Eftir seinni heimsstyrjöldina var ung áströlsk kona sæmd ótal heiðursmerkjum og ekki einungis af löndum sínum heldur einnig í Bretlandi, Bandaríkjunum og því landi sem stóð í mestri þakkarskuld við hana, Frakklandi. Hún barðist í fremstu línu með andspyrnuhreyfingunni gegn brynvörðum og þungvopnuðum hersveitum Þjóðverja. Framgöngu hennar mætti líkja við persónur á borð við James Bond eða Rambó en hún var manneskja af holdi og blóði. Þetta er sagan af konu sem þoldi ekki að sjá yfirgang nasismans og ákvað að gera eitthvað í því.
Í leit að ævintýrum
Nancy Wake fæddist þann 30. ágúst árið 1912 í Wellington, höfuðborg Nýja Sjálands. Hún var yngst sex systkina hjónanna Charles og Ellu Wake og lifðu þau við ákaflega þröngan kost. Þegar Nancy var aðeins tveggja ára fluttist fjölskyldan til Sydney í Ástralíu. Faðir hennar, sem starfaði sem blaðamaður, yfirgaf fjölskylduna skömmu eftir komuna til Sydney og því þurfti móðir hennar að ala börnin upp sjálf.
Þegar Nancy var 16 ára fór hún að heiman og vann um tíma sem hjúkrunarkona. Draumur hennar var þó að komast til Evrópu og Ameríku og það gerði hún mjög ung. Hún flutti til New York um stund og síðan til Lundúna þar sem hún fetaði í fótspor föður síns og lærði blaðamennsku. Í Lundúnum beitti hún brellum til að fá vinnu hjá útibúi ameríska fréttarisans Hearst. Hún komst að því að ritstjórinn þar hefði áhuga á málefnum Egyptalands. Því laug hún því að hún talaði reiprennandi forn-egypsku og kynni að rita híróglífur. Hún páraði einhverjar myndir á blað og fékk starfið.
Eitt af fyrstu verkefnum hennar var að fara til Vínarborgar til að taka viðtal við hinn nýja kanslara Þýskalands, Adolf Hitler, árið 1933. Í Vín sá hún flokk af ungum nasistum ráðast að gyðingum með tilhæfulausu ofbeldi og svívirðingum. Frá þeim punkti hafði hún megna óbeit á nasismanum. Nancy flutti til Parísar þar sem hún naut sín í botn í skemmtana-og menningarlífi borgarinnar. Hún hafði mikinn sjarma og þótti hispurslaus í fasi. Sjálf lýsir hún sér sem daðrara. Hún gat drukkið hvern sem er undir borðið, sagði klúra brandara og fékk unga myndarlega menn til að borga drykkina fyrir sig. Hún ferðaðist víða um Evrópu og skrifaði fyrir amerísk dagblöð. Í borginni Marseille í Suður Frakklandi kynntist hún hinum unga stáljöfri Henri Fiocca árið 1937. Þau giftu sig árið 1939, tveimur mánuðum eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út.
Hvíta músin
Leiftursókn Þjóðverja um Evrópu barst til Frakklands vorið 1940. Henri var kvaddur í herinn og Nancy starfaði sem hjúkrunarkona og sjúkrabílsstjóri. Þýska stríðsvélin reyndist Frökkum hins vegar ofviða og í júní var landið sigrað. Nancy hjálpaði m.a. til við hinn örvæntingarfulla flótta breskra og ástralskra hermanna við Dunkirk. Þjóðverjar hernumdu norðurhluta Frakklands en komu á fót leppríki í suðurhlutanum kennt við Vichy. Nancy gat hins vegar ekki unað við það að lifa undir járnhæl þriðja ríkisins og gekk strax í frönsku andspyrnuhreyfinguna og vann með hópum sem kölluðu sig maquis. Hún vann sem sendiboði og milliliður við Breta sem reyndu að aðstoða andspyrnumennina.
En aðalstarf hennar var að bjarga hermönnum. Þýskar loftvarnarbyssur skutu niður fjölda flugvéla úr breska flughernum og þeir hermenn sem komust lífs af urðu strandaglópar í óvinveittu ríki. Nancy notaði auð eiginmanns síns til að kaupa hús í útjaðri Marseille sem hún notaði til að hýsa þessa menn. Hún fæddi þá og klæddi, keypti fölsuð vegabréf fyrir þá og smyglaði þeim úr landi suður yfir Pýrenneafjöllin til Spánar. Alls náði andspyrnuhreyfingin að koma meira en 2000 manns yfir landamærin.
