Af þeim tólf fulltrúum sem skipaðir hafa verið í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga eru átta fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis eða Bændasamtaka Íslands. Launþegar, atvinnulífið og neytendur eiga samtals fjóra fulltrúa. Tilkynnt var um skipan hópsins fyrr í dag. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir samsetningu hópsins sýna að stefnt sé að því að gera engar breytingar á búvörusamningunum.
Ögmundur Jónasson skipaður af Gunnari Braga
Tilkynnt var í dag að Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi lokið við skipun á samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga. Upphaflega áttu sjö manns að vera í hópnum og skipan hans átti að liggja fyrir 18. október. Nú eru fulltrúarnir sem í honum sitja orðnir tólf og skipan hópsins lauk mánuði síðar en lagt var upp með.
Af þeim tólf sem sitja í hópnum eru átta skipaðir af ráðuneyti Gunnars Braga eða Bændasamtökum Íslands, þeim hinum sömu og gerðu búvörusamninganna í febrúar sem á að endurskoða. Á meðal þeirra sem skipaður var í hópinn af ráðuneytinu er Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna.
Auk þeirra átta sitja í hópnum einn fulltrúi Neytendasamtaka Íslands, einn fulltrúi Samtaka Atvinnulífsins, einn fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og einn frá BSRB. Ríkið á því fimm fulltrúa í hópnum, bændur þrjá, launþegar tvo, atvinnulífið einn og neytendur einn.
Í samráðshópnum eiga sæti:
- Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir formaður, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
- Róbert Farestveit, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands
- Helga Jónsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja
- Sindri Sigurgeirsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
- Björgvin Jón Bjarnason, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
- Elín Heiða Valsdóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands
- Ólafur Arnarson, tilnefndur af Neytendasamtökunum
- Andrés Magnússon, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins
- Elín Margrét Stefánsdóttir, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
- Jóna Björg Hlöðversdóttir, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
- Björg Bjarnadóttir, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
- Ögmundur Jónasson, skipaður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Stefnir í engar breytingar
Heimildir Kjarnans herma að ein helsta ástæða þess að dregist hafi að skipa hópinn sé sú að ASÍ og BSRB, sem upphaflega áttu einungis að fá einn fulltrúa saman, hafi krafist þess að fá sitt hvorn fulltrúann. Látið var undan þeirri kröfu en samhliða var þeim fulltrúum sem skipaðir voru af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu fjölgað úr einum í fjóra.
Félag atvinnurekenda sem hafa verið mjög gagnrýnin á búvörusamninganna mótmælti því harðlega að vera haldið utan við samráðshópinn og sendi Gunnari Braga bréf þar sem óskað var eftir því að sú afstaða hans yrði endurskoðuð. Allir aðrir lögbundnir umsagnaraðilar hafi verið skipaðir í hópinn utan þeirra, en Félag atvinnurekenda gætir hagsmuna innflytjenda búvara. Bréfið breytti hins vegar ekki afstöðu ráðherrans og Félag atvinnurekenda er ekki með fulltrúa í hópnum.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að sú skipan hópsins sem nú liggi fyrir sé ekki það þjóðarsamtal um breytingar sem lagt hafi verið upp með. Til að bregðast við kröfum ASÍ og BSRB um að fá sitt hvorn fulltrúann hafi Gunnar Bragi brugðist við með því að fjölga fulltrúum ríkis og bænda í hópnum til að tryggja þeim áframhaldandi meirihluta í honum. „Það er augljóst hvert stefnir. Það stefnir í að gera engar breytingar.“
30 prósent þingmanna samþykktu
Einungis 19 þingmenn, eða 30 prósent allra þingmanna, greiddu atkvæði með búvörusamningunum þegar þeir voru samþykktir á Alþingi á í september. Sjö sögðu nei en aðrir sátu hjá eða voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna sem mun móta eitt af lykilkerfum íslensks samfélags, hið ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi, næsta áratuginn. Enginn þingmaður Pírata, Samfylkingar eða Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn samningnum. Þeir sjö þingmenn sem það gerðu voru allir þingmenn Bjartrar framtíðar og Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Auk þess sátu fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna hjá við hana. Aðrir þingmenn stjórnarflokka sem voru viðstaddir samþykktu samninganna.
Nýjustu samningarnir voru undirritaðir 19. febrúar síðastliðinn af fulltrúum bænda annars vegar og fulltrúum ríkisins. Fyrir hönd ríkisins skrifuðu Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra og nú forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, undir samninganna.
Lofuðu endurskoðun eftir þrjú ár
Í lok ágúst lagði meirihluti atvinnuveganefndar fram breytingartillögur á samningunum. Þegar þær voru kynntar var látið að því liggja að í tillögunum væri skýrt kveðið á um endurskoðunarákvæði innan þriggja ára. Engar frekari breytingar voru gerðar á lögum sem gera samninganna gildandi eftir þær breytingatillögur.
Ákvæðið um endurskoðun samninganna er þó ekki mjög skýrt. Í áliti meirihlutanefndar atvinnuveganefndar sagði: „Meiri hlutinn leggur áherslu á að við samþykkt frumvarpsins nú eru fyrstu þrjú ár samninganna staðfest og mörkuð framtíðarsýn til tíu ára. Meiri hlutinn leggur til ákveðna aðferðafræði fyrir endurskoðun samninganna árið 2019 og skal ráðherra þegar hefjast handa við að endurmeta ákveðin atriði og nýtt fyrirkomulag gæti mögulega tekið gildi í ársbyrjun 2020. Meiri hlutinn leggur til að endurskoðunin byggist á aðferðafræði sem feli í sér víðtæka samstillingu um landbúnaðinn, atkvæðagreiðslu um endurskoðaða samninga meðal bænda og afgreiðslu Alþingis á lagabreytingum sem sú endurskoðun kann að kalla á.“
Í breytingartillögunni sjálfri sagði: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.
Kjarninn beindi fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um hvort að það bæri að skilja lögin þannig að bændur myndu alltaf fá að kjósa um þá endurskoðun sem muni eiga sér stað eigi síður en árið 2019. Svar ráðuneytisins var já.
Þegar spurt var hvað myndi gerast ef bændur myndu hafna þeirri endurskoðun í atkvæðagreiðslu var svarið: „Ef bændur hafna þeim breytingum sem hugsanlega verða gerðar við endurskoðunina 2019 verður aftur sest niður og leitað frekari samninga.“