Skipulögð glæpastarfsemi er fylgifiskur þéttbýlismyndunar og á því rætur sínar að rekja allt til iðnbyltingarinnar. Glæpasamtök eru um margt ólík, bæði milli landa og menningarheima, en öll eiga þau það sameiginlegt að innihalda meðlimi sem kjósa að lifa í bræðralagi utan við lög og rétt. Sum samtökin hafa mátt muna sinn fífil fegurri s.s. kólumbísku eiturlyfjahringirnir og ítalsk-ameríska mafían á meðan önnur blómstra nú sem aldrei fyrr, t.d. mexíkósku eiturlyfjahringirnir og rússneska mafían. Hér eru 10 af voldugustu og hættulegustu glæpasamtökum heims í dag.
10. Sun Yee On
Kínversk glæpagengi eru kallaðar þrenningar (triads) þó enginn viti nákvæmlega af hverju. Sun Yee On er ein af fjórum stærstu þrenningunum, með höfuðstöðvar í Hong Kong. Samtökin voru stofnuð í borginni árið 1919 en um tíma á sjötta áratugnum gerðu þeir út frá Tævan eftir að leiðtogi þeirra var rekinn úr landi. Þó að þrenningar hafi höfuðpaura og visst stigveldi þá eru þær mun laustengdari samtök heldur en t.d. japönsku yakuza samtökin. Þrenningarnar stunda ólöglega starfsemi af ýmsum toga, s.s. eiturlyfjasölu og veðlánastarfsemi en á síðari árum hafa þær verið þekktar fyrir að smygla fólki inn til Bandaríkjanna. Starfsemi Sun Yee On breyttist eftir afhendingu Hong Kong til Kína árið 1997. Kommúnistaflokkurinn tók hart á þrenningunum og margir leiðtogar þeirra færðu starfsemina að stórum hluta út fyrir landsteinana. Mörg samtök fóru að stunda löglega starfsemi og ofbeldið minnkaði. Sun Yee On eru þó langt því frá hættir glæpastarfsemi og í dag eru meðlimirnir um 55 þúsund talsins með starfsemi víða um heim.
9. Númeragengið
Pollsmoor fangelsið í Höfðaborg er alræmdasta fangelsi Suður Afríku, þekkast fyrir að hýsa Nelson Mandela á níunda áratugnum. Pollsmoor eru líka höfuðstöðvar Númeragengisins svokallaða sem hefur starfað í meira en heila öld. Í raun eru þetta þrjú gengi, þ.e. 26, 27 og 28, en samspil þeirra er mikið og það síðastnefnda er nokkurs konar aðall innan veggja fangelsins. Meðlimir starfa einnig utan veggjanna og í öllum öðrum fangelsum landsins. Fram á níunda áratuginn var starfsemin einungis bundin við fangelsin. Þá mynduðu þeir sambönd við stórar eiturlyfjaklíkur utan veggja svo sem Ameríkanana. Í dag eru flestir meðlimir tengdir tveimur klíkum, einni utan veggja og einni innan. Eitt helsta tækið sem Númeragengið beitir til að halda völdum og valda ótta er kynferðisofbeldi. Meðlimirnir beita nauðgunum á mjög fastmótaðan og kerfisbundin hátt gegn öðrum föngum. Ef það dugar ekki til að halda þeim undirgefnum er gripið til morða.
8. Albanska mafían
Ein þéttustu og þöglustu glæpasamtök sem til eru er albanska mafían. Mafían einkennist af sterkum fjölskyldu og ættarböndum sem kölluð eru klön. Klönin eru misstór og misvaldamikil, allt frá litlum götugengjum upp í alþjóðlega eiturlyfjahringi. Þau hafa verið starfandi síðan á sjötta áratugnum og hafa breiðst út um allan heim. Flest þeirra lúta glæpaforingja að nafni Daut Kadriovski. Tiltölulega lítið er vitað um hans persónulegu hagi annað en það að hann er Makedóníumaður af albönskum uppruna og hefur leitt mafíuna síðan á níunda áratugnum. Heróín er ær og kýr albönsku mafíunnar. Það er keypt frá Afghanistan og nærliggjandi löndum og selt í hinum vestræna heimi. Talið er að Kadriovski sé stærsti heróínsali bæði Evrópu og Ameríku. Kadriovski bíttar einnig við suður ameríska eiturlyfjahringi á heróíni og kókaíni. Heróín er þó ekki eina starfssemi albönsku mafíunnar. Á seinustu árum hefur mansal færst í aukana þar sem ungum stúlkum er rænt og þær neyddar í vændi.
