Íslendingar eru oft fljótir að gleyma. Vandræði sitjandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem hafa verið af ýmsum toga á kjörtímabilinu, hafa oft dregið athyglina frá fortíðinni. Síðasta ríkisstjórn, mynduð af Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, var þó ekki með allt sitt á hreinu, þótt henni hafi tekist vel upp á ýmsum sviðum.
Þvert á móti tóku meðlimir hennar nokkrar ákvarðanir sem munu sögulega teljast afleitar. Kjarninn tók saman þær helstu í apríl 2014, um ári eftir að vinstristjórnin lét af störfum. Listinn hefur verið uppfærður þar sem við á.
5. Icesave 1
„Ég var nú eiginlega bara orðinn leiður á því að hafa þetta hangandi yfir mér,“ sagði Svavar Gestsson í viðtali við Morgunblaðið 6. júní 2009. Hann hafði þá stýrt samninganefnd Íslands vegna Icesave-reikninganna sem náði samkomulagi sem í daglegu tali er aldrei kallað annað en Icesave 1. Þremur dögum áður hafði Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, sagt Alþingi að ekki stæði til að ganga frá „einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga“.
Skemmst er frá því að segja að allt varð vitlaust í samfélaginu vegna þessa samnings. Bæði þóttu kjörin sem samið var um þess eðlis að Ísland myndi aldrei ráða við þau og stór hluti þjóðarinnar var líka þeirrar skoðunar að ríkið ætti ekkert að axla þessar einkaskuldir Landsbankans.
Eftir margra mánaða hark og breytingar voru lögin loks samþykkt á Alþingi 30. desember 2009. Forseti Íslands synjaði þeim staðfestingar nokkrum dögum síðar og málið fór þaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í henni sögðu 93,2 prósent þeirra sem greiddu atkvæði nei við samningnum. Já sögðu 1,8 prósent. Það er líkast til fátt sem klauf þjóðina frá þinginu sínu jafn skarpt og Icesave 1. Og í þann klofning glittir enn í dag.
4. Versti Banki Sögunnar
VBS Fjárfestingarbanki fékk 26,4 milljarða króna lán frá ríkissjóði í mars 2009, mánuði eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og VG tók við. Bankinn núvirti 9,4 milljarða króna af láninu, færði sem eign og gat þannig sýnt fram á sýndarheilbrigði. Með því keypti VBS sér líftíma sem hann stóð, vægast sagt, ekki undir.
VBS fór loks í þrot í mars 2010. Lýstar kröfur í búið voru 48 milljarðar króna og ljóst að einungis brotabrot fengist upp í þær. Síðar kom í ljós að staða VBS hafði verið svo slæm á þeim aukna líftíma sem ríkið veitti honum, og var meðal annars nýttur í ýmiss konar gjörninga sem kröfuhafar, slitastjórn og ákæruvaldið hafa síðar þurft að reyna að vinda ofan af og/eða upplýsa um, að Seðlabanki Íslands neyddist til að lána bankanum 53 milljónir króna í ágúst 2009 til að hann gæti borgað laun. Morgunljóst virðist hafa verið að VBS, sem stundum er sagður skammstöfun fyrir Versta Banka Sögunnar, átti aldrei möguleika á að lifa af og því er óskiljanlegt að ríkisstjórn þess tíma hafi veitt honum lengingu í hengingarsnörunni.
3. Landsdómur
Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að nokkrir íslenskir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins. Þingmannanefnd sem skipuð var til að fjalla um skýrsluna komst að þeirri niðurstöðu í september 2010 að ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra, þau Geir H. Haarde, Árna Mathiesen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðsson, fyrir Landsdómi vegna þessarar vanrækslu. Þegar alþingismenn kusu um málið varð niðurstaðan hins vegar sú að einungis Geir var kærður.
Málið var
rammpólitískt og allt varð hreinlega
vitlaust þegar nokkrir þingmenn Samfylkingar
ákváðu að segja já við ákæru á
hendur ráðherrum Sjálfstæðisflokksins
en hlífa sínum flokksmönnum. Landsdómsmálinu
lauk með því að Geir var
fundinn sekur um einn ákærulið en þeir
voru upphaflega sex. Honum var ekki gerð
refsing. Geir kærði málsmeðferðina til
Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem málið er enn til meðferðar. Geir er nú sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.
