Alls sátu 33 þingmenn hjá þegar fjáraukalög voru samþykkt á Alþingi 22. desember síðastliðinn. Þar á meðal voru allir fjórir þingmenn Bjartrar framtíðar og allir sjö þingmenn Viðreisnar. Auk þeirra greiddu þingmenn Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ekki atkvæði við afgreiðslu málsins. Enginn þingmaður greiddi atkvæði á móti frumvarpinu sem var samþykkt með 26 greiddum atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna. Því voru lögin samþykkt með stuðningi 41 prósent þingheims.
Í fjáraukalögum var meðal annars samþykkt að veita 100 milljónum króna úr ríkissjóði til að koma í veg fyrir verðlækkun á lambakjöti hérlendis. Þegar frumvarp um fjáraukalög var kynnt vakti viðbótargreiðslan töluverða athygli og var meðal annars harðlega gagnrýnd af formanni Neytendasamtakanna, Ólafi Arnarsyni. Hann sagðist gáttaður á málinu og sagði að stjórnvöld væru að verja peningum til að halda uppi verðlagi á Íslandi. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mótmælti því harðlega og sagði í samtali við RÚV að málið snerist „um það fyrst og fremst að bændur geti haldið áfram að framleiða lambakjöt og þá um leið bjóða neytendum sem Ólafur Arnarson er að vinna fyrir upp á ódýra, heilnæma og góða vöru og gott kjöt.“
Í Fréttatímanum sem kom út 22. desember er haft eftir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, sem situr í fjárlaganefnd og er þingmaður Vinstri grænna, að nefndin hefði óskað eftir minnisblaði frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um málið til að útskýra forsendur framlagsins. Það minnisblað skilaði sér ekki áður en fjáraukalög voru afgreidd.
Tveir stjórnmálaflokkar hafa sett kerfisbreytingar á landbúnaðarkerfinu á oddinn í sinni pólitísku stefnu, ásamt öðrum málum. Annar þeirra, Björt framtíð, kaus einn flokka gegn samþykkt búvörusamninga á síðasta kjörtímabili. Í kjölfar þess rauk fylgi flokksins upp, en það hafði mælst undir fimm prósentum um margra mánaða skeið. Allir fjórir þingmenn flokksins sátu hjá við afgreiðslu fjáraukalaga þegar atkvæði voru greidd um þau rétt fyrir klukkan 23 fimmtudaginn 22. desember.
Hinn flokkurinn sem hefur lagt mikla áherslu á kerfisbreytingar í landbúnaði er Viðreisn, sem nú er í fyrsta sinn með fulltrúa á Alþingi. Í málefnastefnu flokksins segir m.a. að landbúnaður ætti að lúta lögmálum almennrar samkeppni og stuðningi „við bændur á að breyta þannig að hann stuðli að aukinni hagræðingu, framleiðniaukningu og nýsköpun í greininni[...]Allri framleiðslu- og sölustýringu af hálfu ríkisvaldsins á að hætta en í staðinn verði veittir beinir styrkir til bænda í formi búsetu- og svæðisstyrkja.“
Þrátt fyrir þessa stefnu sátu allir sjö þingmenn flokksins hjá við afgreiðslu fjáraukalaga sem innihéldu 100 milljóna króna viðbótarframlag til markaðsátaks sem, samkvæmt frumvarpinu, var ætlað að koma í veg fyrir verðfall á verði lambakjöts til íslenskra neytenda. Hvorki fulltrúi Bjartrar framtíðar né Viðreisnar skilaði nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga. Það gerðu fulltrúar allra annarra flokka.
Björt sagði þetta stóran bita sem hún þyrfti að gleypa
Fáar ræður voru haldnar um fjáraukafrumvarpið á þingi. Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, var sú eina sem minntist á 100 milljóna króna framlagið til „Matvælalandsins Íslands“ þegar frumvarpinu var dreift. Það gerði hún í andsvari við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem lagði frumvarpið fram. Þar sagði hún útgjöldin ekki ófyrirseð og að það hafi alveg verið vitað að offramleiðsla lækki verði. „Fyrst er það þannig að skattgreiðendur greiða fyrir styrki til bænda til þess að framleiða kindakjöt og allt í góðu með það. Það eru á milli 5 og 6 milljarðar sem fara bara í sauðfjársamninginn að mig minnir. Svo er kerfið í kringum þetta svo galið að[...] bændur [fá] auðvitað ekkert fyrir þessar afurðir af því að offramleiðslan er svo mikil og þegar gengur svona illa eiga skattgreiðendur aftur að fara að borga til þess að reyna að koma þessu út og láta verðið ekki falla meira. Þetta er orðin svo mikil hringavitleysa og hefur verið í svo mörg ár.“
Í umræðu í þingsal sama dag og fjáraukalög voru afgreidd tók Björt aftur til máls. Þar sagði hún að í ljósi þess hve vel fjárlög hefðu unnist vildi hún halda til haga þeim skringilegu aðstæðum sem væru uppi, þar sem starfsstjórn væri að leggja þau fram. Í fjárlagavinnunni hefðu allir unnið að heilindum og allir gefið eftir þannig að enginn væri eiginlega sáttur við niðurstöðuna í báða enda. „Í því samhengi vil ég segja að ég mun ekki leggjast gegn þessari 100 milljóna króna aukningu til matvælalandsins út af þessu samkomulagi sem er í fjárlaganefnd af því að við erum að vinna þetta allt á annan hátt. Þetta er dálítið stór biti sem ég þarf þá dálítið að gleypa eins og aðrir gera með ýmsa aðra fjárlagaliði. Ég vildi að þetta kæmi fram í ræðu frá okkur.“
Enginn þingmaður Viðreisnar tók til máls þegar umræður um fjáraukalög fóru fram í þingsal.
