Landsbankinn samþykkti að veita Arion banka skaðleysi gegn fjölmörgum málum sem höfðuð höfðu verið gegn Valitor þegar bankinn seldi 38 prósent hlut sinn í fyrirtækinu til Arion banka í desember 2014 á 3,6 milljarða króna. Málin eru skaðabótamál vegna samkeppnislagabrota Valitor og vegna riftunar fyrirtækisins á samningi við íslenskt dótturfélag Wikileaks og samstarfsaðila þess. Landsbankinn hefur þegar endurgreitt 147 milljónir króna vegna tveggja mála og reiknar með því að þurfa að greiða 92 milljónir króna til viðbótar. Ríkisendurskoðun segir hins vegar í skýrslu sinni um eignasölu Landsbankans á árunum 2010-2016, sem birt var á mánudag, að skaðleysisábyrgðin gagnvart málinu sem dótturfélag Wikileaks hefur höfðað gæti sett strik í reikninginn. Þar hafi dómkvaddir matsmenn komist að þeirri niðurstöðu að tjónið sem Valitor hafi valdið sé upp á 3,2 milljarða króna og bótakrafa stefnenda er upp á fimm milljarða króna. Niðurstaða dómstóla liggur ekki fyrir en ljóst er að Landsbankinn mun þurfa að greiða 38 prósent þeirrar fjárhæðar sem mun falla stefnendum í skaut, en þó ekki meira en sem nemur söluverði eignarhlutar bankans í Valitor, eða 3,6 milljarða króna. Því gæti farið svo að Landsbankinn þurfi að greiða umtalsverðan hluta þeirrar upphæðar sem hann fékk fyrir hlut sinn í Valitor til baka.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum vörðuðu umrædd skaðleysisákvæði mál sem óvissa var um´á þeim tíma þegar salan átti sér stað, en höfðu átt sér stað á meðan að Landsbankinn var hluthafi í félaginu. „Með þessum ákvæðum var Landsbankinn að ábyrgjast að eignin (þ.e. hlutabréfin í Valitor) væri á tíma viðskiptanna haldin tilteknum kostum, sem umsamið kaupverð tók mið af. Þetta er ekki óvanalegt í viðskiptum með óskráða eignarhluti í fyrirtækjum þegar óvissa ríkir um niðurstöðu í tilteknum álitamálum,“ segir í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Munu draga úr endanlegum ávinningi
Þegar Landsbankinn seldi 38 prósent hlut sinn í Valitor til Arion banka í desember 2014 var sérstakt skaðleysisákvæði sett var í kaupsamninginn. Þar Landsbankinn veitti Arion banka skaðleysi vegna ýmissa tilgreindra mála. Skaðleysið fólst annars vegar í því að Landsbankinn myndi endurgreiða Arion banka hluta af söluverðinu ef Valitor yrði fyrir tjóni vegna skaðabótamála sem höfðuð höfðu verið gegn fyrirtækinu.
Hins vegar veitti Landsbankinn Arion banka skaðleysi í þrjú ár frá undirritun kaupsamnings ef í ljós kæmi að Valitor yrði gert að greiða skaðabætur og/eða stjórnvaldssektir vegna brota á samkeppnislögum og varða önnur atvik eða mál. Skaðleysi samkvæmt þessu ákvæði náði þó ekki til atvika sem félagið vissi um eða mátti vita um. Þá náði það einungis til stjórnvaldssekta eða skaðabóta umfram 300 milljóna króna. og bæri Landsbankinn þá ábyrgð á 38 prósent af tjóni umfram þá upphæð. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eignasölu Landsbankann segir: „Ljóst er að umrædd skaðleysisákvæði munu draga nokkuð úr endanlegum ávinningi Landsbankans af sölu eignarhlutar síns í Valitor. “
Wikileaks-málið getur sett strik í reikninginn
Þau mál sem fyrir lá að Valitor gæti þurft að greiða skaðabætur út af voru tvenns konar. Annars vegar mál vegna brota á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið sektaði Valitor um 500 milljónir króna árið 2013 fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn skilyrðum eftirlitsins. Hæstiréttur staðfesti brot Valitor í apríl á þessu ári og sektina sömuleiðis. Landsbankinn samþykkti að greiða 38 prósent vegna þeirra atvika sem Samkeppniseftirlitið tilgreindi í andmælaskjali frá því í mars 2013 um ætluð brot Valitors, Borgunar og kortaútgefenda á samkeppnislögum. Hann samþykkti einnig að greiða sama hlutfall af skaðabótum sem Valitor þyrfti mögulega að greiða Kortaþjónustunni vegna meintra brota Valitor á samkeppnislögum. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka sem veitt var skaðleysi, var forstjóri Valitor þegar samkeppnislagabrot fyrirtækisins voru framin.
En sú skaðleysisábyrgð sem Landsbankinn samþykkti sem getur helst sett strik í reikninginn fyrir Landsbankann, og lækkað mjög endanlegt söluvirði Valitor, er ábyrgð sem hann gekkst í vegna skaðabótamáls sem Datacell og Sunshine Press Production, íslensks dótturfélags Wikileaks, hafa höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness vegna meints tjóns vegna riftunar Valitors á söluaðilasamningi við Datacell. Hæstiréttur hafði þegar staðfest heimildaskort Valitors til að rifta samningnum við Datacell og Sunshine Press þegar kaupsamningurinn á eignarhlutnum í Valitor var gerður en fjárhæð bótakröfunnar lá ekki fyrir. Það gerir hún nú.
Fara fram á fimm milljarða í bætur
Sunshine Press krefur Valitor um fimm milljarða króna í bætur og vexti vegna tjóns sem það varð fyrir þegar Valitor lokaði fyrir greiðslugátt fyrirtækisins. RÚV greindi frá þessu í frétt í maí.
Bótafjárhæðin er byggð á mati dómkvaddra matsmanna sem komust að því að tjónið vegna aðgerða Valitor væri 3,2 milljarðar króna. Við þá upphæð bætast vextir. Matsmennirnir voru skipaðir eftir að sátt náðist á milli deiluaðila um að skipa þá til að meta tjónið. Niðurstaða dómstóla í málinu liggur enn ekki fyrir.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ljóst sé „að Landsbankinn mun þurfa að greiða 38 prósent fjárhæðarinnar en þó ekki meira en sem nemur söluverði eignarhlutarins.“ Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að Valitor eigi að greiða Datacell og Sunshine Press þá upphæð sem dómkvöddu matsmennirnir mátu tjónið á yrði hlutdeild Landsbankans í henni 1,2 milljarðar króna. Ef dómstólar telja að fjárkrafa stefnenda sé rétt þarf Landsbankinn að greiða 1,9 milljarða króna.
Það er umtalsvert hærri tala en bankinn gerir ráð fyrir að greiða vegna skaðleysisákvæðanna. Í skýrslunni segir að Landsbankinn hafi þegar greitt tæplega 147 milljónir króna vegna þeirra og geri ráð fyrir að greiða 92 milljónir króna í viðbót.