Alls gengu 2.466 manns úr þjóðkirkjunni á árinu 2016 en 788 manns skráðu sig í hana. Því fækkaði samtals um 1.678 í þjóðkirkjunni á árinu. Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um breytingar á trú- og lífsskoðunarfélagsaðild á síðasta ári.
Fækkun meðlima þjóðkirkjunnar í fyrra er umtalsvert meiri en meðaltal áranna 2011-2014 var, en þá fækkaði að meðaltali 1.126 manns í þjóðkirkjunni á ári.
Árið 2015 sker sig hins vegar úr þar sem alls 4.805 fleiri sögðu sig úr kirkjunni en í hana. Ýmsar ástæður voru fyrir því mikla brottfalli það árið, meðal annars smölun trúfélags Zúista á Íslandi á meðlimum. Höfuðmarkmið þeirra er að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og lífskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög. Þá ætlar félagið að endurgreiða öllum skráðum meðlimum árlegan styrk sem það fær frá ríkinu. Sú endurgreiðsla hefur enn ekki tekist þar sem beðið er úrskurðar frá innanríkisráðuneytinu við kæru fyrrverandi forsvarsmanna trúfélagsins um skipan nýrrar stjórnar. Samkvæmt upplýsingum á Facebook síðu Zúista munu endurgreiðslur hefjast strax og innanríkisráðuneytið staðfestir skipan nýrrar stjórnar. Á síðasta ársfjórðungi ársins 2015, þegar ofangreind vilyrði um endurgreiðslu voru sett fram, skráðu um 3.200 manns sig í félag Zúista á Íslandi. Þar af komu um eitt þúsund úr þjóðkirkjunni.
Meðlimafjöldi kominn undir 70 prósent þjóðarinnar
Þegnum þjóðkirkjunnar hefur fækkað mjög hlutfallslega á undanförnum árum. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í hana. Á árunum fyrir hrun fjölgaði alltaf lítillega í hópi þeirra sem skráðir voru í þjóðkirkjuna á milli ára þótt þeim Íslendingum sem fylgdu ríkistrúnni fækkaði alltaf hlutfallslega. Ein ástæða þess er að skipulagið hérlendis var lengi vel þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Þessu hefur verið breytt.
Frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári. Þeir voru 236.260 í byrjun árs 2017. Í lok þriðja ársfjórðungs 2016 voru Íslendingar samtals 337.610 talsins. Miðað við þá tölu eru 69,9 prósent mannfjöldans skráðir í þjóðkirkjuna. Það er í fyrsta sinn síðan að mælingar hófust sem að fjöldi meðlima hennar fer undir 70 prósent mannfjöldans.
Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Þeir eru nú nálægt eitt hundrað þúsund.