Hæstiréttur felldi í gær niður mál sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni í hinu svokallaða Sterling-máli. Ástæðan er seinagangur hjá rikissaksóknara, sem skilaði ekki greinargerð í málinu fyrr en eftir að frestur til þess var liðinn. Samt hafði verið veittur aukafrestur til þess að skila greinargerð. Hannes hafði verið sýknaður í málinu í héraðsdómi. Í svari til Vísis í dag segir Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari að mistök og mannekla hafi valdið því að gögnin barúst seint.
Þegar málsgögnin bárust Hæstarétti voru meira en ellefu ár liðin frá ætluðu broti, nærri átta ár frá upphafi rannsóknar og rúmir sautján mánuðir frá því að ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu til að fá hnekkt héraðsdómi um sýknu. Ákæruvaldið gat ekki veitt haldbærar skýringar á því hvers vegna það tók svo langan tíma að útbúa málsgögn og skila þeim til Hæstaréttar. Þess vegna var málinu vísað frá.
Hannes var ákærður fyrir fjárdrátt í málinu í lok október 2013. Það snýst um að hann hafi látið millifæra tæplega þrjá milljarða króna af bankareikningi FL Group í útibúi Danske Bank í New York og inn á nýjan bankareikning FL Group hjá Kaupþingi í Lúxemborg sem Hannes hafði látið stofna fimm dögum áður. Samkvæmt sérstöku umboði hafði Hannes fullt og ótakmarkað umboð til ráðstafana á fjármunum félagsins á þeim bankareikning.
Fjármunirnir voru sama dag færðir frá nýja bankareikningnum yfir á bankareikning Fons eignarhaldsfélags, í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Þar var fjárhæðinni skipt í danskar krónur og í kjölfarið lagðar inn á félagið Fred. Olsen & Co., þáverandi eiganda flugfélagsins Sterling Airlines. Milljarðarnir þrír mynduðu því stóran hluta af þeim fjórum milljörðum króna sem Fons greiddi fyrir kaup á Sterling á þessum tíma.
Ragnhildur Geirsdóttir, þáverandi forstjóri FL Group, Sveinbjörn Indriðason, þáverandi fjármálastjóri FL Group, og öll stjórn FL Group utan Hannesar segja að þau hafi ekki haft hugmynd um þessi áform né hafi verið tekin ákvörðun um hana á vettvangi félagsins. FL Group var á þessum tíma almenningshlutafélag í eigu rúmlega fjögur þúsund aðila.
Hannes var sýknaður af ákærunni í héraði snemma árs í fyrra. Verjandi Hannesar, Gísli Guðni Hall, byggði vörn hans á því að ekki hafi verið sýnt fram á að bindandi fyrirmæli hafi verið gefin um millifærsluna eða ekki. Hannes sagðist sjálfur vera saklaus af ákærunni og að ekkert benti til þess að millifærslan hefði yfir höfuð átt sér stað.
Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands en nú er ljóst að hann mun aldrei taka málið efnislega fyrir, vegna klúðurs hjá embætti ríkissaksóknara við skil á greinargerð í málinu.
Ellefu ár síðan meint brot átti sér stað
Á meðal þeirra gagna sem lágu til grundvallar ákærunni voru gögn frá Lúxemborg sem áttu að sýna að fé FL Group hafi ratað inn á reikning Fons. Það fé var síðan notað til að kaupa Sterling. Þessarra gagna var aflað með réttarbeiðni frá Lúxemborg og vegna þeirra er Hannes aðallega ákærður fyrir fjárdrátt. Rannsókn á öðrum viðskiptum FL Group og tengdra aðila með Sterling, þar sem félagið var selt á tugi milljarða króna á milli tengdra aðila, var hætt þegar ákæra var gefin út á hendur Hannesi.
Málinu var vísað frá héraðsdómi í mars 2014 með þeim rökum að háttsemin sem Hannesi var gefin að sök í ákærunni hafi ekki verið lýst með fullnægjandi hætti. Sérstakur saksóknari áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar sem felldi úrskurð Héraðsdóms þann 10. apríl 2014 og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Aðalmeðferð í málinu hófst loks í janúar 2015, tæpum tíu árum eftir að hið meinta brot átti sér stað.
