- Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er kolfallin. Hún fékk 51,1 prósent atkvæða árið 2013 og hvor flokkur fyrir sig fékk 19 þingmenn. Samtals voru þeir því 38. Nú fá flokkarnir samtals 40,6 prósent og 29 þingmenn. Fylgi þeirra minnkar því um 10,5 prósent og þingmönnunum fækkar um 9. Ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna, sem fundað hafði undanfarnar vikur um mögulegt stjórnarsamstarf, er enn lengra frá því að ná meirihluta. Samtals ná flokkar hennar 27 þingmönnum miðað við stöðuna nú.
- Sjálfstæðisflokkurinn stendur einn eftir sem turn í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn fær yfir 29,1 prósent atkvæða og bætir við sig tveimur þingmönnum milli kosninga. Næst stærsti flokkur landsins verður Vinstri græn, sem bæta við sig umtalsverðu fylgi milli kosninga, sem fékk 15,9 prósent atkvæða og tíu þingmenn. Sá flokkur er því tæplega helmingi minni.
- Niðurstöður kosninganna voru mjög frábrugðnar síðustu skoðanakönnunum að því leyti að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fengu um fimm prósent meira fylgi en t.d. Kosningapsá Kjarnans hafði spáð, en Píratar fimm prósent minna fylgi en þeim hafði verið spáð. Þar sem væntanlegir kjósendur Píratar voru taldir afar ólíklegir kjósendur stjórnarflokkanna, og öfugt, þá er líklegt að aðrar breytur en stefna skýri þennan mun, t.d. kosningaþátttaka. Píratar mældust með sterka stöðu hjá ungu fólki sem er ólíklegast að skila sér á kjörstað á meðan að sitjandi stjórnarflokkar mældust sterkir hjá eldra fólki, sem er mun líklegra til að kjósa.
- Staða fjórflokksins svokallaða; Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna í íslenskum stjórnmálum er nú gjörbreytt. Hann fékk 62,1 prósent atkvæða í kosningunum. Árið 2013 fékk hann 74,9 prósent þeirra og árið 2009 og 2007 fékk hann um 90 prósent. Flokkar sem stofnaðir voru eftir árið 2012 fengu nú 37,9 prósent atkvæða.
- Aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar á þing. 30 konur voru kjörnar á þing í gær. Metið fram að þessu eru 27 þingkonur af þeim 63 þingmönnum sem eru kjörnir. Nú verða konur því 47,6 prósent þingheims. Undir lok þessa kjörtímabils sátu 29 konur á Alþingi vegna þess að fjórar konur komu inn í stað þeirra þingmanna sem létust eða hættu á kjörtímabilinu.
- Það verða sjö flokkar á Alþingi eftir þessar kosningar. Það hefur einungis einu sinni gerst áður á lýðveldistímanum, en það var árið 1987. Þá voru klofningsframboð frá bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki í framboði og fengu menn inn á þing. Borgaraflokkurinn, undir forystu Alberts Guðmundssonar, náði sjö mönnum inn á þing. Þá fengu Samtök um jafnrétti og félagshyggju einn mann kjörinn í eina kjördæminu sem boðið var fram í, Norðurlandi eystra, en það var Stefán Valgeirsson. Samtök um jafnrétti og félagshyggju var sérframboð hans, en hann hafði áður verið lengi þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn, rétt eins og Albert hafði lengi verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
- Viðreisn nær næstbesta árangri sem nýr stjórnmálaflokkur hefur náð í sínum fyrstu kosningum frá upphafi og fær 10,5 prósent atkvæða sem þýðir sjö þingmenn. Besta árangurinn á Borgaraflokkurinn frá árinu 1987 þegar hann fékk 10,9 prósent.
- Píratar nálægt þrefalda fylgi sitt og þingmannafjölda á milli kosninga og verða með tíu þingmenn á komandi kjörtímabili. Alls fær flokkurinn 14,5 prósent atkvæða. Niðurstaðan er mun lakari en kannanir höfðu bent til en flokkurinn hefur verið stærsti eða næststærsti flokkur landsins samkvæmt þeim í næstum tvö ár. Viðbótin sem Píratar ná sér í er samt sem áður umtalsverð, flokkurinn bætir 9,3 prósentustigum við sig frá árinu 2013.
- Samfylkingin beið afhroð aðrar kosningarnar í röð. Flokkurinn, sem fékk 29,8 prósent atkvæða í kosningunum 2009 fékk 12,9 prósent í kosningunum 2013 og setti þá Íslandsmet í fylgistapi. Nú fær flokkurinn 5,7 prósent atkvæða og 3-4 þingmenn. Samfylkingin verður minnsti flokkurinn á Alþingi á næsta kjörtímabili. Ef Samfylkingin er sögulega tengd við Alþýðuflokkinn, helsta fyrirrennara hennar, þá er um að ræða verstu úrslit í sögu flokksins. Alþýðuflokkurinn fékk minnst 6,8 prósent atkvæða í fyrstu kosningunum sem hann tók þátt í árið 1916.
- Annar flokkur sem beið sögulegt afhroð er Framsóknarflokkurinn. Hann fær sína verstu niðurstöðu í kosningum frá því að flokkurinn var stofnaður árið 1916, eða 11,5 prósent atkvæða. Fylgi Framsóknar gjörsamlega hrynur á milli kosninga, en flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða árið 2013. Þingflokkur Framsóknarflokksins mun telja átta manns á komandi kjörtímabili, en í honum sátu 19 síðustu ár.
- Björt framtíð vinnur svokallaðan varnarsigur í kosningunum. Flokkurinn hafði mælst í „pilsner-fylgi“, eins og formaður hans sagði í gær, síðustu misserin áður en kosningabaráttan hófst. Þegar talið var upp úr kjörkössunum náði flokkurinn þó að slaga langt upp í kjörfylgi sitt frá árinu 2013 með því að fá 7,2 prósent atkvæða. Þingmönnum hans fækkar þó úr sex í fjóra.
- Flokkur fólksins sigraði „neðri-deildina“, þ.e. kosningar þeirra flokka sem náðu ekki fulltrúa á þing. Alls fékk flokkurinn 3,5 prósent atkvæða sem þýðir að hann mun fá fjárframlög úr ríkissjóði á komandi kjörtímabili. Stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á þing eða náð að lágmarki 2,5 prósent atkvæða eiga rétt til framlaga.
- Ekki verður hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn, líkt og sterk hefð er fyrir í íslenskum stjórnmálum. Næst því að geta slíkt komast Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn með 31 þingmann samanlagt, en 32 þarf til að mynda meirihluta. Því er ljóst að þrír flokkar hið minnsta verða í næstu ríkisstjórn landsins.
* Samantektin er gerð þegar búið er að telja 79,2 prósent atkvæða. Þær tölur sem í henni er um fjallað gætu því breyst lítillega eftir að síðasti fimmtungur talna verður talin.
Auglýsing