Koma í veg fyrir verðfellingu á kjöti á innlendum markaði
100 milljón króna viðbótarframlagið fór til „Matvælalandsins Íslands“, verkefnis sem er ætlað að „treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar.“
Ástæða viðbótarframlagsins, sem var lagt til af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, var sú að gera verkefninu kleift að standa fyrir sérstöku markaðsátaki á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar innanlands. Í frumvarpi til fjáraukalaga sagði: „Mikill taprekstur er á sölu sauðfjárafurða og þrátt fyrir lækkun á verði sláturleyfishafa til bænda fyrir sauðfjárafurðir er frekari aðgerða þörf. Markaðsráð kindakjöts, sem er samstarfsvettvangur bænda og sláturleyfishafa, hefur unnið markvisst að því að finna nýja markaði erlendis, en ljóst er að afsetja þarf um 800 til 1.000 tonn til að koma í veg fyrir uppnám og almenna verðfellingu á kjöti á innlendum markaði seinnipart vetrar og/eða næsta haust.“
Engar breytingartillögur gegn þessum styrk voru lagðar fram við vinnslu málsins í nefndum þingsins og ekkert er minnst á hann í þeim nefndarálitum sem skilað var inn þegar málið var afgreitt úr fjárlaganefnd. Samkvæmt fundargerðum fjárlaganefndar voru fjáraukalög einungis einu sinni rædd formlega á fundum hennar. Þá komu starfsmenn fjármála- og efnahagsráðneytisins á fund þeirra, kynntu frumvarpið og svöruðu spurningum. Svo virðist sem að rúmlega þrír klukkutímar hafi farið í að ræða frumvarpið í nefndinni.
Framleiðslan þegar niðurgreidd um fimm milljarða
Sauðfjárrækt nýtur nú þegar umtalsverðs stuðnings úr ríkissjóði. Á fjárlögum ársins 2017 er gert ráð fyrir að niðurgreiðsla á sauðfjárframleiðslu nemi tæpum fimm milljörðum króna. Auk þess festa nýgerðir búvörusamningar, sem gilda til tíu ára, í sessi mjög háa tollvernd á kindakjöti. Einungis 19 þingmenn samþykktu þá samninga þegar greidd var atkvæði um þá á þingi í september.
Nú þegar er umtalsverður hluti af sauðfjárframleiðslu á Íslandi fluttur út og með því eru íslenskir skattgreiðendur í raun að niðurgreiða kjöt ofan í erlenda neytendur. Í Fréttablaðinu í síðustu viku var greint frá því að verð fyrir sauðfjárafurðir á erlendum mörkuðum hefði hrunið vegna styrkingu krónunnar og lokunar markaða. Þar kom fram að nokkuð ljóst væri að verið sé að greiða með útflutningi á kjötinu.
Auk þess hefur neysla Íslendinga á kindakjöti dregist gríðarlega saman á undanförnum áratugum. Árið 1983 borðuðu Íslendingar 45,3 kíló hver af kindakjöti á ári. Í fyrra var sú tala komin í 19,5 kíló. Á sama tíma hefur neysla á kjúklingi og svínakjöti aukist verulega.
Segja bændur taka á sig 600 milljónir vegna þrenginga
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður markaðsráðs kindakjöts, sendi frá sér tilkynningu í desember vegna málsins. Þar sagði að tilgangur hins sérstaka framlags ríkissjóðs sé að „vernda störf út um landið og koma í veg fyrir alvarlega byggðaröskun. Markaðsráð Kindakjöts kemur að verkefninu til að tryggja að féð nýtist í áframhaldandi markaðssetningu á erlendum mörkuðum.“ Íslenskur landbúnaður velti um 70 milljörðum króna árlega og skapi tíu til tólf þúsund bein og óbein störf um land allt.
Í tilkynningunni sagði einnig að mikil styrking krónunnar hafi valdið þrengingum hjá öllum útflutningsgreinum á Íslandi. „Þá hefur viðskiptadeila Vesturveldanna og Rússlands leitt til verðlækkunar á mörkuðum fyrir ýmsar landbúnaðarafurðir í Evrópu. Flest bendir til þess að þetta sé tímabundin niðursveifla. Verð á kindakjöti á heimsmarkaði hefur lækkað undanfarna mánuði en virðist nú vera á uppleið.[...]Íslenskir sauðfjárbændur tóku á sig um 600 milljóna kr. tekjuskerðingu í haust vegna ástandsins á heimsmarkaði. Rétt er að hafa í huga að bændur hafa þegar lagt út fyrir nánast öllum framleiðslukostnaði og innt af hendi nánast alla þá vinnu sem til þarf. Engin opinber verðlagning er í sauðfjárrækt á Íslandi. Kvótakerfi var afnumið 1995 og útflutningsbætur aflagaðar 1992.