Um síðustu mánaðarmót réðst embætti héraðssaksóknara í húsleitir á Siglufirði vegna efnahagsbrotarannsóknar sem tengist starfsemi AFLs sparisjóðs. Alls var leitað á sex stöðum og tveir voru handteknir. Annar var fyrrverandi sparisjóðsstjóri sjóðsins. Yfirheyrslur vegna rannsóknarinnar fóru fram bæði á Siglufirði og Reykjavík og alls stóðu aðgerðirnar yfir í tvo daga.
Heimildir Kjarnans herma að hluti rannsóknar héraðssaksóknara snúist um samskipti sparisjóðsins við smálánafyrirtækið Kredia og tengd félög. Auk þess snýr rannsóknin að fyrirtækinu Remote og samskiptum þess við ofangreind félög og sparisjóðinn. Það félag var stofnað í nóvember 2010. Á árinu 2014 var Ólafur Jónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri AFLs, skráður framkvæmdastjóri þess og eini stjórnarmaður. Ólafur sagði sig úr stjórn félagsins og afsalaði sér prókúru í júní 2016.
Fjármálafyrirtæki á fallanda fæti
AFL sparisjóður varð til með sameiningu Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar, sem var þá elsta starfandi peningastofnun landsins.
Arion banki tók yfir AFL sparisjóð sumarið 2015 í kjölfar þess að mat á lánasafni sjóðsins hafði leitt í ljós að staða hans væri mun verri en fram hefði komið í ársreikningum. AFL hafi þurft á verulegu eiginfjárframlagi að halda til að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall og sparisjóðurinn var flokkaður sem fjármálafyrirtæki á fallanda fæti.
Í ársreikningi Arion banka fyrir 2015 var færð varúðarniðurfærsla á lánum bankans til AFLs. Ekki var almenn ánægja með yfirtöku Arion banka á sjóðnum og skrifaði Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði sem hefur lagt mikla fjármuni í uppbyggingu í bænum á undanförnum árum, harðorðan pistil á vefinn siglo.is í kjölfarið. Þar kallaði hann meðal annars bankastjóra Arion banka síbrotamann, stjórnanda fyrirtækjasviðs „Quisling“ og stjórnarmenn bankans útbrunna.
Handtökur vegna gruns um fjárdrátt
Í lok september 2015 komst AFL sparisjóður aftur í fréttir. Þá voru tveir handteknir á Siglufirði grunaðir um fjárdrátt. Annar þeirra var Magnús Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri sjóðsins og forseti bæjarstjórnar í Fjallabyggð. Við rannsókn þess máls komu upp fleiri fletir sem embætti héraðsaksóknara fannst nauðsynlegt að rannsaka.
Ráðist var í húsleitir á Siglufirði vegna rannsóknarinnar í byrjun desember síðastliðins. Alls var leitað á sex stöðum í bænum og tveir handteknir. Annar þeirra er Ólafur Jónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri. Þá fóru fram yfirheyrslur vegna málsins á Siglufirði og í Reykjavík. Alls stóðu aðgerðirnar yfir í um tvo sólarhringa.
Samkvæmt heimildum Kjarnans snýst sá leggur sem verið er að rannsaka meðal annars um tengsl og viðskipti sparisjóðsins við smálalánafyrirtækið Kredia og tengd félög. Kredia ehf. færði lögheimili sitt á Suðurgötu 10 á Siglufirði í ágúst síðastliðnum. Smálán ehf. eru líka skráð þar til heimilis. Bæði félögin eru í eigu Mario Magela, fjárfestis frá Slóvakíu, sem keypti bæði félögin af Leifi Alexander Haraldssyni í desember 2013. Hvorugt félagið hefur skilað ársreikningi frá árinu 2013 og því ekki til opinber gögn um hvernig rekstur þeirra hefur gengið síðan þá.
