Lífeyrissjóðir landsins lánuðu heimilum þess 80 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2016. Það er fjórum sinnum meira en þeir lánuðu þeim allt árið 2015. Í nóvember einum saman, sem var metmánuður í útlánum lífeyrissjóða til heimila, lánuðu þeir 9,6 milljarða króna. Til samanburðar þá er sú upphæð 82 prósent af því sem lífeyrissjóðir lánuðu heimilum landsins allt árið 2014. Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabanka Íslands. Lánin sem sjóðirnir veita eru fyrst og fremst lán til íbúðarkaupa.
Á sama tíma er framboð húsnæðis að þorna upp, eignir seljast oft á sýningardegi og verðið hækkar bara og hækkar. Það þýðir að lánin sem þarf að taka hækka bara og hækka. Og lánin sem Íslendingar eru að taka eru nánast einvörðungu verðtryggð lán, sem sveiflast með verðbólguþróun.
Framboðið að þorna upp
Fasteignaverð á Íslandi hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum. Frá miðju ári 2010, þegar það náði lágmarki eftir hrunið, hefur verðið á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 68 prósent. Leiguverð hefur hækkað um 60,1 prósent frá byrjun árs 2011. Mikill skortur er á framboði íbúðarhúsnæðis, meðal annars vegna þess að síaukinn fjöldi íbúða eru notaðar til að hýsa þann mikla fjölda ferðamanna sem sækir Íslands heim á hverju ári, þar sem hefðbundin gistirými eins og hótel anna ekki eftirspurn. Á fundi sem hagdeild Íbúðalánasjóðs hélt í síðustu viku var meðal annars fjallað um þörfina fyrir nýtt húsnæði. Þar sagði Sigurður Jón Björnsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Íbúðalánasjóðs, að það væru skýr meri um að framboð eigna á húsnæðismarkaði væru við það að þorna upp. Eignir seljist nú oft á sýningardegi sem sé óeðlilegt ástand. Sigurður sagði enn fremur að miðað við fjölda íbúða í landinu, og að níu til tíu prósent þeirra skipti um hendur á ári og fjögurra mánaða veltuhraða, þá ættu þrjú þúsund íbúðir að vera til sölu í dag. Talan sé hins vegar nær eitt þúsund. Þetta geti verið merki um ofhitun og Sigurður sagði að almenningur ætti að stíga varlega til jarðar.
Í þessu ástandi hafa lífeyrissjóðir sótt hratt inn á íbúðalánamarkaðinn. Hlutdeild lífeyrissjóða á þeim markaði hefur aukist verulega eftir að nokkrir stórir sjóðir hófu að bjóða allt að 75 prósent íbúðalán, betri vaxtakjör en bankarnir, óverðtryggð lán og lægri lántökugjöld á síðari hluta ársins 2015. Hlutdeild banka í slíkum lánum hefur að sama skapi dregist saman. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2016 lánuðu þeir samtals 67,8 milljarða króna til heimila, að frádregnum uppgreiðslum og bílalánum.
Nánast allt verðtryggt
Nánast öllu lán sem veitt eru til íbúðarkaupa hérlendis á síðasta ári voru verðtryggð. Innan bankakerfisins voru 96 prósent lána, að frádregnum uppgreiðslum og bílalánum, verðtryggð. Öll lán Íbúðalánasjóðs í almenn lán, samtals um 2,4 milljarðar króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins, voru það líka.
Hjá lífeyrissjóðunum er þróunin svipuð og hjá bönkunum. Af þeim 80 milljörðum króna sem þeir lánuðu til íbúðarkaupa á fyrstu ellefu mánuðum ársins voru 61,9 milljarðar króna verðtryggð lán, eða 77,4 prósent. Það þýðir að einungis 22,6 prósent íbúðalána sjóðanna voru óverðtryggð.