Íslendingar taka nánast bara verðtryggð húsnæðislán

Íslendingar virðast helteknir af verðtryggingu. Stjórnmálaöfl tala sífellt um að draga úr vægi hennar og á síðasta kjörtímabili voru greiddar skaðabætur úr ríkissjóði til hluta landsmanna vegna áhrifa hennar. En samt taka Íslendingar nær einvörðungu verðtryggð lán.

Alls eru 86,2 pró­sent þeirra hús­næð­is­lána sem veitt hafa verið á fyrstu tíu mán­uðum árs­ins 2016 verð­tryggð lán. Ein­ungis 13,8 pró­sent lán­anna eru óverð­tryggð. Þetta sést þegar útlán líf­eyr­is­sjóða, banka og Íbúða­lána­sjóðs til hús­næð­is­kaupa eru skoð­uð.

Það vekur athygli í ljósi þess að mikil umræða hefur verið um það á hinu póli­tíska sviði á und­an­förnum árum hvort að verð­trygg­ing eigi rétt á sér eða ekki. Rík­is­stjórn Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar réðst til að mynda í þá for­dæma­lausu aðgerð að greiða hluta þeirra sem voru með verð­tryggð hús­næð­is­lán á árunum 2008 og 2009 80,4 millj­arða króna í bætur vegna verð­bólgu þeirra ára. Í ágúst kynnti frá­far­andi rík­is­stjórn síðan aðgerðir sem áttu að draga úr vægi verð­trygg­ingar á íslenskum hús­næð­is­mark­aði. Sam­kvæmt þeim átti að banna hin svoköll­uðu Íslands­lán, 40 ára verð­tryggð jafn­greiðslu­lán. Í frum­varpi sem lagt var fram vegna þessa kom hins vegar fram að ungt og tekju­lágt fólk myndi enn geta tekið lán­in. Í raun hefðu 75 pró­sent lán­tak­enda getað haldið áfram að taka lán­in. Ein­ungis sá hópur sem er ólík­leg­astur til að þurfa að taka slík lán yrði bannað að taka þau. Ekki náð­ist að klára frum­varpið og verður að telj­ast lík­legt að það verði ekki end­ur­flutt, enda í raun ekki um neitt.

Þrátt fyrir mikla aukn­ingu á fram­boði óverð­tryggðra hús­næð­is­lána þá hefur eft­ir­spurn eftir þeim lík­lega aldrei verið minni. Ástæðan er sú að verð­bólga hefur verið lá á Íslandi í á þriðja ár og undir verð­bólgu­mark­miði Seðla­banka Íslands frá því í febr­úar 2014. Það gerir það að verkum að verð­tryggðu lánin eru, að minnsta kosti sem stend­ur, hag­stæð­ari. Afborg­anir af þeim eru lægri en höf­uð­stóll lán­anna er samt að greið­ast nið­ur. Auk þess hjálpar til að hús­næð­is­verð hefur hækkað um 65 pró­sent frá árinu 2010 og langt umfram verð­bólgu. Við það hefur eigið fé fólks í hús­næði snar­hækk­að.

Olía og sterk króna áhrifa­valdar

Ástæða þess að verð­bólga hefur verið lág er marg­þætt. Mjög ströng höft hafa verið í land­inu og Seðla­banki Íslands hefur því getað stýrt efna­hags­á­stand­inu betur en ef frjáls­ræði ríkti í fjár­magns­flutn­ing­um. Síð­ustu mán­uði hafa höftin verið losuð og geta íslenskra stjórn­valda og Seðla­bank­ans til að stýra málum mun því ekki verða eins mikil í nán­ustu fram­tíð.

Þá hefur mikil og hröð styrk­ing íslensku krón­unnar og lágt heims­mark­aðs­verð á olíu haldið aftur af inn­fluttri verð­bólgu og þannig minnkað verð­bólgu­þrýst­ing. Mik­ill þrýst­ingur er hjá fyr­ir­tækjum í alþjóð­legri starf­semi á Íslandi á stjórn­völd að grípa til aðgerða til að draga úr styrk­ingu krón­unn­ar, sem veikir sam­keppn­is­hæfni og dregur úr arð­semi þeirra fyr­ir­tækja sem eru með tekjur í öðrum gjald­miðlum en íslensku krón­unni.

Síð­ustu daga hefur heims­mark­aðs­verð á olíu hækkað hratt og gert er ráð fyrir því að það hækki enn í nán­ustu fram­tíð. Verðið náði lág­marki í febr­úar þegar tunnan af hrá­olíu fór í 26 dali, en nú er búist við því að verðið á henni fari yfir 60 dali fljót­lega. Ástæðan er sú að olíu­­fram­­leiðslu­­ríki hafa náð saman um að draga úr fram­­leiðslu, sem svo leiðir til minna fram­­boðs á mark­að­i.