Við þetta starfaði hún í þrjú ár undir nefi þýsku leynilögreglunnar Gestapo. Gestapo-menn vissu af tilvist hennar en ekki hver hún var. Hún fékk viðurnefnið “hvíta músin” vegna þess hversu oft hún slapp þeim úr greipum. Hún var eftirlýst og 5 milljón frönkum heitið í verðlaunafé fyrir handtöku hennar. Árið 1943 hleruðu samverkamenn hennar símtal Gestapo þar sem ljóst var að leynilögreglan hafði komist að því hver hvíta músin var. Þegar Nancy frétti það tók hún föggur sínar og flúði umsvifalaust í átt að spænsku landamærunum. Fyrir tilvijun var hún handtekin í borginni Toulouse og sökuð um að hafa sprengt upp kvikmyndahús. Hún var yfirheyrð í fjóra daga en gaf ekkert upp um sjálfa sig.
Þá kom Albert Guerisse, belgískur andspyrnumaður, henni til bjargar. Guerisse laug því að hann væri vinur Pierre Laval, foringja Vichy stjórnarinnar og að Nancy væri hjákona sín. Henni var sleppt en flóttanum var ekki lokið. Það þurfti sex tilraunir til að komast yfir landamærin því að hún og félagar hennar komust í kast við Gestapo menn á leiðinni. Í eitt skipti stökk hún út úr farþegalest á ferð undir kúluregni Gestapo manna. Loks komst hún yfir fjöllin, falin undir kolafarmi á flutningabíl. Þaðan fór hún suður til Gíbraltar-höfða og svo Bretlands. Skömmu eftir flóttann var eiginmaður hennar handtekinn, yfirheyrður og loks tekinn af lífi.
Þjálfaður njósnari
Þegar Nancy komst loks til Englands var hún staðráðin í því að halda baráttunni gegn nasistunum áfram. Hún gekk því til liðs við deild innan breska hersins sem nefndist S.O.E. (Special Operations Executive). Hlutverk deildarinnar var að aðstoða og eiga í samskiptum við andspyrnuhreyfingar víða um Evrópu. Reynsla hennar og tengsl við maquis hópana var því ómetanleg. Hún var send í þjálfunarbúðir í Skotlandi þar sem hún lærði m.a. vopnaburð, sjálfsvarnarlist, njósnir, dulkóðun, að bjarga sér í óbyggðum og að fara með sprengiefni.
Nancy hafði enga reynslu af vopnaburði eða bardögum og þjálfunin var henni því mjög framandi í upphafi. Hún var heldur ekki íþróttamannlega vaxin eða í góðu formi. Þetta lá þó fyrir henni, hún kom kennurum sínum á óvart og eftir aðeins nokkra mánuði var hún orðin vel þjálfaður útsendari hans hátignar. Í lok apríl 1944, skömmu fyrir innrásina á Normandí, var Nancy reiðubúin til þjónustu og var send með flugvél aftur til Frakklands. Hún, ásamt fleiri meðlimum S.O.E. stukku úr vélinni með fallhlíf og lentu í námunda við bæinn Montlucon í Mið-Frakklandi þar sem þau hittu fyrir maquis-andspyrnumenn.
Aðalverkefni S.O.E. manna var að koma vopnum til maquis-hópanna. Þau fundu bletti þar sem auðvelt var fyrir flugvélar að varpa birgðakössum með fallhlífum og komu skilaboðum til Bretlands um þessa bletti. Einnig þurfi að kenna andspyrnumönnunum að nota vopnin og sprengjurnar. Andspyrnuliðið stækkaði umtalsvert eftir komu S.O.E., í alls um 7500 menn, og þeirra beið mikilvægt verkefni, þ.e. að skapa glundroða og gera Þjóðverjum erfitt fyrir áður en Bandamenn lentu í Normandí á D-deginum.