Fyrirtækið Remote er einnig skráð til heimilis á þessu heimilisfangi. Tilgangur þess félags er meðal annars fjarvinnsla, rekstur þjónustuvera, innheimta og skyld starfsemi, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Remote gerði meðal annars tilboð í launavinnslu fyrir sveitarfélagið Fjallabyggð sumarið 2015, samkvæmt fundargerðum þess.
Eigandi hluta hússins að Suðurgötu 10 var AFL sparisjóður en er nú Arion banki.
Tvær blokkir
Smálán hófu innreið sína á Íslandi eftir hrun. Starfsemi þeirra fyrirtækja sem stunda slíkt hefur alla tíð verið afar umdeild, enda snýst hún um að lána út litlar fjárhæðir á mjög háum vöxtum. Þeir hópar sem hafa verið líklegastir til að taka slík lán eru þeir sem eru lægst settir í íslensku samfélagi.
Tvær blokkir hafa ráðið yfir íslenska smálánamarkaðnum. Önnur samanstendur af félaginu Neytendalán ehf., sem var stofnað árið 2013 og varð síðar hattur yfir Hraðpeninga, 1909 og Múla. Sú blokk var lengi skráð í eigu kýpverska skúffufélagsins Jumdon Finance. Nú er hún skráð í eigu Óskars Þorgils Stefánssonar. Hraðpeningar, elsta félagið, hefur ekki skilað ársreikningi frá árinu 2011. Það var úrskurðað gjaldþrota í nóvember, en heimasíða þess er þó enn starfrækt og þar virðist lánastarfsemi enn eiga sér stað. Múla og 1909 eru enn starfandi, en skiluðu síðast ársreikningi fyrir árið 2014.
Hin blokkinn rak tvö smálánafyrirtæki, Kredia og Smálán. Það var lengi vel í eigu félags sem heitir DCG ehf., en Kjarninn greindi frá því síðla árs 2014 að Mario Mangela, fjárfestir frá Slóvakíu, væri þá orðin eini skráði eigandi fyrirtækjanna tveggja. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans keypti Magela félögin af Leifi Alexander Haraldssyni í desember 2013. Smálán, sem var tekið til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum, var þó enn skráð í eigu DCG hjá fyrirtækjaskrá. Hvorki Kredia né Smálán hafa skilað ársreikningum frá árinu 2013. Báðar síðurnar eru þó enn uppi og bjóða upp á smálán.
Smálánarekstri skeytt saman við bókakaup
Form smálána hefur þó þurft að taka breytingum. Reynt hefur verið að koma böndum á starfsemina, sem þykir samfélagslega skaðleg, með breytingum á lögum um neytendalán og með ítrekuðum úrskurðum um að smálánafyrirtækin séu að brjóta á þeim lögum.
Til að komast hjá þessum breytingum hófu smálánafyrirtækin að bjóða væntanlegum lántökum upp á að kaupa rafbækur. Hjá Kredia og Smálánum var t.d. hægt að kaupa tvær rafbækur á 5.500 krónur og eftir að þær höfðu verið keyptar var hægt að fá 20 þúsund krónur í smálán til 30 daga á skaplegum vöxtum. En 5.500 krónurnar sem greiddar voru fyrir rafbækurnar eru augljóslega okurvextirnir sem reynt hefur verið að koma í veg fyrir að fyrirtækin bjóði upp á. Upphæðin sem fyrirtækin bjóða í afslátt ef keyptar eru tvær bækur er nákvæmlega sú sama og áður var rukkað í svokallað flýtigjald, sem hefur verið úrskurðað ólöglegt.
Hagnaður smálánafyrirtækja gekk glimrandi vel, að minnsta kosti framan af. Þau skiluðu tug milljóna króna hagnaði á ári. Ómögulegt er að sjá hvernig rekstur þeirra gekk á undanförnum árum í ljósi þess að þau skila ekki ársreikningum í samræmi við lög.