Ísland er í 14. sæti af 176 löndum yfir minnst spilltu lönd heims. Þetta kemur fram á nýjum lista fyrir árið 2016 sem byggir á spillingarvísitölu Transparency International. Ísland lækkar um eitt sæti frá árinu 2015 og hefur hríðfallið niður listann á árunum eftir hrun. Árið 2006 var Ísland í fyrsta sæti og þótti þar af leiðandi minnst spillta land í heimi. Árið 2008 var Ísland í sjöunda sæti og eftir að Rannsóknarskýrsla Alþingis kom út árið 2010 hefur Ísland tekið umtalsvert stökk niður á við á listanum.
Nú er svo komið að Ísland þykir spilltast allra Norðurlanda, en Danmörk, Finnland, Svíþjóð og Noregur eru öll á meðal þeirra sex ríkja sem þykja minnst spillt samkvæmt vísitölunni.
Sómalía spilltasta land í heimi
Stigaskali spillingarvísitölunnar nær frá 0 upp í 100. Því færri stig sem hvert ríki fær, því spilltara er það talið. Spillingarvísitala Transparency International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Þau lönd sem eru ofarlega á listanum eiga það sameiginlegt að þar ríkir fjölmiðlafrelsi, gott aðgengi er að fjárlagaupplýsingum, dómskerfi dregur ekki fólk í dilka eftir ríkidæmi og starfar algjörlega sjálfstætt gagnvart hinum öngunum í hinu þrískipta valdi. Þá sýna þeir sem fara með almennt vald heilindi í störfum sínum. Á hinum endanum eru ríki sem eiga það flest sameiginlegt að þar geisa styrjaldir, stjórnskipan er veik, dómskerfið slakt og fjölmiðlafrelsi lítið eða ekkert.
Sómalía er spilltasta landið í heiminum samkvæmt vísitölunni, og er það tíunda árið í röð sem ríkið hlýtur þann vafasama heiður. Minnst spilltustu löndin eru Danmörk og Nýja Sjáland og þar á eftir koma Finnland og Svíþjóð. Önnur lönd sem þykja minna spillt en Ísland eru Sviss, Noregur, Singapúr, Holland, Kanada, Þýskaland, Lúxemborg, Bretland og Ástralía. Í næstu sætunum á eftir Íslandi koma Belgía, Hong Kong, Austurríki og Bandaríkin.
Af Norðurlöndunum telst því vera mest spilling á Íslandi. Hin fjögur Norðurlöndin sem vísitalan nær til eru öll á meðal sex minnst spilltu landa heims.
Slök aðferðarfræði sögð hafa sýnt litla spillingu
Í fréttatilkynningu frá Gagnsæi, samtaka gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins sem sótt hafa um aðild að Transparency International, vegna birtingar vísitölunnar er farið yfir stöðu Íslands í mælingum hennar síðastliðinn áratug. Þar kemur fram að Ísland hafi fengið 96 stig af 100 árið 2006 og þá þótt minnst spilltasta land í heimi. Ári síðar hrapaði Ísland niður í sjötta sætið og síðan þá hefur stigunum sem Ísland fær hægt og rólega hækkað. Árið 2016 fékk Ísland 78 af 100 stigum eða 81 prósent þeirra stiga sem landið fékk árið 2006.
Í tilkynningunni er sá fyrirvari settur að það hafi þótt umdeilt hversu mörg stig Ísland fékk árið 2006 og að það hafi fremur þótt endurspegla slaka aðferðarfræði við að mæla spillingu frekar en að mælingin hefði fangað „siðlega og góða stjórnskipan á Íslandi árið 2006“. Þar er einnig bent á að Rannsóknarskýrsla Alþingis hafi komið út árið 2010 þar sem m.a. hafi verið sérstaklega fjallað um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna. Í kjölfar birtingar hennar átti sér stað umtalsvert stökk niður á við í sætaröðun á lista Transparency International, úr áttunda sæti árið 2009 í það fjórtánda árið 2016.