Jón Ásgeir og Hannes í persónulegum ábyrgðum samkvæmt ákæru
Í ákærunni stóð að „Sakargögn benda til þess að ákærði hafi haldið umræddri millifærslu leyndri fyrir stjórnendum og stjórn FL Group, en aðrir en ákærði höfðu ekki aðgang að bankareikningi FL Group hjá KBL fyrr en 28. Júní 2005 þegar Einar Sigurðsson veitti Sveinbirni Indriðasyni, þáverandi fjármálastjóra FL Group, heimild til að fá aðgang að öllum bankareikningum FL Group hjá KBL.
Það var ekki fyrr en eftir þrýsting, meðal annars frá þáverandi forstjóra félagsins, að fjármunirnir skiluðu sér aftur á reikning FL Group í Kaupþingi banka hf. 30. júní 2005, eða rúmum tveimur mánuðum eftir brot ákærða samkvæmt ákæru. Fyrir þann tíma hafði millifærslan ekki verið færð í bókhald félagsins. Þann dag hafði KBL veitt Fons til að greiða umrædda fjármuni til baka til FL Group og gegnust ákærði og Jón Ásgeir Jóhannesson í persónulegar ábyrgðir fyrir endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar. Ekki verður séð að ákærði hafi á þeim tíma eða öðrum haft nokkur formleg tengsl við starfsemi Fons“.
Hannes Smárason sendi frá sér yfirlýsingu þegar greint var frá ákærunni. Hann hafnaði þeim sakargiftum sem á hann eru bornar og segir ákæruna „undurfurðulega“. Jón Ásgeir Jóhannesson sagði í bréfi sem hann sendi mbl.is að hann hafi aldrei verið í „ábyrgð fyrir FL Group hf. eða Hannes Smárason vegna viðskipta með Sterling“. Í ákærunni var hann reyndar ekki vændur um að hafa verið í ábyrgð fyrir FL Group eða Hannes Smárason, heldur Fons.
Hannes var spurður út í millifærsluna í Kastljósi 23. október 2005. Þar sagði hann hana vera „þvælu“. Hægt er að sjá brot úr því viðtali og frekari umfjöllun um málið í umfjöllun Kastljós frá árinu 2009 hér að neðan.
Ein umdeildustu viðskipti fyrirhrunsáranna
Málið hefur verið til rannsóknar frá því haustið 2008 hjá ýmsum embættum. Viðskipti FL Group, Fons og Sunds ehf. sem áttu sér stað með eignarhluti í Sterling og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum á árunum 2005 til 2008 eru ein þekktustu meintu sýndarviðskipti sem framkvæmd voru á árunum fyrir hrun. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir meðal annars að þau séu „einhver umdeildustu viðskipti Hannesar [Smárasonar, fyrrum forstjóra og stjórnarformanns FL Group] og raunar alls þessa tímabils“.
Þótt Hannes hafi verið ákærður fyrir fjárdrátt vegna einnar millifærslu á fé þá eru margir aðrir fletir á hinu svokallaða Sterling-máli sem hafa verið til rannsóknar. Hér að neðan verða meginatriði málsins rakin.
Í mars 2005 keypti Fons, eignarhaldsfélag í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, danska flugfélagið Sterling á fjóra milljarða króna. Nokkrum mánuðum síðar var Sterling sameinað öðru flugfélagi, Maersk Air, og í október, sjö mánuðum eftir kaup Fons á því var Sterling selt til almenningshlutafélagsins FL Group á 15 milljarða króna. Viðskiptin vöktu athygli og furðu, sérstaklega þar sem Sterling tapaði hálfum milljarði króna á þeim fáu mánuðum sem Fons átti það. Samt greiddi almenningshlutafélagið FL Group, sem var meðal annars í eigu þúsunda aðila ( í lok árs 2007 voru hluthafar til að 4.283 talsins), þessa upphæð fyrir Sterling.
Flestir hluthafanna höfðu gerst hluthafar þegar FL Group var flugfélagið Flugleiðir. Flugreksturinn var hins vegar aðskilinn frá á uppgangsárunum fyrir hrun og settur inn í sérstakt félag, Icelandair Group, sem var selt út úr FL Group. Gamla móðurfélaginu var samhliða breytt í fjárfestingafélag og varð eitt það umfangsmesta sinnar tegundar um nokkurra ára skeið.