7. Hells Angels
Vítisenglarnir skilgreina sig opinberlega sem vélhjólaklúbb en fáum dylst hvers konar starfsemi er stunduð innan samtakanna. Eiturlyfjasala-og smygl, vopnasmygl, fjárkúganir, þjófnaðir og vændissala er meðal þess sem er á afrekaskránni hjá þeim. Klúbburinn var stofnaður í Kaliforníu árið 1948 af fyrrverandi hermönnum sem margir hverjir komu úr öðrum vélhjólagengjum. Nafnið Hells Angels er fengið að láni frá bandarískum flughersveitum. Á sjötta áratugnum fengu þeir mikla athygli, sérstaklega eftir að kvikmyndin The Wild One kom út árið 1953 með Marlon Brando í aðalhlutverki. Þessir útlagar sem keyrðu um í hjörðum þóttu spennandi og svalir. Gyllingin fór hins vegar af þeim eftir tónleikahátíðina Altamont Free árið 1969. Samtökin áttu að sjá um öryggisgæslu á svæðinu en gerðu það ekki betur en svo að nokkur dauðsföll áttu sér stað. Hells Angels hafa breiðst út um flest vestræn ríki og eru þekktustu vélhjólasamtök heims í . Þeir hafa lengi átt í blóðugum deilum við helstu keppinauta sína, Banditos og Outlaws.
6. Camorra
Flestir tengja ítölsku mafíuna helst við eyjuna Sikiley en sterkustu samtökin koma frá héraðinu Campania og höfuðstað þess Napolí, nefnilega Camorra. Camorra er eitt af elstu glæpasamtökum heims og byrjaði sem þjófagengi fyrir u.þ.b. 200 árum síðan. Síðan hafa þau dafnað og vaxið þétt og örugglega. Camorra er í raun ekki ein heildstæð samtök líkt og flestar aðrar mafíur á Ítalíuskaga, heldur laustengt net minni gengja sem eru bundin við ákveðin svæði og fjölskyldur. Iðulega koma upp fæðardeilur milli þeirra sem enda oft með blóðbaði. Camorra er ekki orð sem meðlimirnir nota, frekar O Sistema (kerfið). Tengsl Camorra við stjórnmálin eru sterk. Þau eiga í samstarfi við marga spillta stjórnmálamenn og hafa fengið úthlutað ýmsum verkefnum, t.d. byggingaframkvæmdum og sorphirðu. Árið 2013 myndaðist upplausnarástand í Napolí vegna framkvæmd samtakanna á sorphirðu og úrgangslosun. Camorra er ein arðbærasta mafía heims með um 500 milljarða króna í árstekjur en starfsemin er þó að mestu bundin við Ítalíuskaga.
5. D-Company
Einungis tvítugur stofnaði Dawood Ibrahim glæpasamtökin D-Company árið 1976 í Mumbai (þá Bombay) á Indlandi. Samtökin færðu út kvíarnar til Arabíuskaga og víðar á níunda áratugnum og Ibrahim varð einn voldugasti glæpaforingi Asíu. Upphaflega fólst starfsemin aðallega í eiturlyfjasölu og smygli en á tíunda áratugnum mynduðust tengsl við ýmis hryðjuverkasamtök, þar á meðal Al-Qaeda. D-Company eru taldir eiga hlut að máli ýmsum hryðjuverkum og tilræðum í Indlandi og víðar og það náði athygli Bandaríkjastjórnar. Ibrahim, sem bjó lengi í Dubai, þurfti að flýja þaðan til Pakistan árið 2003. Þar hefur hann búið síðan undir verndarvæng stjórnvalda sem vilja þó ekki gefa upp staðsetningu hans. Um tíma var hann einn eftirsóttasti glæpaforingi heims en veldi hans rýrnaði þó ekkert. D-Company stunda ekki einungis ólöglega starsemi og t.d. hafa samtökin framleitt nokkrar Bollywood kvikmyndir. Í dag hafa samtökin starfsemi í Asíu, Afríku og Evrópu.
4. MS-13
Mara Salvatrucha, betur þekkt sem MS-13, byrjaði sem götugengi í Los Angeles seint á níunda áratugnum. Upprunalega komu meðlimirnir frá El Salvador, litlu Mið-Ameríkuríki sem telur einungis um 6 milljónir íbúa. Þá störfuðu þeir í skugga stærri gengja á svæðinu s.s. M-18 sem var aðallega samsett af Mexíkóum. En þegar stríð milli gengjanna braust út snemma á tíunda áratugnum náðu MS-13 yfirhöndinni, aðallega vegna þess óbeislaða ofbeldis sem meðlimirnir beittu. Margir þeirra höfðu barist í borgarastyrjöld í heimalandinu sem geisaði í meira en áratug. Í kjölfarið stækkuðu samtökin hratt og breiddust út um nánast öll Bandaríkin, tugþúsundir ungmenna frá Mið-Ameríkuríkjum á borð við Guatemala, Hondúras og Níkaragúa bættust við. Sumir voru sendir aftur til heimalandanna og þar settu þeir upp bækistöðvar fyrir MS-13. Alls staðar fyldi þeim geigvænlegt ofbeldi og morð. Í dag er MS-13 ein allra hættulegustu glæpasamtök Bandaríkjanna.
