Íslendingar taka nánast bara verðtryggð húsnæðislán

Íslendingar virðast helteknir af verðtryggingu. Stjórnmálaöfl tala sífellt um að draga úr vægi hennar og á síðasta kjörtímabili voru greiddar skaðabætur úr ríkissjóði til hluta landsmanna vegna áhrifa hennar. En samt taka Íslendingar nær einvörðungu verðtryggð lán.

Alls eru 86,2 prósent þeirra húsnæðislána sem veitt hafa verið á fyrstu tíu mánuðum ársins 2016 verðtryggð lán. Einungis 13,8 prósent lánanna eru óverðtryggð. Þetta sést þegar útlán lífeyrissjóða, banka og Íbúðalánasjóðs til húsnæðiskaupa eru skoðuð.

Það vekur athygli í ljósi þess að mikil umræða hefur verið um það á hinu pólitíska sviði á undanförnum árum hvort að verðtrygging eigi rétt á sér eða ekki. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar réðst til að mynda í þá fordæmalausu aðgerð að greiða hluta þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 80,4 milljarða króna í bætur vegna verðbólgu þeirra ára. Í ágúst kynnti fráfarandi ríkisstjórn síðan aðgerðir sem áttu að draga úr vægi verðtryggingar á íslenskum húsnæðismarkaði. Samkvæmt þeim átti að banna hin svokölluðu Íslandslán, 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Í frumvarpi sem lagt var fram vegna þessa kom hins vegar fram að ungt og tekjulágt fólk myndi enn geta tekið lánin. Í raun hefðu 75 prósent lántakenda getað haldið áfram að taka lánin. Einungis sá hópur sem er ólíklegastur til að þurfa að taka slík lán yrði bannað að taka þau. Ekki náðist að klára frumvarpið og verður að teljast líklegt að það verði ekki endurflutt, enda í raun ekki um neitt.

Þrátt fyrir mikla aukningu á framboði óverðtryggðra húsnæðislána þá hefur eftirspurn eftir þeim líklega aldrei verið minni. Ástæðan er sú að verðbólga hefur verið lá á Íslandi í á þriðja ár og undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í febrúar 2014. Það gerir það að verkum að verðtryggðu lánin eru, að minnsta kosti sem stendur, hagstæðari. Afborganir af þeim eru lægri en höfuðstóll lánanna er samt að greiðast niður. Auk þess hjálpar til að húsnæðisverð hefur hækkað um 65 prósent frá árinu 2010 og langt umfram verðbólgu. Við það hefur eigið fé fólks í húsnæði snarhækkað.

Olía og sterk króna áhrifavaldar

Ástæða þess að verðbólga hefur verið lág er margþætt. Mjög ströng höft hafa verið í landinu og Seðlabanki Íslands hefur því getað stýrt efnahagsástandinu betur en ef frjálsræði ríkti í fjármagnsflutningum. Síðustu mánuði hafa höftin verið losuð og geta íslenskra stjórnvalda og Seðlabankans til að stýra málum mun því ekki verða eins mikil í nánustu framtíð.

Þá hefur mikil og hröð styrking íslensku krónunnar og lágt heimsmarkaðsverð á olíu haldið aftur af innfluttri verðbólgu og þannig minnkað verðbólguþrýsting. Mikill þrýstingur er hjá fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi á Íslandi á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að draga úr styrkingu krónunnar, sem veikir samkeppnishæfni og dregur úr arðsemi þeirra fyrirtækja sem eru með tekjur í öðrum gjaldmiðlum en íslensku krónunni.

Síðustu daga hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað hratt og gert er ráð fyrir því að það hækki enn í nánustu framtíð. Verðið náði lágmarki í febrúar þegar tunnan af hráolíu fór í 26 dali, en nú er búist við því að verðið á henni fari yfir 60 dali fljótlega. Ástæðan er sú að olíu­fram­leiðslu­ríki hafa náð saman um að draga úr fram­leiðslu, sem svo leiðir til minna fram­boðs á mark­að­i.

