Viðskiptaráð Íslands telur að stór skref í átt að losun hafta, Grettistaki sem lyft var í neyslusköttum, lög um opinber fjármál, lagabreytingar um bætt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja og fækkun stofnana eða breytingar á umhverfi þerra séu fimm bestu mál þeirrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem nú er að hverfa frá völdum. Þrjú verstu málin sem ríkisstjórnin réðst í eru hins vegar kostnaðarsöm afskipti á húsnæðismarkaði, nýir búvörusamningar og frumvörp sem auka flækjustig á regluverki. Þetta kemur fram íúttekt Viðskiptaráðs á efnahagslegum áhrifum allra lagabreytinga sem fráfarandi ríkisstjórn réðst í á kjörtímabilinu.
Viðskiptaráð fór yfir öll frumvörp ríkisstjórnarinnar sem urðu að lögum og höfðu veruleg efnahagsleg áhrif. Um var að ræða 72 frumvörp og ráðið gaf þeim einkunn á bilinu -10 til +10.
Munar mest um haftalosun
Niðurstaðan var sú að 43 lagafrumvörð höfðu jákvæð efnahagsleg áhrif. Í grein sem Viðskiptaráð hefur birt um niðurstöðuna segir að þau fimm mál sem upp úr standi séu:
Stór skref stigin í losun hafta með þeim fjórum frumvörpum sem samþykkt voru í haftamálum á kjörtímabilinu. Þar stendur upp úr að gerðir voru nauðasamningar við kröfuhafa, aflandskrónueign var girt af eða losuð, lífeyrissjóðum var hleypt út og loks voru höft losuð lítillega í nú í haust og verða enn frekar losuð um komandi áramót.
Grettistaki lyft í neyslusköttum þegar almenn vörugjöld voru afnumin á 630 vöruflokkum, tollar afnumdir á allar vörur nema landbúnaðarvörur og breytingar gerðar á virðisaukaskattskerfinu.
Ný lög um opinber fjármál taka á þeim skorti á aga, áætlanagerð, heildstæðri hugsun og framtíðarsýn í opinberum fjármálum sem ríkt hefur hérlendis.
Lög sem hækkuðu endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar, lögfesti skattalega hvata fyrir erlenda sérfræðinga sem hingað koma til að vinna og bætti rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja með ýmsum öðrum hætti eru talin hafa bætt samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegri starfsemi.
Fækkun sýslumanns- og lögregluembætta, tilkoma millidómsstigs, aðskilnaður samkeppnis- og einokunarreksturs Orkuveitu Reykjavíkur og sameining tveggja stofnanna í Menntastofnun er mikið framfaraskref að mati Viðskiptaráðs.
Leiðréttingin og önnur kostnaðarsöm afskipti
Viðskiptaráð gagnrýnir líka nokkrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar fráfarandi og segir þrjú mál standa upp úr sem þau verstu.
Þar beri fyrst að nefna kostnaðarsöm afskipti á húsnæðismarkaði sem ráðið telur vera þess eðlis að þau feli í sér afturför. Þau mál sem þar er átt við eru Leiðréttingin, þegar 80,4 milljörðum króna var dreift úr ríkissjóði til hluta Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009, hækkun húsaleigubóta, bygging leiguíbúða af hálfu hins opinbera og nýtt stuðningskerfi vegna kaupa á fyrstu fasteign, sem kynnt var á lokametrunum á starfstíma ríkisstjórnarinnar. Í úttekt Viðskiptaráðs segir: „Við lögðumst gegn öllum þessum frumvörpum sem fela í sér stóraukin útgjöld hins opinbera á húsnæðismarkað fyrir lítinn ávinning vegna áhrifa til aukinnar skattheimtu og hækkunar íbúðaverðs.“
Næst versta málið að þeirra mati var samþykkt nýrra búvörusamninga sem festi landbúnaðarkerfið í fjötra, skerði lífskjör almennings og viðhaldi lágri framleiðni í landbúnaði.
Í þriðja lagi tekur Viðskiptaráð að ríkisstjórnin hafi flækt regluverk á kjörtímabilin þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu um hið gagnstæða. Alls hafi 19 lagafrumvörp verið samþykkt sem juku byrði vegna regluverks en tólf sem drógu úr henni. „Heilt yfir juku þessi lagafrumvörp reglubyrði íslensks atvinnulífs. Þetta er óheppilegt í ljósi þess að íþyngjandi regluverk bitnar fyrst og fremst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem eru nauðsynleg fyrir áframhaldandi vöxt atvinnulífsins.“