Ráðherrar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru á þeirri skoðun að skipulagsvald yfir Vatnsmýrinni, og þar með Reykjavíkurflugvelli, eigi að liggja hjá Reykjavíkurborg, samkvæmt heimildum Kjarnans. Enginn vilji er hjá þeim að víkja frá fyrirliggjandi stefnu til að tryggja veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni til frambúðar. Þessi afstaða stangast á við skoðun nýs ráðherra samgöngumála í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, Jóns Gunnarssonar. Hann segir við Vísi að enginn önnur lausn sé í stöðunni en að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni.
Fylgjandi því að skerða jafnvel skipulagsvald Reykjavíkur
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, sem birt var í gær, kemur fram að ríkisstjórnin muni „beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.“
Efnisgreinin er mjög loðin og opin til túlkunar. Samkvæmt heimildum Kjarnans var það með vilja gert, enda alls ekki eining innan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að málefnum Reykjavíkurflugvallar.
Jón Gunnarsson, sem fer með samgöngumál í nýrri ríkisstjórn og þar með málefni innanlandsflug, hefur verið einarður stuðningsmaður þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni og þjónusta hans verði byggð þar upp.
Í september síðastliðnum var Jón einn þeirra 25 þingmanna sem lögðu fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Alls stóðu sjö þingmenn Sjálfstæðisflokks að tillögunni ásamt þingmönnum Framsóknarflokk, tveimur þingmönnum Vinstri grænna (Lilju Rafney Magnúsdóttur og Ögmundi Jónassyni) og Kristjáni L. Möller úr Samfylkingu. Tólf af þeim 25 þingmönnum sem lögðu tillöguna fram sitja ekki lengur á þingi.
Jón bloggaði á vefsíðu sína um tillöguna þegar hún var lögð fram. Þar sagði m.a.: „Því miður hafa borgaryfirvöld ekki hlustað á vilja þings né þjóðar í þessu mikilvæga máli og því er einboðið að gera þeim grein fyrir því að ekki verður áfram haldið á sömu braut.[...]Í öllum skoðanakönnunum hefur stór meirihluti landsmanna og borgarbúa lýst þeirri skoðun sinni að völlur verði staðsettur áfram í Reykjavík. Hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðslu er tilkomin til að treysta grunn Alþingismanna til að taka jafnvel ákvörðun sem skerðir skipulagsvald sveitarfélaga.“
Óttarr segir Reykjavík vera í rétti
Ekki hefur verið einhugur um hvort að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða verði færð annað. Reykjavíkurborg hefur lengi viljað að flugvöllurinn verði færður svo hægt sé að byggja í Vatnsmýrinni og þétta þar með höfuðborgina. Um sér að ræða verðmætasta byggingarlandið innan marka hennar sem sé auk þess afar mikilvægt fyrir þróun hennar.
Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði þar sem hann er til 2022 en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki í áföngum eftir það ár. Í fyrrasumar komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þurfi að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum er kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli. Þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðsluna var lögð fram í kjölfarið.
Einn þeirra flokka sem stýrir Reykjavíkurborg um þessar mundir er Björt framtíð. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sat áður í borgarstjórn þegar Besti flokkurinn og Samfylking mynduðu meirihluta á árunum 2010-2014 og hefur margoft tjáð sig um það opinberlega. Í þingræðu sem hann hélt um málefni Reykjavíkurflugvallar í september 2013 sagði Óttarr m.a.: „Það er ekki bara réttur borgarinnar heldur skylda að setja fram aðalskipulag þar sem eru framtíðarlausnir, framtíðarhugsun í skipulagi borgarsvæðisins. Við höfum margoft heyrt það í umræðunni að staðsetning Reykjavíkurflugvallar hafi ýtt á dreifða byggð sem hefur margt neikvætt í för með sér fyrir borgina. Við skulum ekki gleyma því að það búa 20 þús. manns fyrir vestan flugvöllinn og það eru líka Íslendingar. Það er ekki fólk af annarri tegund en fólk sem býr úti á landi.“
Í þingræðu 11. febrúar 2014, þar sem rætt var um framlagt frumvarp um að taka skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni af Reykjavíkurborg sagði Óttarr: „Mér finnst sú leið að taka mjög skýrt vald og ábyrgð sveitarfélaganna í sérstöku tilviki af einu sveitarfélagi á landinu til þess að tryggja skoðun sem virtist ekki vera pólitískt vinsæl í viðkomandi sveitarfélagi mjög stór aðgerð, og kannski ekki endilega sú eina rétta til þess að fá þá niðurstöðu að umræða yrði meðal fleiri sem koma að ákvörðun um stöðu eða staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.“
Viðmælendur Kjarnans innan Viðreisnar taka undir þessa skoðun. Ekki komi til greina að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg til að tryggja veru flugvallarins í Vatnsmýrinni.