Sumir hafa list árinu 2016 sem “annus horribilis” (hræðilegu ári) í tónlistarheiminum vegna þeirra dauðsfalla sem hafa átt sér stað. Hér er ekki aðeins um vinsæla tónlistarmenn að ræða heldur stórmerkilega listamenn sem hafa mótað samtíma sinn og jafnvel haft áhrif langt út fyrir heim tónlistarinnar. Sem betur fer eru fáir þeirra í yngri kantinum en flestir þeirra voru virkir í sköpun alveg fram undir það seinasta. Hér eru stærstu nöfnin sem kvöddu okkur á árinu.
Þrjár risastjörnur létust á árinu.
David Bowie
Þann 8. janúar kom Blackstar, 26. stúdíóplata David Bowie, út á 69. afmælisdegi hans. Platan þótti meistaraverk og ein af hans allra bestu á löngum og farsælum ferli. Einungis tveimur dögum seinna var það tilkynnt að Bowie væri allur. Banamein hans var krabbamein í lifur og það kom eins og þruma úr heiðskýru lofti fyrir aðdáendur hans sem vissu ekkert af veikindunum. Bowie hafði þó vitað þetta síðan um mitt ár 2014 en ákveðið að halda þessu frá almenningi og meira að segja nánum vinum og samstarfsmönnum sínum. Margir sem unnu að Blackstar með honum vissu heldur ekki af veikindunum. Bowie hafði misst allt hárið í lyfjameðferð en hann bar sigþað vel að fólk áttaði sig ekki á alvarleika málsins. Blackstar var einungis önnur platan sem hann gaf út eftir að hann fékk hjartaáfall árið 2004.
Eftir áfallið hélt hann sig að miklu leyti til hlés og spilaði sjaldan á tónleikum. Hann lifði mun rólegra lífi og einbeitti sér frekar að fjölskyldunni. Engu að síður var hann ennþá listamaður sem skipti máli og fólk tók eftir nýju efni frá honum. Bowie fer í sögubækurnar sem eitt af stóru nöfnunum í tónlistarsögunni. Hann fylgdi tíðarandanum eins og kamelljón en var engu að síður öðruvísi en allir aðrir. Hann bjó til persónur á borð við Ziggy Stardust og The Thin White Duke sem eru jafn lifandi í okkar hugum og margar af þekktustu persónum bókmenntanna. Tónlistin er ekki eina greinin sem missti því að Bowie markaði spor í öðrum greinum listanna, s.s. myndlist, kvikmyndum, leikhúsi, tísku o.fl.
Prince
Prince Rogers Nelson, betur þekktur sem Prince og stundum O(+>, fannst látinn í lyftu á heimili sínu þann 21. apríl, 57 ára gamall. Heimili hans, Paisley Park, var einnig upptökuverið þar sem margar af hans þekktustu plötum voru teknar upp og tónleikastaður, staðsett í bænum Chanhassen í útjaðri Minneapolis borgar í Minnesota fylki. Seinna var það opinberað að ofneysla fentanýls, sem er morfínskylt lyf, hefði dregið hann til dauða. Prince hafði verið háður sterkum verkjalyfjum lengi, jafnvel um áratuga skeið, en fíknin versnaði til muna eftir aðgerð á mjöðm árið 2008. Undir það síðasta var hann farinn að ganga við staf og tók allt að 80 pillur af verkjalyfjum á dag. Hann vissi þó sjálfur að ástandið stefndi í óefni og hafði samband við lækni til að hjálpa sér að komast yfir fíknina. En það var of seint því daginn sem hann átti að fara í rannsókn lést hann. Dauði Prince kom fólki í opna skjöldu en kveikti jafnframt á umræðunni um læknadóp. Talið er að meira en 150.000 Bandaríkjamenn hafi dáið vegna ofneyslu löglegra morfínskyldra lyfja frá aldamótum og því um eiginlegan faraldur að ræða. Eftir dauða Prince hafa þingmenn keppst við að lýsa því yfir að löggjöfina þurfi að laga til að takast á við þennan vanda, t.d. með meðferðarúrræðum og betri lyfjum.
Dauðsfallið kom aðdáendum Prince nokkuð í opna skjöldu. Fæstir vissu að um alvarlegt vandamál væri að ræða enda notaði hann lyfin ekki sem afþreyingu heldur við kvölum. Prince var afkastamikill tónlistarmaður allt undir það síðasta, bæði í útgáfu og í tónleikahaldi. Vinsældir hans voru þó ekki þær sömu og þær voru á níunda og tíunda áratugnum þegar hann var ein af stærstu poppstjörnum heims. Prince verður minnst sem eins hæfileikaríkasta og fjölhæfasta tónlistarmanns sögunnar. Hann gat spilað óaðfinnanelga á nánast hvaða hljóðfæri sem var, hann hafði ótrúlega breitt raddsvið, hann atti saman flestum tegundum tónlistar, og hann skilaði því best af sér á sviðinu.