Íslendingar taka nær einvörðungu verðtryggð lán

Allt þetta mun hafa mikil áhrif á verðbólgu á Íslandi, og þar af leiðandi á verðtryggð íslensk húsnæðislán. Þótt spár geri enn ráð fyrir því að verðbólgan haldist undir 2,5 prósentum út árið 2017 þá gæti sú staða breyst mjög snögglega vegna ofangreindra aðstæðna.

Íslendingar taka nefnilega nær einvörðungu verðtryggð húsnæðislán. Á árinu 2015 lánuðu íslenskir bankar 101,6 milljarða króna til heimila landsins, þegar búið er að draga frá uppgreiðslum og bílalán. Sú tala sýnir því útlán sem eru nær eingöngu til íbúðarkaupa.

Ríkisstjórnin kynnti aðgerðina Fyrsta fasteign í ágúst. Á meðal þess sem hún fól í sér var að banna átti hluta landsmanna að taka svokölluð Íslandslán. Aðgerðin hefur ekki verið lögfest.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í fyrra lánuðu bankarnir 56,4 milljarða króna verðtryggt en 45,2 milljarða króna óverðtryggt vegna íbúðarkaupa. Því voru verðtryggð húsnæðislán 55,5 prósent af heildarútlánum þeirra.

Í ár hefur orðið mikil breyting á. Þrátt fyrir mikinn uppgang á húsnæðismarkaði – útlánum hefur fjölgað mikið og verð hækkað um 13,6 prósent á einu ári – þá hefur sú fjárhæð sem íslenskir bankar lána til íslenskra heimila, að frádregnum uppgreiðslum og bílalánum, dregist saman milli ára. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2016 lánuðu þeir samtals 67,8 milljarða króna til heimila. Þar af voru einungis 2,9 milljarðar króna í óverðtryggðum lánum þegar búið var að draga bílalán frá. 64,9 milljarðar króna voru hins vegar í verðtryggðum lánum. Það þýðir að lán til heimila, að frádregnum uppgreiðslum og bílalánum, voru í 96 prósent tilvika verðtryggð.

Til viðbótar hefur Íbúðalánasjóður lánað um 2,2 milljarða króna í almenn lán það sem af er þessu ári. Sjóðurinn lánar einungis verðtryggt.

Lífeyrissjóðir orðnir umsvifameiri í nýjum lánum en bankar

Ástæða þess að íslensku bankarnir hafa ekki náð meiri árangri í útlánum til heimila það sem af er árinu 2016 er einföld, innrás lífeyrissjóða á húsnæðislánamarkaðinn.

Líkt og Kjarninn greindi frá um helgina þá munu útlán lífeyrissjóða til heimila landsins að öllum líkindum fjórfaldast á þessu ári. Lífeyrissjóðirnir hafa þegar lánað sjóðfélögum sínum 70,3 milljarða króna á fyrstu tíu mánuðum ársins og ef sama þróun heldur áfram á síðustu tveimur mánuðum ársins munu heildar útlán þeirra til heimila verða nálægt 85 milljörðum króna á árinu öllu. Það er fjórum sinnum meira en þeir 21,6 milljarðar króna sem sjóðirnir lánuðu til heimila á árinu 2015.

Umrædd lán eru nær einvörðungu lán til íbúðarkaupa. Hlutdeild lífeyrissjóða á þeim markaði hefur aukist verulega eftir að nokkrir stórir sjóðir hófu að bjóða allt að 75 prósent íbúðalán, betri vaxtakjör en bankarnir, óverðtryggð lán og lægri lántökugjöld á síðari hluta ársins 2015. Á fyrstu tíu mánuðum ársins lánuðu lífeyrissjóðirnir hærri upphæð til heimila landsins en bankar gerðu. Allt árið í fyrra lánuðu þeir einungis um fjórðung af því sem bankar lánuðu heimilum landsins, þegar búið er að draga frá uppgreiðslum og bílalán.

Hjá lífeyrissjóðunum er þróunin svipuð og hjá bönkunum. Þ.e. lántakendur eru mun frekar að taka verðtryggð lán en óverðtryggð. Alls voru 53,9 milljarðar króna af þeim 70,3 milljörðum króna sem sjóðirnir lánuðu til húsnæðiskaupa á fyrstu tíu mánuðum ársins verðtryggð lán. Það þýðir að 77 prósent lánanna eru verðtryggð.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar