Þorsteinn Þorsteinsson, aðalsamningamaður íslenska ríkisins við endurreisn viðskiptabankanna, segir að skýrsla meirihluta fjárlaganefndar, „Einkavæðing bankanna hin síðari“, vegi alvarlega að starfsheiðri sínum með ýmsum niðrandi ummælum. „Sem leikmaður geri ég mér þó ekki grein fyrir hvort þau ummæli, sem að mínu mati eru atvinnurógur, meiðyrði og svívirðingar, varði við lög.“ Þetta kemr fram í bréfi sem Þorsteinn sendi fjárlaganefnd og forseta Alþingis í dag.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, kynntu skýrsluna fyrir fréttamönnum á mánudag. Í henni eru lagðar fram fjölmargar ásakanir gagnvart þeim stjórnmálamönnum, embættismönnum og sérfræðingum sem unnu að endurreisn bankakerfisins á árinu 2009. Á einum stað hennar segir m.a. að skjölin sem skýrslan byggi á sýni „undarlegan ótta samningamanna við kröfuhafana og vanmetakennd gagnvart hátt launuðum lögfræðingaher þeirra. Þau sýna sérkennilega áráttu íslenska samningafólksins til að gæta hagsmuna viðsemjenda sinna og tryggja að þeir bæru ekki skarðan hlut frá borði.“
Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður sem kom að samningsgerðinni,sagði við RÚV ígær að hann teldi að ávirðingarnar sem settar séu fram í skýrslunni séu svívirðilegar. „ Þarna er vikið orðum að samningamönnum og samningafólki, þarna er undir fjöldi fólks, ráðuneytisfólks, embættismanna og annarra sérfræðinga þarna komu að. Mér fannst þetta algjör svívirða og sér í lagi vegna þess að það var ekki talað við einn einasta mann sem að þessu hafði komið og hefði getað útskýrt málið fyrir þeim sem sömdu þessa skýrslu,“ sagði Jóhannes Karl.
Guðlaugur Þór baðst í gær afsökunar á því að orðalag í skýrslunni sé þannig að hægt sé að skilja það sem „árásir eða gagnrýni á embættismenn og sérfræðinga sem komu að málum og sinntu verkum sínum af samviskusemi“. Hann boðaði einnig að orðalag skýrslunnar verði endurskoðað. „Gildishlaðin orð eða annað sem valdið getur misskilningi verður fjarlægt þannig að efnisleg umræða fari fram.“ Aldrei hafi verið ætlun meirihluta fjárlaganefndar að vega að starfsheiðri einstaklinga sem eiga ekki annað skilið en þakkir fyrir sín störf. Vigdís hefur ekki beðist afsökunar á orðalagi skýrslunnar.
Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna í fréttaskýringu á þriðjudag.
Fjölmargar ásakanir
Fjölmargar ásakanir eru settar fram í skýrslunni. Í henni segir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og sérstaklega fjármálaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, í samstarfi við embættismenn og Seðlabanka Íslands, hafi ákveðið að hefja aðför gegn neyðarlögunum í febrúar 2009 með það að markmiði að færa kröfuhöfum föllnu bankanna betri endurheimtir. Í þessari aðför var ákveðið að hundsa þau drög að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna þriggja sem birt voru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (FME) 14. nóvember 2008. Í skýrslunni er síðan reiknað út að ríkissjóður hafi tekið á sig 296 milljarða króna í áhættu í þágu kröfuhafa með þessum aðgerðum.
Í fréttatilkynningu vegna útkomu skýrslunnar sagði að skýrslan taki „af allan vafa um áhættu skattgreiðenda sem átti sér stað við afhendingu bankanna til kröfuhafa.[...]Ekki verður önnur ályktun dregin en að samningagerðin afi að stórum hluta gengið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum.“
Lykilatriði í kynningu á skýrslunni, sem notað var til að draga þessa ályktun, er fundargerð stýrinefndar ríkisstjórnarinnar og ráðgjafa hennar, Hawkpoint, frá 10. mars 2009. Í fréttatilkynningu sem send var út vegna útkomu skýrslunnar segir að í þessari fundargerð megi finna „sérstakt viðhorf samningamanna ríkisins t.d. má nefna orð ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu á fundi eftir að samningar við kröfuhafa voru komnir þangað inn á borð. Þar sagði hann „mikilvægt að trufla ekki samband skilanefndanna og kröfuhafanna. Ríkið vill friðþægja kröfuhafa eins og mögulegt er.““
Fundargerðirnar voru ritaðar á ensku en meirihluti fjárlaganefndar fékk að sögn löggilta skjalaþýðendur til að þýða þær. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að setningin: „The state wants to appease the creditors to the extent possible þýði „Ríkið vill friðþægja kröfuhafa eins og mögulegt er“.