2. Sparisjóðurinn í Keflavík
Sparisjóðurinn í Keflavík var ónýt fjármálastofnun fyrir bankahrunið. Það var meðal annars staðfest í svartri skýrslu sem Fjármálaeftirlitið vann um hann og var skilað inn mánuði áður en allt hrundi. Samt var ákveðið að leyfa sjóðnum að lifa áfram eftir bankahrun og ráðamenn töluðu um hann sem verðandi hryggjarstykki í nýju sparisjóðakerfi. Það sem verra var er að hann hélt áfram að safna innlánum með þeim afleiðingum að tapið vegna hans jókst stórkostlega.
Alls fékk sjóðurinn að lifa í 30 mánuði eftir bankahrunið þrátt fyrir að rekstrarforsendur hans hafi algjörlega brostið þá. Á því tímabili tókst honum að tapa 46,6 milljörðum króna. Þegar sjóðurinn fór loks formlega á höfuðið í apríl 2010 var nýr sparisjóður stofnaður á grunni þess gamla, SpKef. Ríkið setti 900 milljónir króna inn í hinn nýja sjóð sem eigið fé.
Tæpu ári síðar varð ljóst að nýi sjóðurinn ætti sér ekki viðreisnar von og SpKef var rennt inn í Landsbankann. Kostnaður skattgreiðenda vegna beins kostnaðar, vaxta og eiginfjárframlaga til Sparisjóðsins í Keflavík varð á endanum 26,1 milljarður króna. Ákæra var gefin út á hendur fyrrverandi sparisjóðsstjóranum, Geirmundi Kristinssyni, fyrr á þessu ári vegna umboðssvika fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og gefa félagi sonar síns stofnbréf í sjóðnum. Málsmeðferð er lokið fyrir héraðsdómi en dómur liggur ekki fyrir.
1. Gjöf á hlut í Landsbankanum
Þegar íslenska ríkið samdi við kröfuhafa gamla Landsbankans í desember 2009 um skiptingu eigna hans fékk ríkið 80 prósenta hlut í nýja Landsbankanum, sem stofnaður var á rústum hins gamla. Þessi hlutur gat hækkað umtalsvert ef vel gengi að innheimta tvö lánasöfn, sem heita Pony og Pegasus.
Afrakstur þeirrar innheimtu átti að renna til gamla Landsbankans og hlutur ríkisins myndi vaxa upp að 98,2 prósentum ef endurheimtir yrðu góðar. Afganginn áttu starfsmenn nýja Landsbankans að fá í verðlaun fyrir vel heppnaða rukkun. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, skrifaði undir samninginn fyrir hönd íslenska ríkisins. Niðurstaðan varð sú að endurheimtir urðu með hæsta móti og starfsmennirnir fengu umræddan hlut gefins.
Bankinn hélt reyndar eftir hluta bréfanna til að greiða ýmsan kostnað vegna þessarrar aðgerðar og heldur því sjálfur á 0,91 prósent í sjálfum sér. 530 fyrrverandi og núverandi starfsmenn bankans og um 430 fyrrum stofnfjárhafar í tveimur sparisjóðum sem rennt var inn í Landsbankann eiga hins vegar samtals 0,89 prósent hlut í bankanum. Þorri þeirrar eignar er í eigu starfsmannanna.
Hlutur starfsmanna, núverandi og fyrrverandi, og 430 fyrrum stofnfjárhaga í sparisjóðunum er um 2,2 milljarða króna virði. Þeir hafa fengið greiddan arð vegna eignar sinnar á undanförnum árum.
Á þeim hlutum sem runnu til starfsmanna bankans voru reyndar kvaðir um að ekki mætti framselja hlutina fyrr en 1. september 2016 en gert hafði verið ráð fyrir að búið yrði að skrá hlutabréf í bankanum á skipulegan verðbréfamarkað fyrir þann tíma. Svo er hins vegar ekki.
Bankaráð Landsbankans ákvað í september síðastliðnum að nýta heimild til að kaupa eigin hlutafé. til að lækka eigin fé bankans og gefa hluthöfum hans möguleika á að selja hluti sína. Alls býðst bankinn til að kaupa um tveggja prósenta hlut í sjálfum sér, sem verðmetin er á 5,2 milljarða króna miðað við bókfært verð eigin fjár, í þremur lotum. Síðasta lotan fer fram í febrúar á næsta ári. Á meðal þeirra sem geta selt eignarhlut sinn í þessum lotum eru núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans sem fengu hlutabréf gefins.
Sambærileg umfjöllun um afleiki hægri stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks birtist á sunnudagskvöld. Hér má lesa hana.