem hann lék í myndinni, Jesus Quintana. Nýverið gáfu þeir loks leyfi fyrir slíkri mynd en þeir munu þó sjálfir ekki koma nálægt henni heldur mun Turturro sjálfur skrifa og leikstýra myndinni sem mun bera titilinn Going Places. Hann mun vitaskuld sjálfur fara með hlutverk Quintana og meðal leikara myndarinnar verða Susan Sarandon og Audrey Tautou sem varð fræg fyrir hlutverk sitt sem Amelie í samnefndri mynd frá árinu 2001. Handrit myndarinnar er byggt á Les Valseuses, franskri kvikmynd frá árinu 1974 sem skartar m.a. Gerard Depardieu og þótti mjög umdeild á sínum tíma vegna mikillar nektar og óheflaðs orðbragðs. Lítið annað er vitað um gerð myndarinnar annað en það að tökur hófust nú í ágúst.
Menningarverðmæti
Árið 2014 var ákveðið að taka The Big Lebowski inn í Þjóðarkvikmyndasafn bandaríska þingsins. Það þýðir opinberlega að hún þykir hafa menningarlegt, sagnfræðilegt og/eða listfræðilegt gildi í sjálfu sér og njóti því verndar ríkisins. Af um 650 kvikmyndum, stuttmyndum og heimildarmyndum er hún meðal þeirra 5 yngstu á listanum. Myndin er því ekki einungis mikilvæg í hugum aðdáenda hennar, hún er svart á hvítu skilgreind sem menningarverðmæti.
Það er í raun ekki undarlegt því að The Big Lebowski hefur sett sitt mark, þóg hógvært sé, á menningu okkar og skapað táknmyndir sem allir þekkja. Keilukúla, hvítur rússi, afskorin tá, víkingahjálmur,rauðleitt persneskt teppi og hin óborganlega blanda af sandölum, baðsloppi og sólgleraugum. Allt eru þetta hlutir sem fólk tengir strax við þessa kvikmynd sem svo ólíklega til varð að alþjóðlegu fyrirbæri.
Tíu af þekktustu setningum myndarinnar:
"The Dude abides." – Dude
"Shut the fuck up, Donny!" – Walter
"I had a rough night and I hate the fuckin´ Eagles, man!" – Dude
"You said it man. Nobody fucks with the Jesus." – Jesus
"Over the line! – Walter"
"Yeah, well, you know, that´s just, like, your opinon, man." – Dude
"This is what happens when you fuck að stranger in the ass, Larry!" – Walter
"Careful man, there´s a beverage here!" – Dude
"Calmer than you are." – Walter
"The Knutsens? Who the fuck are the Knutsens?" – Dude