Flestir hagvísar snúa í rétta átt. Atvinnuleysi er lítið sem ekkert, eða um þrjú prósent, hagvöxtur er á milli fjögur og fimm prósent á ári og vöru- og viðskiptajöfnuður, samanlagður, er jákvæður svo um munar.
Vöruskiptajöfnuður er reyndar viðvarandi neikvæður, um 12,7 milljarða í ágúst samkvæmt Hagstofu Íslands, en mikill uppgangur í ferðaþjónustunni heldur stöðu mála réttu megin við strikið. Þannig var þjónustujöfnuður jákvæður um 202 milljarða í fyrra, og 62 milljarða sé einungis litið til annarsársfjórðungs á þessu ári.
Mikið innstreymi
Gjaldeyrisinnstreymi frá ferðamönnum verður meira á þessu ári, en spáð hafði verið fyrir árið. Búist er við að það verði meira en 430 milljarðar á þessu ári, en náði yfir 500 milljarða á því næsta, sem gerir þennan vaxandi atvinnuveg langsamlega stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnuveg landsins.
Gengi krónunnar hefur styrkst um 10,55 prósent gagnvart evrunni á einu ári, og er gjaldeyrisinnstreymið frá ferðamönnum, innan fjármagnshafta, þar ríkur þáttur. Evran kostar nú 128 krónur en var fyrir rúmu ári á ríflega 150 krónur. Bandaríkjadalur er kominn niður fyrir 115 krónur og pundið kostar nú 148 krónur, eftir hálfgert verðhrun í kjölfar Brexitkosningarinnar í sumar. Fyrir ári síðan kostaði pundið um 205 krónur.
Hvað gerist?
Styrking krónunnar er líkleg til að halda áfram, ef spár um vöxtinn í ferðaþjónustunni rætast. Mun meira gjaldeyrisinnstreymi til landsins heldur en frá því, getur leitt til mikillar styrkingar á genginu á skömmu tíma. Það leiðir síðan til þess að verðlag hér á landi, mælt í erlendri mynt, hækkar hratt. Auk þess sem úflutningsfyrirtæki almennt fá minna fyrir sinn snúð.
Stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, Icelandair Group, hefur fallið nokkuð í markaðsvirði upp á síðkastið, en gengisstyrkingin hefur mikil áhrif á arðsemi fyrirtækisins þar sem tekjur eru að stærstu leyti erlendis frá. Í maí á þessu ári var gengi bréf félagsins tæplega 36, en eftir 1,26 prósent fall í dag, er það 25,3. Lækkunin á markaðsvirði á síðustu fimm mánuðum nemur meira en 40 milljörðum króna.
Í ljósi þess hve vaxtarskeiðið í ferðaþjónstunni er nýtilkomið er erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif hækkandi verð mun hafa á áhuga ferðamanna á landinu. Í versta falli getur hann minnkað hratt, með tilheyrandi erfiðleikum fyrir fyrirtæki í greininni og íslenskt þjóðarbú.
Allra augu í hagstjórninni ættu því að vera á genginu á næstu misserum, og hefur peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, í greinargerð til ríkisstjórnar, sérstaklega vikið að því að gengisþróun geti haft mikið um það að segja hvernig staða mála mun þróast í íslenska hagkerfinu á næstu misserum.
Eins og oft í Íslandssögunni þá geta snöggar gengissveiflur, ýmist til styrkingar eða veikingar, breytt stöðunni hratt til hins betra eða verra. Verðbólga hefur haldist niðri að undanförnu og mælist nú 0,9 prósent. Það er ekki síst að þakka hraðri styrkingu krónunnar gagnvar helstu viðskiptamyntum, en einnig mikill verðlækkun á hrávörum, ekki síst olíu, sem hefur leitt til lægra verðlags á innfluttum vörum.