Grunsemdir um sýndarviðskiðskipti
Samstundis voru uppi grunsemdir um að viðskiptin með Sterling-flugfélagið væru hluti af einhverskonar sýndarviðskiptafléttu sem stærstu hluthafar FL Group: aðilar tengdir Baugi, þáverandi stjórnarformaðurinn og síðar forstjórinn Hannes Smárason og Fons hefðu hag af en gætu orðið gríðarlega kostnaðarsamir fyrir aðra hluthafa. Grunsemdir voru líka uppi um að FL Group hefði í raun greitt fyrir þorra þess kaupverðs sem Fons greiddi fyrir Sterling. Hannes Smárason neitaði því alfarið og sagði sögusagnir þess efnis vera „þvælu“. Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons neitaði því einnig ítrekað að FL Group hefði fjármagnað kaup Fons á Sterling.
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hóf að rannsaka þessi viðskipti árið 2008 að eigin frumkvæði. Undir voru grunsemdir um meint auðgunarbrot og brot á ákvæðum hlutafélagalaga um bann við lánveitingum líkt og þeirri sem FL Group var grunað um að hafa veitt Fons.
Þann 11. nóvember 2008 gerðu starfsmenn skattrannsóknarstjóra síðan ítarlega húsleit í höfuðstöðvum FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir. Þar var lagt hald á ýmis konar bókhaldsgögn, skjöl sem tengdust ætluðum sýndarviðskiptum með eignarhluti í Sterling og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum og aragrúi tölvupóstsamskipta afrituð.
Hluti þessarra gagna voru send áfram til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í lok árs 2009.
Ragnhildur stígur fram
Síðan spurðist lítið til málsins í nokkurn tíma. Í apríl 2010 steig Ragnhildur Geirsdóttir, sem var forstjóri FL Group á þeim tíma sem Fons keypti Sterling, hins vegar fram og tjáði sig í fyrsta skipti opinberlega um kaupin. Hún sagðist telja að FL Group hefði að öllum líkindum greitt þrjá af þeim fjórum milljörðum króna sem greiddir voru fyrir danska flugfélagið í mars 2005. Féð hefði verið lagt inn á reikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg að frumkvæði Hannesar Smárasonar en síðan horfið þaðan án tilhlýðilegra skýringa.
Í yfirlýsingu sem Ragnhildur sendi frá sér vorið 2010 sagði að henni hefði borist útprentun úr excel-skjali frá Kaupþingi í Lúxemborg þar sem „fram komu upplýsingar sem mátti skilja sem svo að peningarnir hefðu á einhverjum tímapunkti, í einhverjum tilgangi, verið millifærðir á Fons“.
Milljarðarnir þrír sem FL Group lagði inn á reikninginn í Lúxemborg skiluðu sér loks þangað aftur í júlí 2005. Þá hafði Ragnhildur og nokkrir stjórnarmenn í FL Group hótað Hannesi því að málið yrði sent til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til rannsóknar sem fjárdráttur ef féð myndi ekki skila sér.
Beðið eftir gögnum frá Lúxemborg
Í janúar 2011 var Hannes Smárason yfirheyrður af efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vegna málsins. Ragnhildur var einnig boðuð til skýrslutöku sem vitni. Rannsókn þess hafði þá legið niðri um nokkurt skeið vegna þess að þeir sem stýrðu henni höfðu flutt sig yfir til sérstaks saksóknara. Þegar efnahagsbrotadeildin var síðan sameinuð sérstökum saksóknara haustið 2011 fluttist Sterling-málið með.
Hjá sérstökum saksóknara var ákveðið að opna málið að nýju og sækjast eftir gögnum frá Lúxemborg sem gátu sýnt fram á hvert peningarnir sem lagðir voru inni á reikning Kaupþings í Lúxemborg runnu. Þau gögn fengust árið 2013 og sýndu að féð hafði runnið til Fons, sem hafi síðan notað það til að greiða fyrir Sterling. Vegna þessarra gagna var Hannes Smárason ákærður fyrir fjárdrátt í október 2013.
Tímalína atburða í Sterling-málinu
12.-14. mars 2005
Fons kaupir Sterling á fjóra milljarða króna.
22. apríl 2005
Hannes Smárason, þá stjórnarformaður FL Group, lét millifæra um 2,9 milljarða króna af bankareikningi FL Group í New York inn á nýjan bankareikning félagsins í Lúxemborg.
25. apríl 2005
Sama upphæð millifærð af nýja bankareikningnum yfir á bankareikning Fons. Sama dag var féð millifært af bankareikningi Fons yfir á bankareikning þáverandi eiganda Sterling.
30. júní 2005
Kaupþing í Lúxemborg veitir Fons lán til að endurgreiða FL Group upphæðina sem Hannes Smárason hafði millifært á Fons. Hannes Smárason og Jón Ásgeir Jóhannesson gangast í persónulegar ábyrgðir fyrir endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar.
