Fjármagnsflótti frá Íslandi og í aflandsfélög í skattaskjólum hefði líklega ekki orðið eins mikill og raunin varð á árunum fyrir hrun ef að Ísland hefði haft sömu skattareglur og giltu á hinum Norðurlöndunum. Þessir fjármagnsflutningar í aflandsfélög léku veigamikið hlutverk í fjármálavæðingu fyrsta áratugs aldarinnar, og jafnvel má leiða líkur að því að ef settar hefðu verið sambærilegar reglur og annars staðar hefði eignaverðs- og útlánaþensla þessa tímabils orðið vægari en raunin varð, og fallið minna.
Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem gerð var opinber í síðustu viku. Í skýrslunni er vikið að skattalöggjöfinni á Íslandi á árunum fyrir hrun, og sérstaklega svokallaðri CFC löggjöf. CFC stendur fyrir Controlled Foreign Corporation, erlend fyrirtæki, félög eða sjóði í lágskattaríkjum í eigu, eða undir stjórn íslensks eiganda, hvort sem sá eigandi er félag eða einstaklingur. Lögin kveða meðal annars á um að greiða skuli tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags sem íslenskur skattaðili á en er í lágskattaríki. Íslendingar sem eiga félög á lágskattasvæðum eiga að skila sérstöku framtali með skattframtalinu sínu vegna þessa, skýrslu ásamt greinargerð þar sem meðal annars eru sundurliðaðar tekjur, skattalegar leiðréttingar, arðsúthlutun og útreikningur á hlutdeild í hagnaði eða tapi á grundvelli ársreikninga, sem eiga að fylgja. Ef það er ekki gert brýtur það í bága við lög um tekjuskatt.
Það er einnig talið hafa ráðið miklu um það hversu mörg aflandsfélög Íslendingar áttu að þessi löggjöf var ekki innleidd fyrr en eftir hrun.
Reglur ekki settar fyrr en eftir hrun
CFC reglur voru ekki settar hér á landi fyrr en í apríl 2009 og tók gildi 2010, en löngu fyrr hafði verið lagt til að slíkar reglur yrðu settar hér á landi. Í skýrslu annars starfshóps um umfang skattsvika á Íslandi, sem skilaði skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi í lok ársins 2004, kom fram að hraða þyrfti setningu slíkra ákvæða í íslenska skattalöggjöf til þess að koma í veg fyrir möguleg skattsvik með stofnun aflandsfélaga í skattaskjólum.
Þrátt fyrir þessi tilmæli starfshópsins virðist hins vegar sem stjórnvöld hafi á þessum tíma haft efasemdir um nauðsyn þess að setja slíka löggjöf, segir í skýrslunni. Meðal annars er vísar til greinar í vefriti fjármálaráðuneytisins frá árinu 2006, þar sem spurt var hvort Ísland þarfnaðist CFC-löggjafar.
Starfshópurinn sem skilaði skýrslu í haust segir að greinin skýri hugsanlega að einhverju leyti ástæðurnar fyrir því að ekki var farið að tillögu hins starfshópsins um setningu CFC ákvæða í íslensk lög. Starfshópurinn segir að sterk rök hnígi til þess að meiri festa hefði verið á umgengni íslenskra aðila við aflandsfélög ef löggjöfin hefði verið tekin upp hér á landi á sama tíma og það var lagt fyrst til. Í Bandaríkjunum hafi slík löggjöf verið tekin upp löngu fyrir áramót og á Norðurlöndunum strax í upphafi þessarar aldar, 2002 og 2003.
Ekki fylgt eftir og engin yfirsýn
Jafnvel þótt reglurnar hafi verið settar eftir hrun var þeim ekki fylgt mjög fast eftir, segir starfshópurinn. Reglugerð um skil framtala samkvæmt CFC reglunum var ekki gefin út fyrr en árið 2013. „Það ber ekki vitni um að þessi þáttur í skattalegu eftirliti hafi verið framarlega í forgangsröð stjórnvalda, þótt eftir sem áður hafi framteljendum borið að fara eftir lögunum frá setningu þeirra,“ segir í skýrslunni.
Einnig kemur fram í skýrslunni að einungis um þriðjungur þeirra einstaklinga sem tengdust skattaskjólsgögnunum sem keypt voru af íslenskum stjórnvöldum höfðu gefið aflandsfélögin sín upp til skatts á Íslandi. Skattayfirvöld hafa ekki gengið hart eftir því að þeir sem þó gáfu upp aflandsfélögin sín til skatts á Íslandi fylli út skýrslur sem kveðið er á um að þeir geri samkvæmt CFC löggjöfinni.
Þá hafa eyðublöð með þessum skýrslum ekki verið sjálfkrafa inni í skattaskilum og því hefur ríkisskattstjóri ekki getað aflað upplýsinga um þann fjölda sem skilað hefur CFC skýrslum. Til þess að finna slíkt út þyrfti að fara handvirkt yfir öll skattframtöl, og það hefur ekki verið gert. Hins vegar stendur til að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að ríkisskattstjóri eigi auðveldara með að fá heildaryfirsýn yfir skil á þessum skýrslum.
Komst í fréttir eftir Panamaskjölin
Kjarninn greindi frá því síðastliðið vor að ríkisskattstjóri væri með í undirbúningi að véltaka CFC-eyðublöð sem aflandsfélagaeigendur eiga að fylla út og skila með skattframtölum sínum. „Þegar því verki verður lokið mun útfylling eyðublaðanna verða ófrávíkjanleg,“ sagði Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri við Kjarnann síðastliðið vor.
Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, birti bloggfærslu þar sem fram kom að framtal vegna aflandsfélagsins Wintris, sem er skráð á Bresk Jómfrúareyjunum, hafi ekki verið í samræmi við CFC-löggjöfina. Þar kom einnig fram að við framtalsgerð þeirra hjóna hafi „verið horft í gegnum félagið eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu frá því ári áður en svo kallaðar CFC-reglur tóku gildi. Sú varfærna leið að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri (og skila CFC-framtali) hefur skilað sér í hærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið við atvinnurekstrar-/CFC-leiðina.“ Í færslu Sigmundar Davíðs sagði einnig að skattayfirvöld hafi aldrei gert athugasemdir við með hvaða hætti talið var fram.
Kjarninn beindi ítrekað fyrirspurnum til Sigmundar Davíðs um hvort Wintris hafi staðið að skattskilum í samræmi við CFC-reglur, en fékk aldrei svör.