Leonard Cohen
Andlát hins 82 ára Leonard Cohen kom fólki ekki í opna skjöldu en það var engu að síður harmdauði. Cohen lést þann 7. nóvember á heimili sínu í Los Angeles. Hann hafði þjáðst af krabbameini en talið er að hann hafði látist eftir fall í svefni. Þrátt fyrir það að vera kominn á níræðisaldur og þjáður af veikindum var hann enn virkur í tónlist. Einungis rúmum tveimur vikum áður kom út hans 14. Stúdíóplata, You Want It Darker, sem seldist vel og fékk mikið lof gagnrýnenda. Cohen hefur væntanlega vitað að hún yrði hans síðasta og það skín í gegn í textunum. Hann virðist þó hafa verið nokkuð sáttur við ævistarf sitt og tilbúinn að deyja því að þeir eru lausir við angist og ótta. Hann hafði heldur ekki tapað húmornum og lífsgleðinni. Í viðtali við tímaritið The New Yorker skömmu áður sagði hann:
Ég er tilbúinn að deyja. Ég vona að það verði ekki of óþægilegt. Þetta er komið hjá mér.
Eftir að kunngjört var að Cohen væri allur setti tónlistarheimurinn upp sorgarband. Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada, heimalands Cohen, vottaði honum virðingu sína og fullyrti að heimurinn myndi sakna hans. Cohen verður fyrst og fremst minnst sem lagahöfundar og textasmiðs enda kom hann úr heimi bókmennta og ljóðlistar. Honum hefur margoft verið líkt við Nóbelskáldið Bob Dylan í því samhengi. Cohen sagðist sjálfur aldrei hafa elt tískustraumanna í tónlistinni heldur hefði umheimurinn annars lagið fallið að hans stefnu. Þá á hann við sín helstu vinsældarskeið á árunum í kringum 1970 og svo aftur um miðjan níunda áratuginn.
Fleiri merkilegir tónlistarmenn kvöddu.
George Michael
Mannréttindafrömuðurinn og poppsöngvarinn George Michael lést á jóladag ársins 2016, 53 ára að aldri. Hjartagalli var banamein hans og kom andlát hans mörgum, þá sérstaklega aðdáendum hans, á óvart. Fjöldi fólks lagði leið sína að heimili Michael á jóladag til þess að votta söngvaranum virðingu sína.
George Michael var einn af stofnendum popphljómsveitarinnar Wham! á níunda áratug síðustu aldar sem gerði mörg lög vinsæl. Eftir að sóloverkefni Michael fóru að taka meiri og meiri tíma hætti Wham! og hann snéri sér alfarið að eigin verkefnum.
Michael var samkynhneigður og lagði mikið til mannréttindabaráttu samkynheigðra á sinni lífsleið. Michael viðurkenndi ekki kynheigð sína að fullu fyrr en árið 1998 þegar hann var 34 ára og hafði verið handtekinn fyrir það sem kallað var „ósæmilegt athæfi“ á klósetti í Los Angeles. Hann sagði síðar að hann hefði eflaust orðið hamingjusamari maður ef hann hafði getað opinberað kynheigð sína þegar hann var 19 ára; þegar hann kom út úr skápnum gagnvart vinum sínum.
(Greinin birtist fyrst 16. desember síðastliðinn. George Michael var bætt við í umfjöllunina af Ritstjórn Kjarnans)
Keith Emerson og Greg Lake
Tveir af meðlimum bresku hljómsveitinnar ELP (Emerson, Lake & Palmer) létust á árinu. ELP var ein af vinsælustu og áhrifamestu rokkhljómsveitum áttunda áratugarins. Á níunda áratugnum fóru þeir allir í mismunandi áttir en komu svo stuttlega aftur saman í byrjun tíunda áratugsins. ELP-liðar voru nokkuð frábrugðnir öðrum tónlistarmönnum á sínum tíma. Þeir skeyttu saman ýmsum tónlistarstefnum og voru fremur undir áhrifum klassískrar tónlistar en rokks og blús. Hljómborðsleikur Emerson var hornsteinninn í tónlistinni en ekki gítarleikurinn. Lögin voru löng og mikill tími fór í að sýna fram á yfirburða færni þeirra sem hljóðfæraleikara. En þeir voru svo heppnir að áttundi áratugurinn var einmitt það skeið í tónlistarsögunni þar sem tónlist á borð við þeirra gat notið svo mikilla vinsælda.
Keith Emerson (71) framdi sjálfsvíg með byssu þann 11. mars á heimili sínu í Santa Monica í Kaliforníu. Hann hafði verið þunglyndur lengi og átt við áfengisvandamál að stríða.
Gítarleikarinn Greg Lake (69) lést 7. desember í Lundúnum úr krabbameini. Lake hafði barist við sjúkdóminn í langan tíma.
