1. Utanríkisráðuneytið fær tíu milljónir króna á næstu tveimur árum úr ríkissjóði svo hægt sé að greiða fyrir starfsmann sem mun þjónusta og sinna ýmsum verkefnum fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga vegna fjárlagaársins 2016.
2. Þar kemur einnig fram að rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl. árið 2003, sem nú stendur yfir, sé áætlaður 30 milljónir króna. Rannsókninni á að ljúka fyrir komandi áramót.
3. Sótt er um 74 milljóna króna hækkun á framlagi til ríkisstjórnar Íslands. Um er að ræða viðbótarútgjöld vegna biðlauna fráfarandi ráðherra og aðstoðarmanna eftir alþingiskosningarnar sem fyrirhugaðar eru í lok október. Þegar fjárlög voru samþykkt í fyrra var ekki reiknað með að kosið yrði fyrr en í aprí 2017.
4. Húsameistari ríkisins fær 15 milljónir króna í viðbótarframlag til að mæta kostnaði sem fellur meðal annars til vegna forsetaskipta, en Guðni Th. Jóhannesson tók við embættinu fyrr á þessu ári. Í fjáraukalögum segir að um sé að ræða „kostnað vegna flutninga og öryggismála ásamt innréttingum og endurbótum á innanstokksmunum á Bessastöðum, þ.m.t. í Bessastaðastofu, bókhlöðu og móttökusal.“
5. Heildarbreytingar á fjárheimildum sem beðið er um með fjáraukalögum eru 88 milljarðar króna. Langstærsti hluti þeirrar upphæðar, 83,5 milljarða króna, vegna einskiptisuppgjörs vegna A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Sá kostnaður fellur til vegna samkomulags um breytingar á opinbera lífeyrissjóðakerfinu þannig að það verði eins og það almenna að mestu. Samkomulagið var kynnt í upphafi viku.
6. Þá er sótt um tíu milljóna króna framlag í tengslum við og í framhaldi af embættistöku nýs forseta. Sá kostnaður er vegna þess að talið er nauðsynlegt að ráða starfsmann til að sinna almennum verkefnum á Bessastöðum og vegna þess að brotthvarf fyrri forseta úr embætti og embættistaka nýs hafði í för með sér „margvísleg útgjöld“. Þá hefur heimasíða forsetaembættisins verið óbreytt í sextán ár og stefnt er að því að efna til útboðs um nýja slíka fari fram í haust. Áætlaður kostnaður er fimm milljónir króna og vefurinn á að opna fyrir lok þessa árs.
7. 800 milljónir króna munu fara í framlög vegna mikillar fjölgunar flóttamanna umfram forsendur fjárlaga ársins 2016.
8. 216 milljónir króna fara í að bæta öryggi ferðamanna.
9. Upptaka á nýjum S-merktum lyfjum mun kosta ríkissjóð 427 milljónir króna umfram það sem áætlað var á fjárlögum þessa árs.
10. Og síðast, en ekki síst, þá munu biðlaun og annar þingfarakostnaður vegna fráfarandi þingmanna sem reiknað er með að muni falla til eftir kosningarnar í október kosta um 121 milljónir króna. Áætlun um útgjöld vegna kosninganna miðast við hliðstæðan kostnað eftir kosningarnar árið 2013 en að teknu tilliti til þess að nú gefa fleiri þingmenn ekki kost á sér til endurkjörs. Um er að ræða áætlaðan heildarkostnað við þessa útgjaldaþætti en reiknað er með að rúmlega helmingur biðlaunanna muni þó ekki koma til útborgunar fyrr en á árinu 2017. Er því gert ráð fyrir að afgangur á þessari fjárheimild í árslok verði fluttur yfir til ársins 2017. Til viðbótar þá er farið fram á 47 milljónir króna vegna ýmissa útgjalda sem reiknað er með að muni falla til eftir alþingiskosningarnar. Um er að ræða kaup á tækjum og búnaði fyrir nýja alþingismenn, standsetningu á húsnæði, flutningskostnað og útgáfu á kynningarefni fyrir nýja þingmenn.