Íslend­ingar taka nær ein­vörð­ungu verð­tryggð lán

Allt þetta mun hafa mikil áhrif á verð­bólgu á Íslandi, og þar af leið­andi á verð­tryggð íslensk hús­næð­is­lán. Þótt spár geri enn ráð fyrir því að verð­bólgan hald­ist undir 2,5 pró­sentum út árið 2017 þá gæti sú staða breyst mjög snögg­lega vegna ofan­greindra aðstæðna.

Íslend­ingar taka nefni­lega nær ein­vörð­ungu verð­tryggð hús­næð­is­lán. Á árinu 2015 lán­uðu íslenskir bankar 101,6 millj­arða króna til heim­ila lands­ins, þegar búið er að draga frá upp­greiðslum og bíla­lán. Sú tala sýnir því útlán sem eru nær ein­göngu til íbúð­ar­kaupa.

Ríkisstjórnin kynnti aðgerðina Fyrsta fasteign í ágúst. Á meðal þess sem hún fól í sér var að banna átti hluta landsmanna að taka svokölluð Íslandslán. Aðgerðin hefur ekki verið lögfest.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í fyrra lán­uðu bank­arnir 56,4 millj­arða króna verð­tryggt en 45,2 millj­arða króna óverð­tryggt vegna íbúð­ar­kaupa. Því voru verð­tryggð hús­næð­is­lán 55,5 pró­sent af heild­ar­út­lánum þeirra.

Í ár hefur orðið mikil breyt­ing á. Þrátt fyrir mik­inn upp­gang á hús­næð­is­mark­aði – útlánum hefur fjölgað mikið og verð hækkað um 13,6 pró­sent á einu ári – þá hefur sú fjár­hæð sem íslenskir bankar lána til íslenskra heim­ila, að frá­dregnum upp­greiðslum og bíla­lán­um, dreg­ist saman milli ára. Á fyrstu tíu mán­uðum árs­ins 2016 lán­uðu þeir sam­tals 67,8 millj­arða króna til heim­ila. Þar af voru ein­ungis 2,9 millj­arðar króna í óverð­tryggðum lánum þegar búið var að draga bíla­lán frá. 64,9 millj­arðar króna voru hins vegar í verð­tryggðum lán­um. Það þýðir að lán til heim­ila, að frá­dregnum upp­greiðslum og bíla­lán­um, voru í 96 pró­sent til­vika verð­tryggð.

Til við­bótar hefur Íbúða­lána­sjóður lánað um 2,2 millj­arða króna í almenn lán það sem af er þessu ári. Sjóð­ur­inn lánar ein­ungis verð­tryggt.

Líf­eyr­is­sjóðir orðnir umsvifa­meiri í nýjum lánum en bankar

Ástæða þess að íslensku bank­arnir hafa ekki náð meiri árangri í útlánum til heim­ila það sem af er árinu 2016 er ein­föld, inn­rás líf­eyr­is­sjóða á hús­næð­is­lána­mark­að­inn.

Líkt og Kjarn­inn greindi frá um helg­ina þá munu útlán líf­eyr­is­sjóða til heim­ila lands­ins að öllum lík­indum fjór­fald­ast á þessu ári. Líf­eyr­is­sjóð­irnir hafa þegar lánað sjóð­fé­lögum sínum 70,3 millj­arða króna á fyrstu tíu mán­uðum árs­ins og ef sama þróun heldur áfram á síð­ustu tveimur mán­uðum árs­ins munu heildar útlán þeirra til heim­ila verða nálægt 85 millj­örðum króna á árinu öllu. Það er fjórum sinnum meira en þeir 21,6 millj­arðar króna sem sjóð­irnir lán­uðu til heim­ila á árinu 2015.

Umrædd lán eru nær ein­vörð­ungu lán til íbúð­ar­kaupa. Hlut­deild líf­eyr­is­sjóða á þeim mark­aði hefur auk­ist veru­lega eftir að nokkrir stórir sjóðir hófu að bjóða allt að 75 pró­sent íbúða­lán, betri vaxta­kjör en bank­arn­ir, óverð­tryggð lán og lægri lán­töku­gjöld á síð­ari hluta árs­ins 2015. Á fyrstu tíu mán­uðum árs­ins lán­uðu líf­eyr­is­sjóð­irnir hærri upp­hæð til heim­ila lands­ins en bankar gerðu. Allt árið í fyrra lán­uðu þeir ein­ungis um fjórð­ung af því sem bankar lán­uðu heim­ilum lands­ins, þegar búið er að draga frá upp­greiðslum og bíla­lán.

Hjá líf­eyr­is­sjóð­unum er þró­unin svipuð og hjá bönk­un­um. Þ.e. lán­tak­endur eru mun frekar að taka verð­tryggð lán en óverð­tryggð. Alls voru 53,9 millj­arðar króna af þeim 70,3 millj­örðum króna sem sjóð­irnir lán­uðu til hús­næð­is­kaupa á fyrstu tíu mán­uðum árs­ins verð­tryggð lán. Það þýðir að 77 pró­sent lán­anna eru verð­tryggð.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar