Skipasmíðastöðin Havyard Ship Technology hefur rift samningi við íslenska félagið Fáfni Offshore um smíði á nýju fimm milljarða króna skipi þess. Áður hafði afhendingu skipsins verið frestað tvívegis, síðast til apríl 2019. Nú greinir norski vefurinn Maritime frá því að samningum við Havyards við Fáfni Offshore hafi verið rift og að skipasmíðastöðin muni krefjast bóta fyrir það tap sem hún telur sig hafa orðið fyrir vegna málsins. Havyard mun einnig krefjast þess að skipið, sem er ekki fullbúið, verði selt upp í skuldir.
Skipið sem um ræðir, Fáfnir Viking, er í eigu Polar Maritime ehf., dótturfélags Fáfnis Offshore. Fáfni hefur ekki tekist að tryggja skipinu, sem átti að nýtast við þjónustu við olíuiðnaðinn í Norðursjó, nein verkefni og þar með hefur ekki fengist lánsfjármögnun til að klára smíði þess. Fáfnir Offshore tapaði tveimur milljörðum króna á árinu 2015 og virði helstu eignar þess, olíuþjónustuskipsins Polarsyssel, var færð niður um 785 milljónir króna á því ári vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Íslenskir bankar og lífeyrissjóðir hafa tapað háum fjárhæðum á fjárfestingu og lánum til Fáfnis Offshore.
Var sætasta stelpan á ballinu...árið 2014
Síðla árs 2014 var Fáfnir Offshore ein sætasta stelpan á fjárfestingarballinu. Íslenskir fjárfestar, aðallega lífeyrissjóðir í gegnum framtakssjóði, kepptust við að fjárfesta í fyrirtækinu fyrir milljarða króna. Það var „hiti“ í kringum fyrirtækið og menn létu það ekkert mikið á sig fá þótt heimsmarkaðsverð á olíu hefði hrunið úr um 115 dölum á tunnu sumarið 2014 í um 60 dali í janúar 2015. Hermann Þórisson, framkvæmdastjóri Horns II, talaði meira að segja um það í viðtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í þeim mánuði að Fáfnir væri „fyrirtæki sem mjög áhugavert væri að sjá fara á markað. Vissulega eru erfiðar markaðsaðstæður í olíugeiranum akkúrat í dag, en þær voru mjög góðar fyrir sex mánuðum.“ Hermann sagði að ef ytri aðstæður myndu batna þá gæti Fáfnir Offshore vel verið nógu stórt til að fara á markað.
Ári síðar var heimsmarkaðsverð á olíu komið niður í 26,7 dali á tunnu. Það er tæplega fjórðungur þess sem það var sumarið 2014. Þumalputtareglan er sú að til að olíuvinnsla á norðlægum slóðum borgi sig þurfi heimsmarkaðsverð á olíu að vera að minnsta kosti 60 dalir á tunnu. Tugir skipa sem gera út á sama markað og Fáfnir Offshore hefur verið lagt og fyrirtækin sem eiga þau glíma nú við mikinn rekstrarvanda. Þá hefur olíuborpöllum í Norðursjó fækkað mikið.
Verðið á olíu hefur hækkað umtalsvert að undanförnu og er nú um 55 dalir á tunnu. Það dugar hins vegar ekki til að kveikja aftur í olíuiðnaðinum í Norðursjó, sem Fáfnir Offshore er ætlað að þjónusta.
Skip sem kostaði yfir fimm milljarða
Fáfnir Offshore á skipið Polarsyssel, sem kostaði yfir fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar. Það skip var afhent haustið 2014 og er með þjónustusamning við sýsluembættið á Svalbarða til tíu ára um birgðaflutninga og öryggiseftirlit. Sá samningur gengur út á að sýslumannsembættið hefur skipið til umráða að lágmarki í 180 daga á ári, eða sex mánuði. Hina sex mánuði ársins stóð til að nota skipið í verkefni tengdum olíu- og gasiðnaðinum í Norðursjó.
Í október 2015 var gerður nýr samningur við sýslumannsembættið á Svalbarða. Hann átti að tryggja Polarsyssel verkefni í níu mánuði á ári og var síðan staðfestur í febrúar 2016. Þessi samningur er eina verkefni Fáfnis Offshore sem stendur og því gríðarlega mikilvægur.
Fáfnir Offshore var stórhuga verkefni og fyrirtækið ætlaði sér stóra hluti. Steingrímur Erlingsson, stofnandi fyrirtækisins, þykir mjög drífandi eldhugi og náði að sannfæra ansi marga á árinu 2014 um þau tækifæri sem biðu handan við hornið. Í nóvember 2014 var Steingrímur viðmælandi á fræðslufundi VÍB, sem er hluti af Íslandsbanka. Þar sagði hann meðal annars að Fáfnir Offshore stefndi að því að vera með 3-4 skip í rekstri á næstu árum.