3. Yamaguchi Gumi
Rætur japanskra glæpasamtaka sem kallast yakuza ná langt aftur í aldir og mörg þeirra tengja sig við forna samúræja og útlaga. Voldugasta yakuza heims, Yamaguchi Gumi, byrjaði hins vegar með hópi hafnarverkamanna í borginni Kobe árið 1915. Yamaguchi Gumi var lítið gengi í upphafi og hvarf næstum því á stríðsárunum en á áratugunum eftir stríð uxu þau hratt. Hluti af velgengni þeirra var stigveldið innan samtakanna sem virkaði í raun eins og her. Enginn ágreiningur var um stöðu hvers aðila innan þeirra. Síðan þá hafa sprottið upp deilur af og til, t.a.m. stór klofningur árið 2015. [http://wonderfulrife.blogspot.is/2015/08/a-brief-history-of-yamaguchi-gumi-yakuza.html] Þetta hefur valdið Yamaguchi Gumi töluverðum vandræðum en samtökin eru þó enn lang stærsta yakuza landsins með nokkra tugi þúsunda meðlima. Talið er að nærri helmingur allra yakuza meðlima séu tengdir Yamaguchi Gumi sem hefur starfsemi um allt Japan. Yakuza samtökin eru þekktust fyrir veðlánastarfsemi og fjárkúgun en í raun kemur mest fjármagn inn með eiturlyfjasölu og smygli.
2. Sinaloa hringurinn
Á níunda áratugnum urðu mexíkóskir eiturlyfjahringir milliliðir fyrir hina mun stærri kollega sína frá Kólumbíu. Þegar veldi Kólumbíumannana hrundi um miðjan tíunda áratuginn tóku þeir mexíkósku við sem leiðandi framleiðendur og smyglarar eiturlyfja inn til Bandaríkjanna. Sinaloa hringurinn varð til árið 1989 þegar stærsti hringur Mexíkó, Guadalajara-hringurinn í vesturhluta landsins, tvístraðist. Leiðtogi hans var Joaquin Guzman, kallaður El Chapo, sem gerði hringinn að þeim öflugasta í landinu. Lengi vel áttu Sinaloa-menn í stríði við nágranna sína í Tijuana en upp úr 2010 náðu Sinaloa yfirhöndinni og nú vinna Tijuana-menn fyrir þá. Sinaloa hringurinn stjórnar stærstum hluta landamærasvæðisins við Bandaríkin en þeir smygla mestu norður til Chicago, meira en 2000 km leið. Chicago er þriðja stærsta borg Bandaríkjanna og mjög miðsvæðis þannig að faðmur hringsins nær yfir gjörvalla Norður Ameríku. El Chapo hefur þrisvar verðið handtekinn og situr nú í fangelsi í Mexíkó.
1. Solntsevskaya Bratva
Rússneska mafían fæddist í gúlaginu, afskekktum fangabúðum í Síberíu og víðar, á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Starfsemi glæpagengjanna færðist fljótlega út fyrir víra gúlagsins og eiginlegt kerfi myndaðist. Kerfið var fastmótað og einkenndist af “heiðri meðal þjófa”, þ.e. virðingu fyrir hvorum öðrum. Sergei Mikhailov og Boris Arshavin (Mikhas og Arshas) hristu upp í þessu með stofnun Solntsevskaya Bratva í Moskvu um miðjan níunda áratuginn. Þeir litu frekar til vestrænna glæpasamtaka og báru litla virðingu fyrir keppninautum sínum. Eftir stríð við mafíu Tjétjéníumanna í upphafi tíunda áratugarins innlimuðu þeir nokkrar aðrar klíkur og urðu ráðandi á markaðinum. Stærsti hluti starfseminnar felst í sölu heróíns en veðlánastarfsemi, mansal, bílaþjófnaðir o.fl. er einnig mjög áberandi. Eftir fall Sovétríkjanna færðu þeir út kvíarnar til Austur-Evrópu, Bretlands, Bandaríkjanna og Ísrael þar sem mikill innflutningur rússneskra gyðinga átti sér stað. Í dag eru Solntsetskaya Bratva ríkustu glæpasamtök heims með nærri 1000 milljarða króna í árstekjur.