Merle Haggard
Country-goðsögnin og harðjaxlinn Merle Haggard féll frá þann 6. apríl á heimili sínu í Palo Cedro í Kaliforníu. Haggard var 79 ára gamall og hafði verið heilsuveill lengi. Árið 2008 greindist hann með lungnakrabbamein og undirgekkst stóra aðgerð. Hann hélt þó áfram að taka upp plötur og spila á tónleikum eftir það. Það sem dróg hann loks til dauða var lungnabólga. Haggard var síbrotamaður á unga aldri og sat lengi inni en sló í gegn í country-tónlist um miðjan sjöunda áratuginn. Hann spilaði country af gamla skólanum, laust við allt glys og glamúr, og höfðaði mikið til verkamannastéttarinnar. Hann söng mikið um föðurland sitt og íhaldssöm gildi og varð fyrir vikið andstæðingur hippanna.
Þetta fleytti honum áfram og hann náði mörgum lögum inn á vinsældalista. Þekktasta lagið var Okie from Muskogee sem íslenska hljómsveitin Ðe lónlí blú bojs flutti sem Það blanda allir landa upp til stranda. Á seinni árum settist hann á bekk með Johnny Cash, Willie Nelson og fleirum í hinni svokölluðu útlagahreyfingu sem hafnaði aðgengilegri country-tónlist samtímans en leit fremur aftur til fortíðar. Haggard var manna háværastur í þeim hópi. En pirringurinn og tuðið var ekki endurgoldið því að innan country-geirans er hann almennt talinn einn af fremstu tónskáldum og flytjendum frá upphafi.
Leon Russell
Þann 13. nóvember lést hinn 74 ára Leon Russell á heimili sínu í Mt. Juliet í Tennessee. Hann lést í svefni eftir mikil hjartaveikindi og erfiðleika eftir skurðaðgerð. Hinn litríki Russel náði nokkrum vinsældum á áttunda áratugnum sem sólólistamaður en áhrif hans á aðra tónlistarmenn voru alltaf langt um meiri. Russell spilaði á hljómborð og píanó með hljómsveitinni The Wrecking Crew á sjöunda áratugnum. Það var samansafn afburðafærra tónlistarmanna sem spiluðu inn á plötur fyrir aðra. Hljómsveitin spilaði inn á ótal þekktar plötur, t.d. fyrir The Rolling Stones, The Beach Boys, The Byrds, Frank og Nancy Sinatra, Ike og Tinu Turner, Sonny og Cher og ótal marga aðra. Með hljómsveitinni lærði hann að spila nánast hvaða gerð af tónlist sem var, allt frá gospel til brimbrettarokks. Eftir að hljómsveitin hætti og Russell fór að semja eigið efni þá hélt hann áfram að semja fyrir og vinna með öðrum. Hann samdi lög fyrir og vann náið með B.B. King, Tom Jones, The Carpenters, Joe Cocker, Bob Dylan og Elton John. Allir sem unnu með honum báru honum góða söguna og töldu hann hafa haft mikil áhrif á feril sinn. Russell fer í bækurnar sem ein óeigingjarnasta stjarna sögunnar.
Stór nöfn úr tónlistariðnaðinum kvöddu einnig.
Upptökustjórinn George Martin lést friðsamlega í svefni á heimili sínu í Englandi, níræður að aldri, þann 8. mars. Martin var oft kallaður “fimmti bítillinn” enda framleiddi hann allar Bítlaplöturnar nema þá síðustu, Let It Be. Hann hjálpaði og leiðbeindi Bítlunum í gegnum allan ferilinn og hafði mikil áhrif á útsetningar laga þeirra, t.d. Yesterday og Eleanor Rigby. Hann spilaði einnig sjálfur á píanó í nokkrum lögum. Martin vann með fjölmörgum öðrum listamönnum og útsetti t.d. tónlistina fyrir fyrstu James Bond kvikmyndirnar en nafn hans verður ávallt nefnt í sömu andrá og Bítlanna.
Hinn 2. september lést umboðsmaðurinn Jerry Heller úr hjartaáfalli í Los Angeles. Heller, sem var 75 ára, var einn af helstu áhrifamönnum í uppgangi rapptónlistar á níunda og tíunda áratugnum. Hann stofnaði útgáfufyrirtækið Ruthless Records árið 1987 ásamt Eazy-E, forsprakka hljómsveitarinnar N.W.A., og saman seldu þeir yfir 100 milljónir platna. Hann var umdeildur en eitt er víst, þ.e. að bófarapp hefði ekki verið samt án Jerry Heller.
Útgefandinn Phil Chess lést þann 18. október á heimili sínu í Tuczon í Arizóna fylki, 95 ára að aldri. Phil og Leonard bróðir hans (sem lést árið 1969) ráku saman djassklúbba á fjórða og fimmta áratugnum í Chicago. Árið 1947 keyptu þeir útgáfufyrirtæki sem þeir endurnefndu Chess Records og einbeittu sér að blús og r&b tónlist. Útgáfan varð ákaflega mikilvæg fyrir tónlistargreinina í 20 ár og mætti segja að hún hafi verið eins konar stofnun í sjálfu sér. Listamenn á borð við Chuck Berry, Muddy Waters, Etta James, Johnny Lee Hooker og The Rolling Stones tóku upp í hljóðveri Chess bræðra.