Fjárlaganefnd Alþingis sammæltist öll um að setja tólf milljarða króna til viðbótar inn í fjárlagafrumvarpið á milli fyrstu og annarrar umræðu í þinginu. Stærsti hlutinn fer í samgöngumál og heilbrigðismál, en ríflega 4,5 milljarðar króna verða settir í samgöngumál og tæplega 4,5 milljarðar í heilbrigðismál.
Einn milljarður króna til viðbótar fer inn í háskólana, og 400 milljónir til framhaldsskóla. 400 milljónir fara í löggæslumál og 100 milljónir í landhelgismál.
Öll fjárlaganefnd sammæltist um tillögurnar, en fyrirkomulagið er með þeim hætti að þingmenn starfandi ríkisstjórnarflokka, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, greiða atkvæði með frumvarpinu, en þingmenn annarra flokka munu sitja hjá og þannig greiða leið frumvarpsins í gegnum þingið.
Sammála um fjögur meginatriði
Í ljósi þess hversu seint afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins er á ferðinni var ákveðið að fjárlaganefnd myndi ekki eiga eins marga fundi og áður, hún ákvað til dæmis að funda ekki með fulltrúum einstakra sveitarfélaga og takmarkaði mjög fundi með stofnunum. Aðeins fulltrúar frá Landspítalanum og Vegagerðinni komu á fund nefndarinnar ásamt fulltrúum frá ráðuneytum.
„Þrátt fyrir stuttan tíma hefur tekist ágætur samhljómur um megináherslur í umfjöllun, greiningu og tillögugerð. Samkomulag var milli nefndarmanna um að fjalla einkum um fjögur málefnasvið í vinnunni,“ segir í áliti fulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Málamiðlunin fólst í því að fara einkum í samgöngur, heilbrigðis- og menntamál og löggæslu.
Í heilbrigðismálum fara tveir milljarðar króna til viðbótar til Landspítalans, en helmingur þess er ætlaður til að styrkja rekstrargrunn spítalans og til að mæta útskriftarvanda. Hinn helmingurinn fer í að mæta viðbótarþörfum vegna endurbóta og viðhalds á húsnæði. 100 milljónir fara í göngudeildarþjónustu og rekstur á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
1,2 milljarður fer í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og 700 milljónir fara í hjúkrunar- og dvalarrými. Í samgöngumálunum er lögð áhersla á að ekki þurfi að seinka smíði á nýjum Herjólfi eða gerð Dýrafjarðarganga. Þá mun Vegagerðin fá aukið fjármagn til viðhaldsverkefna. Háskólarnir fá samtals rúman milljarð í tímabundið framlag. Markmiðið er að gera háskólunum kleift að endurnýja ýmsan búnað og tæki fyrir 408 milljónir króna, sem hefur setið á hakanum undanfarin ár. 400 milljónum er ætlað að styrkja rekstrargrunn skólanna til að vega á móti rekstrarhalla, og er í því sérstaklega horft til Listaháskóla Íslands. Þá á Háskóli Íslands að fá 100 milljóna framlag í Aldarafmælissjóð, og Landbúnaðarháskólinn fær 70 milljónir til viðhalds á húsnæði sínu á Reykjum.
Allir samstíga en sex minnihlutaálit
Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, var mjög ánægður með vinnuna í nefndinni þegar hann mælti fyrir breytingartillögunni á þingi í dag. Hann sagði vinnuna hafa verið til mikillar fyrirmyndar. Í þingnefndinni hafi skapast mikið traust manna á milli, sem sé ákaflega dýrmætt. „Við þessar aðstæður þá held ég að þingið hafi sýnt sína bestu hlið og sýnt að það er líka hægt að vinna með þessum hætti.“
Þar sem enginn meirihluti er í nefndinni frekar en í þinginu eru öll álit minnihlutaálit. Haraldur og aðrir fulltrúar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks standa saman að fyrsta minnihluta, Guðlaugur Þór Þórðarson og Unnur Brá Konráðsdóttir frá Sjálfstæðisflokki og Silja Dögg Gunnarsdóttir frá Framsókn. Fulltrúar annarra flokka standa allir einir að sínum minnihlutaálitum. Theodóra S. Þorsteinsdóttir frá Bjartri framtíð, Þorsteinn Víglundsson frá Viðreisn, Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingu, Björn Leví Gunnarsson frá Pírötum og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir frá VG skipuðu annan til sjötta minnihluta í nefndinni. Það mun vera einsdæmi að svona mörg minnihlutaálit séu lögð fram í fjárlagavinnu.
Umræður um fjárlagafrumvarpið og breytingartillögurnar standa nú yfir í þinginu og munu væntanlega gera næstu klukkustundirnar. Þegar því er lokið fer frumvarpið aftur í nefnd fyrir þriðju umræðu.
Ekkert samstarf um bandorminn
Sams konar samkomulag og gert var í fjárlaganefnd var ekki gert í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, sem hefur fjallað um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins, svokallaðan bandorm. Þannig lögðu Vinstri græn fram ýmsar breytingartillögur við það frumvarp, líkt og Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins greindi frá í gærkvöldi. „Þar munu þingmenn geta greitt atkvæði um auðlegðarskatt þar sem íbúðarhúsnæði til eigin nota er þó undanskilið, hærri fjármagnstekjuskatt á fjármagnstekjur (ekki launatekjur) yfir tveimur milljónum á ári, að gosdrykkir með sykri og sætuefnum færist í efra þrep virðisaukaskattkerfisins, hærra skattþrep á tekjur yfir tveimur milljónum á mánuði (sem er talsvert langt yfir meðaltekjum), kolefnisgjald hækki um 10% í stað 5% og að tekin verði upp komugjöld á flugfarseðla. Ennfremur að tekju- og eignamiðvið barna- og vaxtabóta verði hækkuð um 35% í stað 12,5%.“ Þessar tillögur náðu ekki fram að ganga við atkvæðagreiðslur fyrr í dag. Frumvarpið kemur til þriðju og síðustu umræðu þegar annarri umræðu um fjárlögin lýkur.