16. október 2005
Hannes Smárason, sem þá var nýlega orðinn forstjóri FL Group, og Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons, ganga frá kaupum FL Group á Sterling fyrir 15 milljarða króna. Söluhagnaður Fons af því að eiga Sterling og Maersk, sem töpuðu milljörðum króna á þessum tíma, varð því ellefu milljarðar króna á um hálfu ári.
Fyrsti ársfjórðungur 2006
Sterling tapar rúmum tveimur milljörðum króna.
Nóvember 2006
Starfsmenn FL Group hefja þróun á verkefni sem fékk nafnið „Project Scantravel“. Það verkefni varð síðan að félagi sem fékk nafnið Northern Travel Holding og var notað til að kaupa Sterling af FL Group í því sem talið eru vera einn stærstu sýndarviðskipti fyrirhrunsáranna.
21. desember 2006
Stjórn FL Group veitir Hannesi Smárasyni heimild til að stofna Northern Travel Holding og sölu á Sterling.
26. desember 2006
Northern Travel Holding stofnað. Á sama tíma er gengið frá sölu FL Group og Fons á Sterling, flugfélaginu Astraeus, Iceland Express, Heklu Travel og Ticket inn í hið nýstofnaða félag. Eigendur Northern Travel Holding voru FL Group og Fons, þeir sömu og seldu eignirnar inn í það. Auk þess var fjárfestingafélagið Sund sagt eiga 22 prósent hlut. Það sem kom þó ekki fram var að Sund var með sölurétt á þeim hlut til Baugs, stærsta eiganda FL Group. Samkvæmt því samkomulagi átti Baugur að kaupa hlutinn aftur af Sund fyrir 26. ágúst 2007 á 2,75 milljarða króna. Vegna þátttöku sinnar í þessum snúningi fékk Sund ehf. greitt tæpan hálfan milljarð króna í þóknanagreiðslur.
Desember 2007
Samkomulag Baugs og Sunds um kaup- og sölurétt á hlutum í Northern Travel Holding var framlengt fram í desember. Þegar kom að því að efna það var Northern Travel Holding látið „kaupa“ hlut Sunds í stað Baugs. Þannig losnaði Baugur úr þeirri snöru.
16. september 2008
Fons kaupir 34 prósent hlut FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir, í Northern Travel Holding. Greitt var fyrir með haldlausum kröfum á Northern Travel Holding. Kaupverðið var því ekkert.
29. október 2008
Sterling gjaldþrota og þúsundir farþega félagsins verða strandaglópar víðs vegar um heiminn.
11. nóvember 2008
Skattayfirvöld gera húsleit í höfuðstöðvum FL Group.
14. september 2009
Northern Travel Holding úrskurðað gjaldþrota. Þrotabú Fons, sem var þá líka farið á hausinn, var langstærsti kröfuhafinn með 15 milljarða króna kröfu. Engar eignir voru í búinu.
Janúar 2011
Hannes Smárason yfirheyrður af efnahagsbrotadeild ríkislögeglustjóra vegna rannsóknar á Sterling-viðskiptum. Ragnhildur Geirsdóttir var einnig boðuð til skýrslutöku sem vitni. Rannsókn þess hafði þá legið niðri um nokkurt skeið vegna þess að þeir sem stýrðu henni höfðu flutt sig yfir til sérstaks saksóknara. Þegar efnahagsbrotadeildin var síðan sameinuð sérstökum saksóknara haustið 2011 fluttist Sterling-málið með.
Haust 2013
Kjarninn greinir frá því að rannsókn á Sterling-málinu væri lokið og beðið væri ákvörðunar um hvort ákært yrði eða ekki.
28. október 2013
Hannes Smárason ákærður af embætti sérstaks saksóknara fyrir fjárdrátt vegna millifærslunnar.
26. mars 2014
Héraðsdómur vísar ákærunni á hendur Hannesi Smárasyni frá.
10. apríl 2014
Hæstiréttur fellir úr gildi úrskurð héraðsdóms um að vísa málinu frá og kemst að þeirri niðurstöðu að efnismeðferð eigi að fara fram.
28. janúar 2015
Aðalmeðferð hefst í máli sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni.
18. febrúar 2015
Hannes Smárason sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur.
14. október 2016
Hæstiréttur Íslands vísar máli gegn Hannesi Smárasyni frá vegna seinagangs ríkissaksóknara við að skila inn greinargerð.