Fundurinn var aðgengilegur á netinu í rúmt ár eftir að hann fór fram. Eftir að málefni Fáfnis Offshore komu aftur í umræðuna fyrir nokkrum vikum var hann hins vegar fjarlægður af netinu.
Afhending á seinna skipi Fáfnis tafðist og tafðist
Samhliða lækkandi olíuverði jókst vandi Fáfnis Offshore jafnt og þétt. Kjarninn greindi frá því í byrjun desember 2015 að afhending á Fáfni Viking, skipi í eigu Fáfnis Offshore, hafi verið frestað í annað sinn. Skipið átti að afhendast í mars 2016 en samkvæmt samkomulagi milli Fáfnis og norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard Ship Technologies AS var síðar ákveðið að afhending þess myndi frestast fram til júnímánaðar 2017. Í fyrrahaust var enn ákveðið að fresta afhendingu skipsins, nú til apríl 2019. Því samkomulagi fylgdi þó krafa um að gengið yrði frá fyrirframgreiðslu á hluta kaupverðsins í byrjun janúar 2017. Það gekk ekki eftir og því hefur Hayvard nú rift samningum við Fáfni Offshore, ætlar að sækja bætur og selja skipið, sem er að hluta byggt, upp í skuldir.
Steingrími Erlingssyni, stofnanda Fáfnis Offshore, var sagt upp störfum sem forstjóra fyrirtækisins fyrir rúmu ári. Heimildir Kjarnans herma að miklir samstarfserfiðleikar hafi verið milli stjórnar Fáfnis Offshore og Steingríms í aðdraganda uppsagnar hans.
Steingrímur, sem á enn 21 prósent hlut í fyrirtækinu samkvæmt fyrirtækjaskrá, stofnaði Fáfni Offshore árið 2012. Hann reyndi í janúar 2016 að kaupa hlut tveggja stærstu hluthafa Fáfnis Offshore, sjóðanna Akurs og Horns II, sem eru í eigu íslenskra lífeyrissjóða, banka og VÍS, fyrir brotabrot af því fé sem sjóðirnir hafa lagt í fyrirtækið. Samkvæmt fréttum DV um málið hafði Steingrímur tryggt sér fjármögnun hjá kanadíska fjármálafyrirtækinu Prospect Financial Group. Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, er starfsmaður Prospect Financial Group. Tilboði Steingríms var hafnað.
Íslenskir bankar tapa á íslensku olíuútrásinni
Íslenskir bankar veðjuðu umtalsverðum fjármunum á útrás í norska olíuiðnaðinn. bæði Arion banki og Íslandsbanki lánuðu samtals um 5,7 milljarða króna á árunum 2013 og 2014 til norska félagsins Havila Shipping ASA, sem er á leið í gjaldþrot.
Íslandsbanki hefur ekki viljað upplýsa um hvert ætlað tap bankans á lánum til Havila er. Í ársreikningi bankans, sem birtur var í febrúar 2016, kom fram að bankinn hefði bókað virðisrýrnun á stöðu sína á lánum til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Ljóst er að sú rýrnun snýr að annars vegar að lánum til Havila og hins vegar til Fáfnis Offshore, sem Íslandsbanki fjármagnaði. Í reikningnum kom fram að eitt prósent af útlánasafni bankans var til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Alls voru útlán til viðskiptavina 665,7 milljarðar króna um síðustu áramót og því námu lán til geirans tæpum sjö milljörðum króna.
Í ársreikningi Arion banka fyrir árið 2015 kom fram að bankinn hafði fært verulega varúðarniðurfærslu á lán til erlendra fyrirtækja í þjónustustarfsemi tengdri olíuleit, í kjölfar erfiðleika á þeim markaði, á síðasta ársfjórðungi ársins 2015. Ekki var tilgreint um hversu mikið lánið var fært niður en þar kom hins vegar fram að hrein virðisbreyting lána var 3,1 milljarður króna á árinu. Í afkomutilkynningu Arion banka sagði að niðurfærslurnar séu að mestu vegna lánsins til Havila og á lánum sem bankinn yfirtók frá AFL –sparisjóði á árinu 2015.
Samkvæmt ársreikningi voru lánin sem komu frá AFLi færð niður á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Um þriggja milljarða króna varúðarniðurfærsla var færð á efnahagsreikning bankans á fjórða ársfjórðungi. Sú niðurfærsla er því að mestu leyti vegna lánsins til Havila og ljóst að bankinn reiknar með miklum afföllum vegna þess.