Í fremstu víglínu
Stríðið breitti persónu Nancy Wake. Áður hafði hún verið glaðvær ung kona sem unni sér best með kampavínsglas í hönd og herramann upp á arminn. Nú var hún orðin einbeitt og miskunarlaus baráttukona. Hún sagðist aldrei hafa gugnað. „Maður var aldrei hræddur. Það var of mikið að gera til að vera hræddur.” Hún tók virkan þátt í árásum andspyrnumanna á brýr, birgðalestir, verksmiðjur, orkuver og fleiri mikilvæga staði fyrir þýsku hervélina. Í eitt skipti réðust þau á höfuðstöðvar Gestapo í Montlucon vörpuðu handsprengjum inn um hurðina og skutu þá lögreglumenn sem komust lifandi út, alls féllu 38 leynilögreglumenn í árásinni. Í annað skipti þurfti hún að hjóla nánast viðstöðulaust um 400 km leið framhjá mörgum eftirlitsstöðvum Þjóðverja til að koma nauðsynlegum skilaboðum til Lundúna.
Þegar hún sneri aftur var hún svo örmagna að hún gat vart staðið eða talað. Nancy fékk einnig það verkefni að yfirheyra fanga hópsins. Hún veigraði sér ekki við að taka suma af lífi sjálf, jafnvel þó það væru konur. Hún sagði: „Ég var ekki ljúf manneskja, en ég hélt samt niðri morgunmatnum.” Hún kom meira að segja sjálfri sér á óvart í einni árásinni þegar hún drap þýskan hermann með berum höndum. Einn samverkamaður hennar sagði að hún væri sú kvenlegasta kona sem hann þekkti….þangað til að bardagar hæfust, þá jafnaðist hún á við fimm karlmenn. Hún kunni vel við sig innan um alla mennina í hreyfingunni og var hvers manns hugljúfi.
Hún reykti vindla og gat enn drukkið menn undir borðið en hún passaði einnig upp á það að vera alltaf vel útlítandi, með Chanel-varalit og ýmsan annan tískuvarning. Hún sagðist aldrei hafa átt í ástarsambandi við nokkurn mann á meðan hún barðist með frönsku andspyrnunni enda vissi hún ekki á þeim tímapunkti að eiginmaður hennar var látinn. Loks reyndu Þjóðverjar að snúa vörn í sókn gegn andspyrnumönnunum. Þeir höfðu þrefalt meiri mannafla en það gagnaðist þeim lítið. Andspyrnumenn þekktu svæðið mun betur og skógvaxið landslagið hentaði einkar vel til varna. Þetta truflaði Þjóðverja verulega á sama tíma og þeir þurftu að sinna vörnum gegn sókn Bandamanna í Norður-Frakklandi. Loks yfirgáfu þeir svæðið og andspyrnuhreyfingin stóð uppi með pálmann í höndinni.
Eftir stríðið
Í lok stríðsins og skömmu eftir það vann hún fyrir breska flugherinn í París en flutti skömmu seinna heim til Ástralíu. Þar reyndi hún að komast á þing fyrir Frjálslynda hægri flokkinn en mistókst í tvígang, 1949 og 1951. Þá flutti hún til Bretlands og vann hjá flughernum þar sem hún kynntist seinni eiginmanni sínum, ofurstanum John Forward. Þau giftust árið 1957 og fluttu nokkrum árum seinna til Ástralíu þar sem hún reyndi enn á ný að komast á þing en mistókst aftur, árið 1966. Forward lést árið 1997 en þau áttu engin börn saman.
Fram á gamalsaldur kepptust ríkisstjórnir við að sæma hana orðum. Heimaland hennar Ástralía, fæðingarland hennar Nýja Sjáland, Bretland, Bandaríkin og vitaskuld Frakkland. Hún fékk flestar orður af öllum þeim konum sem börðust í seinni heimsstyrjöldinni. Í Nýja Sjálandi var gata nefnd í höfuðið á henni. Árið 2001 flutti hún aftur til Bretlands og bjó þar seinustu æviár sín. Hún hætti aldrei að hafa gaman að lífinu og sást iðulega á krám í góðra vina hópi með gin og tonik í glasi þó hún væri komin á tíræðisaldur. Nancy Wake lést 98 ára að aldri þann 7. ágúst árið 2011 í Lundúnum en ösku hennar var dreift Frakklandi, nærri bænum Montlucon. Í Ástralíu er hennar minnst sem einnar mestu stríðshetju sem landið hefur alið.
Frelsið er það eina sem er þess virði að lifa fyrir. Meðan á þessu öllu stóð hugsaði ég með sjálfri mér að það skipti ekki máli hvort ég lifði eða dæi, því að án frelsis væri enginn tilgangur með lífinu.