Samkvæmt orðabók þýðir orðið „appease“ hins vegar ekki friðþæging, heldur að friða, róa, stilla eða sefa. Enska orðið fyrir friðþægingu er „atonement“.
Ráðuneytisstjórinn sem um ræðir er Guðmundur Árnason, sem er enn í dag ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Sýndarréttarhöld
Þorsteinn segir í bréfi sínu að hann myndi ekki mæta á fund fjárlaganefndar til að ræða sinn þátt í málinu. „Eins og meirihluti Fjárlaganefndar hefur lagt málið upp verður að telja að slíkur fundur verði ekki annað en einhverskonar sýndarréttarhöld og tel ég mér ekki skylt að mæta til þeirra.“ Ef Alþingi þætti henta að kalla til óháða erlenda aðila til að fara yfir endurreisn viðskiptabankanna þriggja á árinu 2000 væri honum þó ljúft að fara yfir málið með þeim. „Ég tek þó fram að aðili sem ráðinn yrði af meirihluta Fjárlaganefndar væri ekki óháður í mínum huga.“
Bréf Þorsteins í heild sinni:
Reykjavík, 16. september 2016
Til Fjárlaganefndar Alþingis
Á árinu 2009 vann ég undirritaður að endurreisn viðskiptabankanna þriggja sem starfsmaður Fjármálaráðuneytisins og leiddi vissa þætti þeirrar vinnu. Ég hef sem slíkur kynnt mér efni skýrslu meirihluta Fjárlaganefndar sem nefnd er Einkavæðing bankanna hin síðari. Ég tel að í skýrslunni sé með ýmsum niðrandi ummælum vegið alvarlega að starfsheiðri mínum. Sem leikmaður geri ég mér þó ekki grein fyrir hvort þau ummæli, sem að mínu mati eru atvinnurógur, meiðyrði og svívirðingar, varði við lög.
Við sem unnum að endurreisn viðskiptabankanna á árinu 2009 lögðum nótt við nýtan dag við að koma upp traustu bankakerfi sem gæti tekið til við fjárhagslega endurskipulagningu atvinnulífs og heimila en jafnframt lögðum við áherslu á að verja hag ríkissjóðs. Allt sem lagt var upp með gekk eftir, bæði hvað varðar styrk fjármálakerfisins og getu þess til að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækja og heimila og ennfremur fjárhag ríkissjóðs. Því sætir það nokkurri furðu að nú, sjö árum síðar, komi fram aðilar sem telja að allt hafi þetta verið illa gert og að mestu undirlægjuháttur við erlenda kröfuhafa.
Ég heyrði í fjölmiðlum eftir birtingu skýrslunnar að formaður nefndarinnar teldi að næstu skref yrðu annaðhvort að kalla aðila málsins, sem túlka má sem einskonar sakborninga, á fund nefndarinnar sem væri þá opinn fjölmiðlum eða þá að fá óháða aðila til að leggja mat á málið.
Í þessu sambandi vil ég taka fram að eins og meirihluti Fjárlaganefndar hefur lagt málið upp verður að telja að slíkur fundur verði ekki annað en einhverskonar sýndarréttarhöld og tel ég mér ekki skylt að mæta til þeirra.
Hinsvegar ef Alþingi þætti henta að kalla til óháða erlenda aðila til að fara yfir endurreisn viðskiptabankanna þriggja á árinu 2009 væri mér ljúft að fara yfir málið með þeim aðilum. Ég tek þó fram að aðili sem ráðinn yrði af meirihluta Fjárlaganefndar væri ekki óháður í mínum huga.
Ég vil einnig taka fram að ekki hefur verið leitað til mín eða borin undir mig nein efnisatriði hinnar svokölluðu skýrslu.
Virðingarfyllst,
Þorsteinn Þorsteinsson
Afrit af bréfi þessu verður sent til forseta Alþingis.
Afrit af bréfinu verður einnig afhent fjölmiðlum til að mín afstaða til þessa máls verði lýðum ljós.