Danska ríkisstjórnin reynir nú hvað hún getur að ná samkomulagi við Evrópusambandið um einhvers konar auka aðild Dana að Evrópulögreglunni, Europol eftir að þátttöku Dana í lögreglusamstarfinu lýkur 30. apríl á næsta ári. Stjórnendur ESB eru hinsvegar tregir í taumi og lítt fúsir til samninga.
Samkvæmt Maastricht samningnum frá árinu 1993 voru Danir undanþegnir fjórum ákvæðum samningsins, þar á meðal ákvæðinu um samstarf í dóms og lögreglumálum. Vegna breytinga á Maastricht samningnum sem hefur í för með sér nánara samstarf (yfirþjóðlega stjórn Europol) og er ætlað að styrkja samvinnu á sviði lögreglumála höfðu Danir um tvennt að velja: segja sig frá Europol samstarfinu eða halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að sleppa áðurnefndum undanþágum. Danska þingið ákvað að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi haldin og fór hún fram 3. desember í fyrra.
Hart tekist á
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, og formaður Venstre, barðist hart fyrir því að Danir yrðu ekki undanþegnir ákvæðum ESB í dóms-og lögreglumálum og yrðu þannig áfram fullgildir aðilar að Europol. Danski Þjóðarflokkurinn (sem styður stjórn Venstre) undir forystu Kristian Thulesen Dahl vildi hins vegar ekki sleppa undanþáguákvæðunum og sögðu að Danir gætu einfaldlega gert einskonar sérsamning og haldið áfram Europolsamstarfinu. Eða, ef nauðsynlegt reyndist, haldið aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem eingöngu yrði kosið um þátttöku Dana í Europol. Helstu rök Danska þjóðarflokksins voru þau að með því að halda fyrirvörunum gætu Danir haft eigin stefnu í innflytjendamálum og landamæraeftirliti, óbundnir af ákvörðunum ESB.
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar varð sú að Danir vildu ekki sleppa undanþáguákvæðunum og þarmeð ljóst að eftir 1. maí 2017 verða þeir ekki lengur aðilar að Europol.
Og hvað svo?
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra lýsti vonbrigðum með úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sagðist óttast að erfitt gæti reynst að semja við Evrópusambandið um áframhaldandi aðild að Europol. „Maður getur ekki bara plokkað rúsínurnar úr jólakökunni þótt það sé freistandi.“ Jafnframt sagði ráðherrann að stjórnin myndi þegar í stað leita eftir viðræðum við ESB varðandi möguleika Danmerkur um áframhaldandi samstarf í dóms-og lögreglumálum. Sagðist þó ekki sérlega bjartsýnn á samningsvilja Evrópusambandsins.
Sérsamningur og kannski aðrar kosningar
Þingmenn Danska Þjóðarflokksins sem börðust fyrir því að Danir héldu fyrirvörum sínum við Maastricht samninginn (og væru þarmeð ekki lengur aðilar að Europol) lýstu ánægju með úrslit kosninganna. Þeir höfðu talað fjálglega um sérsamning eða, ef í það færi, aðrar kosningar þar sem eingöngu yrði kosið um þátttöku Dana í Europol. Slíkt myndi Danski Þjóðarflokkurinn styðja, sögðu þingmennirnir, með formanninn, Kristian Thulesen Dahl, fremstan í flokki. Þetta margendurtóku þingmennirnir í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar 3. desember í fyrra. Miðað við úrslitin trúði stór hluti landsmanna, eða rúmlega helmingur, þessum staðhæfingum. Síðar kom í ljós að málið var ekki svona einfalt.
Ólétt eða ekki ólétt, ekki pínulítið ólétt
Í höfuðstöðvum Evrópusambandsins vöktu úrslit kosninganna í Danmörku takmarkaða hrifningu. Þar sögðu menn þó fátt en fylgdust þeim mun betur með umræðum danskra stjórnmálamanna. Í desember 2015 virtist 1. maí 2017 ekki rétt handan við hornið og á danska þinginu töluðu sumir eins og allur heimsins tími væri til stefnu og ekkert lægi á að fá niðurstöðu í Europol málið,eins og það var kallað. En eins og segir í Gleðibankatextanum þekkta flýgur tíminn hratt á gervihnattaöld og skyndilega var komið haustið 2016 og einungis örfáir mánuðir fram að 1. maí á næsta ári. Fyrir nokkrum vikum varð ljóst að í höfuðstöðvum ESB væri mjög takmarkaður vilji til að semja við Dani um einhvers konar sérsamkomulag. Frans Timmermann, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB sagði þegar hann var spurður um hugsanlega samninga við Dani að þar væri þungt fyrir fæti. „Maður er annað hvort óléttur eða ekki óléttur, ekki pínulítið óléttur.“ Af orðum hans að dæma er einhvers konar sérsamkomulag því nánast útilokað. En hvað þá með hinn möguleikann, aðra þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku sem eingöngu snúi að þátttöku Dana í Europol? Danski Þjóðarflokkurinn hafði, fyrir kosningarnar í desember í fyrra lýst sig fylgjandi slíkum kosningum ef ekki tækist að semja um sérsamkomulag.
Já verður nei
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hefur lýst yfir að hann muni ekki boða til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Europol aðild Dana nema með stuðningi Danska Þjóðarflokksins, sem hafði jú sagst styðja slíkt. Nú ber hinsvegar svo við að Danski Þjóðarflokkurinn vill ekki lýsa stuðningi við slíka atkvæðagreiðslu og ber því við að með því væri flokkurinn að samþykkja opin landamæri og frjálsa för (Schengen samkomulagið) en það komi ekki til greina. Semsagt: því sem Danski þjóðarflokkurinn lofaði í fyrra vill hann nú ekki standa við, hefur snúið við blaðinu. Danskir fjölmiðlar kalla þetta svikin loforð. Miðað við yfirlýsingar forsætisráðherrans verður því ekki nein þjóðaratkvæðagreiðsla um Europol málið.
Reyna að semja um „Europol light“
Dönskum stjórnvöldum er vandi á höndum. Europol samstarfið er mjög mikilvægt fyrir Dani. Ekki hvað síst varðandi upplýsingaleit og skráningu. Á síðasta ári leitaði danska lögreglan rúmlega 70 þúsund sinnum í upplýsingakerfi Europol. Danski utanríkisráðherrann, Kristian Jensen, segist vona að samkomulag náist um áframhaldandi samstarf á þessu sviði og aðgang Dana að upplýsingakerfinu. „Það er skárra en ekkert“ sagði ráðherrann en sagði jafnframt að það væri afar óheppilegt að vera í þessari stöðu. „Europol er eitt mikilvægasta verkfæri okkar í baráttu við glæpamenn og það væri satt að segja dapurlegt ef við gætum ekki lengur nýtt okkur það,“ sagði ráðherrann.
Danskir fjölmiðlar hafa gefið þessu samkomulagi sem utanríkisráðherrann vonast eftir að koma í höfn nafnið „Europol light“.