Margir þekkja það örugglega, og hafa kynnst því. Til eru fjölmörg orð og setningar sem lýsa því: eiga ekki krónu, vera krúkk, eiga ekki túkall með gati, vera á kúpunni (jafnvel hvínandi kúpunni), vera tómur, staurblankur, skítblankur, eiga ekki bót fyrir rassinn á sér, með tóma pyngju. Allt þetta og margt fleira úr hafsjó tungumálsins lýsir því sem segja má í einu orði: fjárskortur. Semsé, skortur á peningum. Margar leiðir eru hugsanlegar til að bæta úr slíkri vöntun, flestar sem betur fer löglegar en ekki þó allar.
Dæmi eru um að drátthagir menn og konur hafi nýtt hæfileika sína til seðlagerðar og síðan reynt að koma slíkri framleiðslu í umferð eins og það er kallað. Þekktasta dæmi slíks á Íslandi er vafalítið Þorvaldur Þorvaldsson Skógalín (1763–1825) frá Skógum á Þelamörk í Eyjafirði en ótrúlegt lífshlaup hans er söguefni Björns Th. Björnssonar í bókinni „Falsaranum“.
Ljósritunarvélar höfðu ekki verið fundnar upp á dögum Þorvaldar Skógalín, þær komu til sögunnar síðar og nú, á tímum fullkominnar ljósritunartækni, hafa æ fleiri fallið í þá gryfju að fara „ljósritunarleiðina“ til að afla fjár. Oftast kemst slíkt upp og dómum vegna ljósritunarseðla hefur fjölgað mjög í Evrópu, og víðar á síðustu árum.
Seðlagerð og mynthönnun er listgrein
Gerð peningaseðla og myntar hefur tíðkast öldum saman. Kínverjar hófu myntslátt löngu fyrir Krists burð og seðlagerð í kringum árið 1000 e.Kr. Fyrstu evrópsku peningaseðlarnir urðu til á 17. öld en myntin löngu fyrr. Ætíð hefur verið litið á hönnun seðla og myntar sem list þar sem færustu listamenn hafa komið við sögu.
Danir alla tíð framarlega í seðlaprentun og myntsláttu
Danir eiga sér langa handverks- og hönnunarhefð. Það gildir um peninga ekki síður en margt annað. Á 19. og 20. öld framleiddu þeir, ef svo má að orði komast, seðla og mynt fyrir mörg lönd í Evrópu auk eigin gjaldmiðils. Næst elsta gufuvél í Danmörku var myntsláttuvél sem tekin var í notkun árið 1808. Eftir að evrusamstarfið varð til, um síðustu aldamót, eru Danir ein fárra ESB þjóða sem nota eigin gjaldmiðil. Danskir seðlar hafa til þessa verið framleiddir í prentsmiðju danska seðlabankans í miðborg Kaupmannahafnar og sama gildir um hlunkana, eins og slegna myntin er iðulega kölluð.
Bæði seðlarnir og hlunkarnir hafa þótt einstaklega vandaðir, bæði hönnun og framleiðsla.
Æ færri nota reiðufé
Notkun seðla og myntar hefur farið minnkandi á undanförnum árum í Danmörku eins og víðar. Þar kemur ýmislegt til. Greiðslukortin, bæði hin svokölluðu debet- og kreditkort, eru mjög útbreidd og sífellt bætist við nýir greiðslumöguleikar, t.d gegnum símana, sem nánast hver einasti maður hefur í vasanum. Verslun á netinu hefur líka margfaldast á undanförnum árum, þar fer allt í gegnum heimabankann og engir peningar skipta um hendur, í eiginlegri merkingu. Því hefur jafnvel verið spáð að seðlar og mynt hverfi úr notkun innan fárra ára. Sumar verslanir neita í dag að taka við reiðufé, enda þótt slíkt sé ekki leyfilegt, lögum samkvæmt, segja umstangið við seðla og mynt allt of kostnaðarsamt. Þótt mörgum þyki það sérkennileg tilhugsun að geta kannski ekki notað beinharða peninga til að greiða fyrir vöru og þjónustu kann sú þó að verða raunin.
Peningaframleiðslan úr landi
Danski seðlabankinn hefur ákveðið að flytja peningaframleiðsluna úr landi. Myntin verður frá og með næstu áramótum slegin í Finnlandi, en ekki er ákveðið hvar seðlarnir verða prentaðir. Í viðtali við danska útvarpið, DR, sagði Hugo Frey Jensen seðlabankastjóri að ákveðið hefði verið að bjóða út bæði seðlaprentun og myntsláttu og framleiðslunni í Danmörku væri nú hætt. Ástæðan væri sú að nýtingin á vélunum væri alltof lítil og kostnaður við peningaframleiðsluna of mikill.
Bankastjórinn sagði að seðlalagerinn væri það stór að hann dygði allt næsta ár, að minnsta kosti. Þegar bankastjórinn var spurður að því hvort slík framleiðsla væri nægilega örugg í höndum fyrirtækja í öðrum löndum svaraði hann því til að margir seðlabankar, þar á meðal sá íslenski, létu framleiða bæði seðla og mynt í öðrum löndum, án nokkurra vandkvæða.
Ekki allir sammála seðlabankastjóranum
Eftir að ákvörðun Seðlabankans um breytingar á peningaframleiðslunni spurðist út hafa ýmsir orðið til að tjá sig. Bent hefur verið á að árlegur sparnaður Seðlabankans við peningaframleiðsluna nemi í mesta lagi 20 milljónum króna (330 milljónum íslenskum) en það eru um það bil 0.4 prósent af árlegum hagnaði bankans undnfarin ár. Þetta eru smápeningar segja gagnrýnendur og telja nær að beina sjónum að ofurlaunum stjórnenda bankans, eins og þeir komast að orði.
Vélarnar verða seldar
Í áðurnefndu viðtali við danska útvarpið sagði Hugo Frey Jensen seðlabankastjóri að seðlaprent- og myntsláttuvélar bankans yrðu seldar. Hann sagðist telja að ekki myndi skorta kaupendur, vélarnar væru allar hinar vönduðustu og margar þjóðir framleiddu sína eigin seðla og mynt. Hann sá sérstaka ástæðu til að taka skýrt fram að hvorki sláttu- né seðlaprentmótin fylgdu með í kaupunum.