Frá og með næsta ári mun ríkissjóður greiða árlega fimm milljarða króna inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar sínar. Selji ríkið 100 prósent hlut sinn í Íslandsbanka mun sú fjárhæð verða endurmetin til hækkunar og ef allt hlutaféð verður selt gefst svigrúm til allt að 100 milljarða króna innágreiðslu á skuldbindingarnar. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 sem lagt var fram í gær.
Ríkur vilji hefur verið til þess hjá Alþingi að hefja á ný reglulegar greiðslur vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga hins opinbera. Heildarskuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) samkvæmt ríkisreikningi námu 460 milljörðum króna í lok árs 2015. Meirihluti fjárlaganefndar lagði það til í sumar að greiðslurnar yrðu að minnsta kosti tíu milljarðar króna á ári til að draga úr því höggi sem verður á ríkissjóð þegar sjóður deildarinnar tæmist árið 2030. Niðurstaðan í fjárlögum er að greiða helming þeirrar upphæðar.
Greiðslum hætt eftir hrunið
Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hins opinbera hafa verið risastórt vandamál í lengri tíma. Árið 1997 var A-deild LSR stofnuð. Hún byggir á stigakerfi þar sem sjóðsfélagi ávinnur sér réttindi miðað við greidd iðgjöld. Kerfið byggir á sjóðssöfnun. Þ.e. LSR safnar iðgjöldum, ávaxtar þau og greiðir út í samræmi við áunnin réttindi. Ef sjóðurinn á ekki fyrir þeim hleypur ríkið undir bagga.
Á sama tíma var eldra kerfi sjóðsins, hin svokallaða B-deild, lokuð fyrir sjóðsfélögum. Í henni ávinna sjóðsfélagar sér tvö prósent réttindi á ári miðað við fullt starf. Reglur LH eru áþekkar B-deildinni. Þetta kerfi byggir að mestu á gegnumstreymi fjármagns, og einungis að hluta til á sjóðssöfnun. Ástæða þess að kerfið var lagt niður var sú að það blasti við að það gæti ekki staðið undir sér. Því var settur plástur á sárið og lokað á nýliðun í B-deildina. Það breytir því ekki að henni blæðir enn mikið. Það var alltaf morgunljóst að ríkið myndi þurfa að greiða háar fjárhæðir með þessu gamla kerfi.
Þess vegna ákvað Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, árið 1999 að ríkissjóður skyldi hefja greiðslur til B-deildar LSR og LH umfram lagaskyldu. Markmiðið var að milda höggið sem framtíðarkynslóðir skattgreiðenda myndu þurfa að þola vegna þess og koma í veg fyrir að sjóðirnir tæmdust.
Árið 2008, eftir hrunið, var þessum viðbótargreiðslum hins vegar hætt. Þá hafði ríkissjóður, frá árinu 1999, alls greitt 90,5 milljarða króna inn á útistandandi skuld sína við B-deild LSR og LH. Í lok árs 2014 var sú fjárhæð, uppfærð með ávöxtun sjóðanna, orðin 231,8 milljarðar króna. Því er ljóst að greiðslurnar skiptu verulegu máli. Ef ekki hefði komið til þessara greiðslna væru sjóðirnir tómir og allar greiðslur féllu nú þegar á ríkissjóð.
Allt búið 2030
Samtals voru skuldbindingar B-deildar LSR og LH 460 milljörðum króna í lok árs 2015, samkvæmt ríkisreikningi. Allir fjármunir sjóðanna munu verða uppurnir árið 2030 og eftir það falla greiðslur til sjóðfélaga beint á ríkissjóð. Til viðbótar er heildarstaða A-deildar LSR einnig neikvæð þótt staða hennar hafi ekki versnað á síðustu árum. Greiðslur vegna þeirra ófjármögnuðu skuldbindinga falla líka að óbreyttu á ríkissjóð.
Verði ekkert að gert mun sjóður B-deildarinnar tæmast árið 2030 og ríkissjóður þarf þá að fjármagna sjóðinn með 13 milljarða króna árlegum greiðslum vegna bakábyrgðar til að byrja með, og öðrum 13 milljörðum króna vegna lífeyrishækkana eftirlaunaþega.
Ríkið sleppur við greiðslur og fær skatttekjur á móti
Þegar verið er að meta skuldbindingar ríkissjóðs vegna opinberra starfsmanna verður að hafa í huga að ríkið „sleppur“ við að greiða lífeyrissjóðsgreiðslur úr almannatryggingakerfinu með því að borga þessar skuldir og hefur auk þess nokkuð háar skatttekjur af lífeyrisgreiðslum.
Stjórn LSR fékk í fyrravor Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðing, og nú þingmann og formann Viðreisnar, til að meta þetta samspil. Niðurstaða hans var sú að ríkið spari sér umtalsverðar fjárhæðir, á annað hundrað milljarða króna, í lífeyrisgreiðslur og fái auk þess á þriðja hundrað milljarða króna í skatttekjur þegar það er búið að greiða upp skuldina.
Þá stendur samt sem áður eftir bakábyrgð ríkissjóðs. Þ.e. beinharðir peningar sem þarf að greiða í skuldahítina og fást ekki aftur með sparnaði í almannatryggingakerfinu eða með skattgreiðslum. Á ríkisstjórnarfundi í ágúst 2015 kom fram að þessi upphæð er áætluð, fyrir B-deild LSR og LH saman, 104,8 milljarðar króna. Hún hefur hækkað síðan. Inn á þessa skuld þarf að hefja greiðslur, annars sitja framtíðarkynslóðir uppi með tug milljarða króna kostnað á ári frá 2030.