Seðlabanki Íslands sendi ekki neinar tilkynningar vegna gruns um peningaþvætti vegna aðila sem nýttu sér fjárfestingarleið hans á meðan hún var opin á árunum 2012-2015. Alls komu 206 milljarðar króna til landsins í gegnum leiðina og virðisaukning þeirra sem hana nýttu var tæplega 50 milljarðar króna. Seðlabankinn segist enn fremur ekki haft neinar lagaheimildir til að velja eða hafna þátttakendum sem tóku þátt í fjárfestingarleiðinni á grundvelli þess frá hvaða landsvæði þeir komu, hvort sem það var aflandssvæði eða ekki. Bankinn neitar að veita upplýsingar um nöfn þeirra sem tóku þátt í fjárfestingarleið hans, um uppruna fjár þeirra eða umfang viðskipta hvers og eins.
Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans um málið. Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var fyrir viku síðan, er fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina. Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Afhenti umbeðnar upplýsingar en tilkynnti ekki sjálfur
Samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á að tilkynna grun um peningaþvætti til Peningaþvættisskrifstofu (Financial Interlligence Unit) sem lengi vel var vistuð hjá ríkissaksóknara en heyrir nú undir héraðssaksóknara.
Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kjarnans um hvort hann hafi sent slíkar tilkynningar segir að skattyfirvöld hafi fengið „umbeðnar upplýsingar um þátttakendur í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands með nokkrum sendingum á árunum 2012 til 2015.“ Það liggur því fyrir að Seðlabankinn hefur afhent skattyfirvöldum þær upplýsingar sem þau hafa beðið um, en ekkert kemur fram í svarinu um að Seðlabankinn hafi sýnt frumkvæði að því að gera skattyfirvöldum viðvart þegar um grunsamlega fjármagnsflutninga væri að ræða.
Síðan segir í svari Seðlabankans: „Í skýrslunni koma fram upplýsingar um þátttöku fjárfesta í útboðum fjárfestingarleiðar með fjármuni frá svæðum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði, en þau eru 29 samkvæmt lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Frá þeim svæðum tóku sjö lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í einhverju af 21 útboði fjárfestingarleiðar á árunum 2012 til 2015 fyrir alls 13 milljónir evra. Þessa fjárhæð má tvöfalda þar sem fjárfestarnir þurftu að skipta jafnhárri fjárhæð hjá fjármálafyrirtæki hér á landi á svonefndu álandsgengi til að uppfylla skilyrði útboðanna. Þannig nam fjárfesting þeirra u.þ.b. 26 milljónum evra, sem samsvarar tæplega fimm milljörðum króna. Fjárfesting þessara aðila nam því um 2,4% af heildarfjárfestingu vegna þátttöku í útboðum fjárfestingarleiðar. Frá Lúxemborg, Kýpur og Möltu, sem ekki eru á lista yfir svæði sem skilgreind eru sem lágskattasvæði, tóku 12 lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt í fjárfestingarleiðinni með 82 milljónir evra.“
Segir að bankar hefðu átt að tilkynna um mögulegt peningaþvætti
Að sögn Seðlabankans þurftu þátttakendur í útboðum fjárfestingarleiðarinnar að uppfylla fjölmörg skilyrði skilmála sem gilitu um gjaldeyrisviðskipti. „Fjármálafyrirtæki höfðu milligöngu um að að miðla til Seðlabankans umsóknum fjárfesta um þátttöku í útboðum fjárfestingarleiðar og m.a. að ganga úr skugga um að fyrirhuguð fjárfesting uppfyllti formkröfur Seðlabankans samkvæmt skilmálum fjárfestingarleiðar. Formlega var þátttaka í útboðunum í nafni innlends fjármálafyrirtækis sem var þá gagnaðili Seðlabankans í viðskiptunum. Fjármálafyrirtæki báru einnig þá skyldu að kanna fjárfesta, þ.e. viðskiptamenn sína, með tilliti til laga[...]um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og staðfesta áreiðanleika þeirra gagnvart Seðlabankanum. Eftirlit með því að fjármálafyrirtæki sinni skyldum sínum varðandi peningaþvættisathuganir er í höndum Fjármálaeftirlitsins.“ Það er því skoðun Seðlabanka Íslands að þau fjármálafyrirtæki sem voru milliliðir þeirra sem nýttu sér fjárfestingarleiðina hefðu átt að kanna hvort um mögulegt peningaþvætti væri að ræða. Seðlabankinn sjálfur hefði engum skyldum að genga í því tilliti. Heimildir Kjarnans herma að engar peningaþvættistilkynningar hafi borist frá fjármálafyrirtækjum sem voru milliliðir fyrir þá sem nýttu sér fjárfestingarleiðina.
Taka skal fram að engar takmarkanir voru á þátttöku í fjárfestingarleiðinni fyrir aðila sem voru til rannsóknar eða jafnvel í ákæruferli hjá öðrum embættum en gjaldeyriseftirliti Seðlabankans.
Hægt er að lesa tíu staðreyndir um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hér.