Stjórnarflokkarnir munu mögulega fara með formennsku í öllum átta fastanefndum þingsins. Þetta segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, við mbl.is. Áður var talið að stjórnarandstaðan myndi fá formennsku í tveimur nefndum líkt og hefð hefur skapast fyrir á undanförnum árum. Á síðasta kjörtímabili var stjórnarandstaðan til að mynda með formennsku í bæði velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði við sama miðil að þetta væru mörg skref aftur í tímann og að stjórnarflokkarnir hafi boðið ákveðnum einstaklingum í stjórnarandstöðunni formennsku. Það væri bæði óásættanlegt og ólýðræðislegt.
Ekki náðist samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um formennsku í nefndir í aðdraganda þess að þing var sett, en stefnuræða forsætisráðherra var flutt í gær. Stjórnarandstaðan kallaði eftir því að formenn nefnda yrðu skipaðir í samræmi við þingstyrk, en stjórnarflokkarnir þrír hafa einungis eins manns meirihluta og 46,7 prósent atkvæða á bak við sig. Við það hafa stjórnarflokkarnir ekki sætt sig og því gæti vel farið svo að allir formennirnir verði úr röðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Í dag voru fjórir nefndarformenn kjörnir og hinir fjórir verða kjörnir á morgun. Þegar sátt náðist um skipan ríkisstjórnar bárust fregnir af því að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér fimm formannsstóla í nefndum, Viðreisn fengi einn en stjórnarandstaðan tvo. Þrír Sjálfstæðismenn voru skipaðir formenn nefnda í dag. Óli Björn Kárason verður formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Haraldur Benediktsson verður formaður fjárlaganefndar og Valgerður Gunnarsdóttir formaður umhverfisnefndar. Það vakti hins vegar athygli að Nichole Leigh Mosty, annar tveggja þingmanna Bjartrar framtíðar sem settist ekki í ráðherrastól, var kjörin formaður velferðarnefndar. Það þótti athyglisvert bæði vegna þess að það er nefnd sem líklegt þótti að stjórnarandstöðunni stæði formennska í til boða – sérstaklega þar sem áhersla hefur verið lögð á breiða samstöðu í velferðarmálum á kjörtímabilinu – en líka vegna þess að ekki var búist við því að Björt framtíð fengi formennsku í neinni fastanefnd.
Suðurkjördæmi fær ekki kröfur sínar uppfylltar
Á morgun verður síðan kosinn formaður í allsherjar- og menntamálanefnd, utanríkismálanefnd, atvinnuveganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mikið hefur verið þrýst á að Páll Magnússon, og Ásmundur Friðriksson, fái formennsku í sitt hvorri nefndinni. Páll gagnrýndi ráðherraval Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra opinberlega fyrr í mánuðinum og sagði að það hlyti að vera mistök sem yrði leiðrétt. Áður hafði Páll ekki greitt atkvæði með ráðherraskipaninni. Ástæðan var sú að Páll taldi að hann sjálfur, sem oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, hefði átt að fá ráðherraembætti í ljósi sterkrar stöðu flokksins þar.
Eini þingmaður kjördæmisins sem fékk lykilstöðu í ríkisstjórninni var hins vegna Unnur Brá Konráðsdóttir, sem setið hafði í fjórða sæti á framboðslista flokksins eftir að hafa verið færð upp um eitt sæti þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir ákvað að bjóða sig ekki fram. Karlarnir þrír sem sátu fyrir ofan Unni Brá töldu gróflega fram hjá sér gengið. Eitt sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi eru Vestmannaeyjar, þangað sem rætur bæði Páls og Ásmundar, sem er annar þingmaður Sjálfstæðisflokks í kjördæminu, liggja. Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum sendu frá sér ályktun um miðjan janúar þar sem þeir sögðu að vilji kjósenda flokksins í kjördæminu hefði verið hunsaður og að horft hefði verið fram hjá lýðræðislegri niðurstöðu fjölmenns prófkjörs í Suðurkjördæmi. Síðan sagði í ályktuninni: „Í ljósi þess hversu öflugt starf er unnið undir merkjum Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu er sanngjarnt og eðlilegt að þingmönnum í forystu flokksins í Suðurkjördæmi séu tryggð formennska í veigamiklum nefndum Alþingis.“
Eftir formannskjör dagsins er þó ljóst er þó að Páll og Ásmundur fá ekki báðir formennsku í nefndum. Ástæðan er sú að þeir sitja bara í einni þeirra nefnda sem á eftir að kjósa formann, atvinnuveganefnd. Annar hvor þeirra mun því að öllum líkindum taka við formennsku hennar.
Áslaug Arna og Jóna Sólveig gera sterkt tilkall
Þá standa eftir þrjár nefndir. Líklegt verður að teljast að Brynjar Níelsson, fráfarandi varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, muni gera tilkall til þess að leiða þá nefnd verði það að veruleika að stjórnarandstaðan taki ekki við formennsku í neinni nefnd. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins sem sat í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, verður að teljast líkleg til að taka við formennsku í allsherjar- og menntamálanefnd. Það þýðir að Viðreisn mun fá formennsku í utanríkismálanefnd og Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, nær örugg um að fá það embætti.
Verði það niðurstaðan þá verður hlutfall kynjanna í nefndarformennsku jafnt. Þar munu sitja fjórir karlar og fjórar konur. Í ríkisstjórninni sitja hins vegar sjö karlar og fjórar konur auk þess sem kona gegnir embætti forseta Alþingis.