Rúmlega þrjú af hverjum fjórum frumvörpum ríkisstjórnarinnar fóru í gegnum Alþingi og urðu að lögum á nýliðnu þingi, eða 76% frumvarpa. Þetta er betra hlutfall en hina tvo þingveturna, þegar hlutföllin voru 73% og 67%. Á fyrsta þingi þessarar ríkisstjórnar, sumarþingi 2013, voru öll 10 frumvörpin sem lögð voru fram samþykkt.
Alls lagði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fram 110 frumvörp á nýliðnu þingi. 84 þeirra urðu að lögum, en sjö þeirra komust aldrei til umræðu á þinginu. 13 frumvörp voru enn inni í nefndum þegar þingi lauk, fimm biðu annarrar umræðu og eitt beið þriðju og síðustu umræðu.
Ríkisstjórnin tók til starfa um mitt ár 2013 og lagði á þessum rúmu þremur árum fram 353 frumvörp til laga. 258 þeirra urðu að lögum, en taka verður fram að séu frumvörp, sem ekki ná fram að ganga á þingi lögð fram aftur teljast þau aftur á næsta þingi sem þau koma fram á. Til samanburðar lagði síðasta ríkisstjórn fram 598 frumvörp á þeim fjórum árum sem hún starfaði.
Kjarninn ákvað líka að fara yfir tölfræði ráðherranna á kjörtímabilinu sem er að verða búið, hversu mörg frumvörp og þingsályktunartillögur þau hafa lagt fram á hverju ári og til samans.
Forsætisráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fram tvö frumvörp til laga á þessu þingi, á meðan hann var forsætisráðherra. Frumvarp hans á breytingum á lögum um þjóðfánann og skjaldarmerkið varð að lögum, en ekki frumvarp hans um menningarminjar, sem átti að búa til þjóðminjastofnun. Á þinginu þar á undan lagði hann fram fjögur frumvörp, en þrjú þeirra urðu að lögum. Veturinn 2013-2014 lagði hann fram eitt frumvarp sem ekki varð að lögum og sumarið 2013 varð eina frumvarpið sem hann lagði fram að lögum. Hann lagði því fram átta frumvörp sem forsætisráðherra. Á sama tímabili lagði hann fram eina þingsályktunartillögu, fyrir utan tillögur um frestun á fundum Alþingis, sem alltaf eru bornar fram af forsætisráðherra.
Utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson var lengst af utanríkisráðherra, eða þar til í byrjun apríl á þessu ári. Hann lagði fram tvö frumvörp á nýliðnu þingi, og Lilja Alfreðsdóttir, sem tók við af honum, lagði fram eitt. Árið á undan lagði Gunnar Bragi fram þrjú frumvörp, og eitt árið þar á undan. Samtals komu því sjö frumvörp frá utanríkisráðherra. Mörg mál sem heyra undir utanríkisráðherra eru lögð fram í formi þingsályktunartillaga, til að mynda ákvarðanir EES-nefndarinnar. Á þessu kjörtímabili voru lagðar fram 57 þingsályktunartillögur af utanríkisráðherra.
Félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra lagði fram sjö frumvörp á þinginu sem var að klárast. Fimm þeirra urðu að lögum. Á síðasta þingi lagði hún fram þrettán frumvörp og veturinn 2013-2014 lagði hún fram tólf frumvörp. Eitt frumvarp frá henni kom fram og var samþykkt á sumarþinginu 2013. 33 frumvörp komu því frá Eygló á kjörtímabilinu. Eygló lagði fram þrjár þingsályktunartillögur á þessu kjörtímabili, allar á nýliðnu þingi.
Fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram 30 frumvörp til laga á þinginu sem lauk í síðustu viku. 24 þeirra urðu að lögum. Hann lagði fram flest frumvörp allra ráðherra. Á síðasta þingi lagði hann fram 20 frumvörp og veturinn á undan því voru þau 26 talsins. Þrjú frumvörp komu frá honum á sumarþinginu eftir kosningarnar 2013, samtals 79 frumvörp. Þrjár þingsályktunartillögur hafa komið frá honum á kjörtímabilinu.
Heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra lagði fram sjö frumvörp á þessu þingi, og sama fjölda frumvarpa þingveturna tvo þar á undan. Samtals gera það 21 frumvörp. Tvær þingsályktunartillögur hafa komið frá Kristjáni á þessu kjörtímabili, báðar á nýliðnu þingi.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Átta frumvörp komu frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þinginu sem var að ljúka. Veturinn 2014-2015 lagði hún fram sextán frumvörp, og þar á undan fjórtán frumvörp. Þann vetur komst lítill hluti hennar mála í gegnum þingið, en aðeins fjögur af fjórtán frumvörpum urðu að lögum. Hún lagði því fram 38 frumvörp í heildina. Ragnheiður Elín hefur lagt fram þrjár þingsályktunartillögur á kjörtímabilinu.
Innanríkisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir var innanríkisráðherra fyrst um sinn í þessari ríkisstjórn, en Ólöf Nordal tók við starfinu í lok árs 2014. Hanna Birna lagði fram eitt frumvarp á sumarþinginu 2013 og 23 þingveturinn 2013-2014. Veturinn 2014-2015 lögðu þær Hanna Birna og Ólöf fram 22 frumvörp til laga og síðastliðið ár lagði Ólöf fram 28 frumvörp, en 22 þeirra urðu að lögum. 74 frumvörp alls. Fjórar þingsályktunartillögur komu frá innanríkisráðherrunum þetta kjörtímabil.
Menntamálaráðherra
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra lagði fram sjö frumvörp til laga á þessu þingi. Öll voru samþykkt nema það stærsta, umfangsmiklar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna og námslánakerfinu. Veturinn 2014-2015 lagði Illugi fram sjö frumvörp, og 2013-2014 voru þau fjögur talsins. Eitt frumvarp hans kom fram á sumarþinginu 2013, og það var samþykkt. Þetta gera 19 frumvörp. Hann hefur ekki lagt fram neina þingsályktunartillögu á kjörtímabilinu.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson var lengst af ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, þar til Gunnar Bragi Sveinsson tók við embættinu þegar Sigurður Ingi varð forsætisráðherra í byrjun apríl síðastliðins. Á þingvetrinum sem var að ljúka lögðu þeir fram sex frumvörp til laga, það þekktasta og umfangsmesta eru búvörulögin. 2014-2015 lagði Sigurður Ingi fram fjórtán frumvörp, og þrettán árið þar á undan. Þrjú frumvörp komu frá honum og voru samþykkt á sumarþinginu 2013, sem öll vörðuðu breytingarnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það eru samtals 36 frumvörp. Tvær þingsályktunartillögur hafa komið frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á kjörtímabilinu.
Umhverfisráðherra
Sigrún Magnúsdóttir varð umhverfisráðherra varð umhverfisráðherra árið 2014, eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson hafði verið umhverfisráðherra samhliða öðrum ráðherraembættum sínum í upphafi kjörtímabilsins. Ekkert frumvarp kom fram frá umhverfisráðherra á sumarþinginu 2013, en veturinn 2013 til 2014 voru níu frumvörp lögð fram. Ellefu frumvörp komu frá Sigrúnu veturinn 2014-2015, og á nýliðnu þingi voru þau tólf talsins. 32 frumvörp komu því frá umhverfisráðherra þessi ár. Fimm þingsályktunartillögur komu úr umhverfisráðuneytinu á kjörtímabilinu.