Tæplega 26 þúsund Íslendingar hafa flutt úr landi frá byrjun ársins 2010, á meðan að ríflega 19 þúsund hafa flutt til Íslands. Brottfluttir Íslendingar eru því 6.410 fleiri en aðfluttir á þessu tímabili, samkvæmt útreikningum Kjarnans upp úr mannfjöldatölum Hagstofu Íslands.
Líkt og greint var frá í Kjarnanum í síðustu viku hafa 270 fleiri Íslendingar flutt burt af landinu það sem af er ári en flutt hafa heim. Útlit er fyrir talsvert brottflutningsár í ár, þó líklegt sé að það verði ekki eins mikið og í fyrra. Fyrstu níu mánuði ársins fluttu 2.695 Íslendingar úr landi, en 2.425 fluttu heim. Allt árið í fyrra fluttu 2.380 Íslendingar heim til Íslands á meðan 3.785 fluttu burt.
Samkvæmt því fluttu því 1.305 fleiri íslenskir ríkisborgarar úr landi en fluttu til landsins. Árið í fyrra var eitt mesta brottflutningsár frá því að mælingar hófust, og aðeins fimm sinnum áður frá árinu 1961 höfðu marktækt fleiri brottfluttir verið umfram aðflutta. Í öll hin skiptin var það í kjölfar kreppuára hér á landi. Hafa ber í huga að fyrstu árin í þessari umfjöllun, 2010 og 2011, teljast til kreppuára og eru meðal mestu brottflutningsáranna.
Hagstofan hefur spáð því að þróunin verði á þessa leið áfram og fleiri Íslendingar muni flytja burt en heim á hverju ári fram til ársins 2065.
Stærsti hópurinn fólk undir 30
Kjarninn ákvað að kafa dýpra ofan í tölurnar eftir aldri, en þær eru greindar ársfjórðungslega eftir aldursbilum aftur til ársins 2010.
Mesta hreyfingin er hjá fólki á aldrinum 20 til 29 ára, sem kemur kannski ekki á óvart, enda fyrsti áratugur fullorðnisára og sá tími sem flestir Íslendingar ljúka námi og eru líklegir til að fara utan til vinnu eða frekara náms.
Það sem af er þessu ári eru 380 fleiri Íslendingar á þessu aldursbili fluttir burt en heim. Tæplega þrjú þúsund fleiri Íslendingar á aldrinum 20 til 29 hafa flutt í burtu en heim á þessu tæplega sex ára tímabili. 7.770 hafa flutt burt á meðan 4.840 hafa komið heim. Öll árin frá 2010 er þessi hópur stærstur bæði meðal brottfluttra og aðfluttra.
Þegar sagt var frá því í lok síðasta árs að árið væri eitt mesta brottflutningsár íslenskra ríkisborgara, sagði Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands að vísbendingar væru um að margt háskólafólk flytti úr landinu. Eitthvað djúpstæðara væri á ferðinni en kreppuflutningar. Batinn á vinnumarkaði sem átt hafi sér stað á undanförnum árum hafi ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti. „Þá má minna á að samkvæmt Hagstofunni er munur á ráðstöfunartekjum menntaðs og ómenntaðs fólks hér einn sá minnsti í Evrópu,“ sagði Ásgeir við Morgunblaðið í lok síðasta árs. Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, tók þá í svipaðan streng og sagði vísbendingar um að margir finni ekki vinnu sem henti námi og bakgrunni, og nokkur fjöldi háskólamenntaðra væru á atvinnuleysisskrá. Þá voru 1.207 atvinnulausir með háskólapróf. Í september síðastliðnum voru 1.038 háskólamenntaðir á atvinnuleysisskrá, af 3.580 manns, sem gerir tæplega þriðjung.
Fleiri fluttir burt í öllum aldurshópum
Þótt flestir brott- og aðfluttir Íslendingar séu milli tvítugs og þrítugs eru fleiri brottfluttir en aðfluttir í öllum aldurshópum á þessum árum. Minnstur er munurinn á brottfluttum og aðfluttum meðal fólks yfir sextugu, 35 fleiri hafa flutt burt en heim frá árinu 2010.
Fólk milli þrítugs og fertugs er ekki svo langt frá aldurshópnum fyrir neðan, ríflega fjögur þúsund manns á þessum aldri hafa flutt heim á tímabilinu en 5.260 hafa flutt í burtu, sem gerir mun upp á 1.250 manns. Ekki er ólíklegt að þessi hópur eigi að einhverju leyti börnin undir 10 ára aldri sem hafa flust til og frá landinu á þessu tímabili. 3.830 börn undir tíu ára hafa flutt til Íslands en 4.670 hafa flutt burt, sem gerir börn undir tíu ára að þriðja stærsta hópi þeirra sem flutt hafa burt umfram þá sem komið hafa heim. 840 fleiri börn hafa flutt úr landi en heim.
714 fleiri Íslendingar á aldrinum 40 til 49 ára hafa svo flutt burt á tímabilinu, 2.940 burt á meðan 2.225 hafa flutt heim. Hjá 50 til 59 ára er munurinn 385 einstaklingar, 1.260 hafa flutt heim en 1.645 burt. Og að lokum er munurinn 255 einstaklingar hjá börnum á aldrinum 10 til 19 ára, 2.840 hafa flutt úr landi en 2.585 heim.
Börn að flytja heim
Það sem af er þessu ári hafa 130 fleiri börn og ungmenni á aldrinum 0-19 ára flutt heim til Íslands heldur en farið hafa burt. Líkt og fyrr segir hafa 380 fleiri einstaklingar á aldrinum 20 til 29 ára flutt burt en heim, og 40 fleiri á aldrinum 30 til 39 ára. Hins vegar hafa 10 fleiri Íslendingar á aldrinum 40 til 49 ára flutt heim en burt á þessu ári og 20 á aldrinum 50 til 59 ára. Fleiri Íslendingar sextíu ára og eldri hafa aftur á móti flutt burt heldur en heim, eða 10 fleiri það sem af er ári. Hafa ber í huga að allar tölur fyrir þetta ár gilda auðvitað bara um fyrstu níu mánuði ársins og geta því árstölurnar breyst talsvert þegar síðasti ársfjórðungur er liðinn.