Sala á neftóbaki hefur margfaldast á undanförnum árum og ÁTVR gerir ráð fyrir því að yfir 40 tonn af neftóbaki verði seld á árinu sem er að líða. Þetta kemur fram í umsögn fyrirtækisins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár.
ÁTVR vill að ríkið hækki tóbaksgjald á neftóbak og annað tóbak um 55,2-69%. Tilgangurinn væri að samræma tóbaksgjald, en í núgildandi lögum sé það svo að neftóbak og annað tóbak beri talsvert lægra tóbaksgjald en sígarettur og vindlingar. Það hafi verið umtalsvert misræmi í gjaldtöku eftir tóbakstegundum allt frá því að tóbaksgjaldið var tekið upp árið 2001.
Aldrei hefur eins mikið selst af neftóbaki og í fyrra, þegar 36,1 tonn af tóbakinu voru seld. Nú verður það met slegið á nýjan leik, því gert er ráð fyrir að 40,1 tonn seljist á þessu ári. Neftóbakssalan er arðbær og ÁTVR fékk 748 milljónir í kassann án virðisaukaskatts í fyrra. Tekjurnar af sölunni hafa aukist verulega, en þær jukust um 30% á tveimur árum til ársins 2016.
Árið 2000 seldust ríflega 10 tonn af neftóbaki, en síðan þá hefur salan aukist jafnt og þétt. Eina undantekningin er að salan minnkaði árin 2012 og 2013 áður en hún jókst á ný. ÁTVR segir að salan hafi dregist lítillega saman þessi ár eftir að tóbaksgjald á neftóbak var tvöfaldað. Salan fór niður í 27,6 tonn árið 2013 en hefur svo aukist mikið á ný. Í fyrra voru 36,1 tonn seld af tóbakinu og í ár er sem fyrr segir gert ráð fyrir að salan fari yfir 40 tonn.
Í umsögn frá Ívari J. Arndal, forstjóra ÁTVR, kemur fram að kannanir sýni að það tóbak sem selt er og markaðssett sem neftóbak á Íslandi er í yfirgnæfandi meirihluta tilvika tekið í munn og notendur þess séu að stórum hluta ungt fólk og nýir tóbaksneytendur. „Rétt er að benda á að ÁTVR treystir sér ekki lengur til þess að greina á milli munntóbaks og neftóbaks og hefur leitað leiðbeininga hjá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig skuli greina á milli neftóbaks og munntóbaks. Önnur varan er lögleg á Íslandi, hin ólögleg.“
Einokun lengi
Árið 1996 var fínkornað munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi. Það þýðir að neftóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett. Samhliða hefur neysla á munntóbaki aukist töluvert og þeir sem neyta þess kaupa annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði, þar sem er mikið framboð, eða nota neftóbakið sem ÁTVR framleiðir, hinn svokallaða „Rudda“, sem munntóbak. Þessi aukna neysla hefur skilað auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munar, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar. Tóbaksgjald á neftóbak hækkaði til að mynda um 100 prósent 1. janúar 2013. Gera má ráð fyrir tekjuaukningu ef tóbaksgjaldið verður hækkað enn frekar.
Siðferðisleg spurning hvenær neftóbak er munntóbak
Í inngangi ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2014, fjallaði Ívar einnig um áhyggjur sínar af aukinni neftóbaksneyslu. Þar sagði Ívar: „Kannanir sýna að neyslan á neftóbaki hefur færst í munn og nú er svo komið að yfirgnæfandi hluti neftóbaksins er notaður í munn. Nýir notendur eru helst ungir karlmenn. Samkvæmt lögum er sala munntóbaks ólögleg á Íslandi. Það er siðferðileg spurning hvenær íslenska neftóbakið, sem búið er að framleiða eftir sömu uppskrift frá því fyrir stríð, er raunverulega orðið að munntóbaki og þar með ólöglegt. Í dag er íslenska neftóbakið sem ÁTVR framleiðir eina reyklausa tóbakið á markaðinum. Engin formleg skilgreining er til á því hvaða eðlisþættir það eru sem greina á milli neftóbaks og munntóbaks. ÁTVR hefur vakið athygli heilbrigðisyfirvalda á málinu en ljóst er að neysluaukningin á neftóbakinu er slæm og nauðsynlegt að sporna við þróuninni.“