Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
AuglýsingEf þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna. Seðlabankinn segir að sér sé ekki heimilt að greina frá nöfnum þátttakenda í gjaldeyrisútboðum sínum vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands.
Gagnrýni á fjárfestingarleiðina kom úr mörgum áttum, áður en ákveðið var að hætta útboðum hennar fyrir rúmu ári síðan. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gagnrýndi hana meðal annars fyrir að vera ósanngjarna. Í samtali við Kjarnann í febrúar 2014 sagði hann leiðina fela í sér aðstöðumun milli innlendra og erlendra aðila.
Fjölmiðlar hafa verið duglegir við að segja fréttir af þeim aðilum sem blasað hefur við að hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina við að flytja peninga erlendis frá til landsins. Félög í eigu þeirra aðila hafa þá oftar en ekki ráðist í skuldabréfaútgáfu sem sömu aðilar hafa keypt fyrir krónurnar sem þeir fá fyrir gjaldeyrinn sinn, og þar með hefur ákvæði um bindingu í verðbréfum verið fullnægt. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Fjárfestingarleiðin var einungis fyrir efnað fólk. Lengi vel þurfti viðkomandi að eiga að minnsta kosti 50 þúsund evrur sem hann vildi skipta í krónur til að taka þátt en sú upphæð var lækkuð í 25 þúsund evrur allra síðustu mánuðina sem hún var við lýði. Lengst af þurfti því að minnsta kosti að eiga andvirði um sjö milljóna króna í reiðufé til að taka þátt.Ákveðin skilyrði voru fyrir því að mega fara í gegnum fjárfestingarleiðina. Á meðal þeirra er að fjárfestirinn væri raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem hann ætlar sér að flytja inn til landsins. Auk þess er óheimilt að flytja fjármuni fyrir hönd annars eða annarra aðila. Annað skilyrði var að fjárfestir lægi„ekki undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot, ákærður af handhafa ákæruvalds eða kærður til lögreglu af Seðlabankanum, og máli vegna þess sé enn ólokið hjá ákæruvaldi eða lögreglu“.
Skilmálunum var þó breytt í desember 2012 þegar því var bætt inn að þeir aðilar sem liggi undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot mættu ekki heldur taka þátt í útboðum fjárfestingarleiðarinnar. Engar takmarkanir voru hins vegar á þátttöku í fjárfestingarleiðinni fyrir aðila sem voru til rannsóknar eða jafnvel í ákæruferli hjá öðrum embættum en gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Þannig gat einstaklingur setið í dómssal að morgni þar sem honum var gefið að hafa framið stórkostlega efnahagsglæpi. Síðdegis gat hann tekið þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans og tryggt sér tugprósentaafslátt af íslenskum krónum. Um kvöldið gat hann keypt sér íslenskt fyrirtæki fyrir þessar sömu krónur.
- Í skýrslu um aflandseignir og skattaundanskot Íslendinga, sem birt var á föstudag, er fjallað um fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp, hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandseyjunum hafi skilað sér Íslands, með gengisafslætti, í gegnum fjárfestingaleiðina. Orðrétt segir: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“ Samkvæmt þessu gat því fé sem orðið hafði til vegna skattaundanskota komist aftur „heim“ til Íslands í gegnum fjárfestingaleiðina og eigendur þess notað hið illa fengna fé til að kaupa eignir hérlendis með afslætti.
Auglýsing
Við þurfum á þínu framlagi að halda
Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.
Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.
Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.
Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.
Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.
Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.
Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.
MorgunpósturinnEkki missa af neinuNánar