Enn var mánuður til stefnu þar til Donald Trump tæki við lyklavöldum í Hvíta húsinu þegar vísindamenn í Bandaríkjunum og víðar byrjuðu í offorsi að afrita og koma loftslagsgögnum í öruggt skjól. Ótti þeirra var sá að verðandi forsetinn með þingmeirihluta Repúblikanaflokksins að baki sér gæti byrjað að fjarlægja upplýsingar opinberra stofnana á sviði loftslagsvísindanna sem þeim er í nöp við.
Á þeim tíma virtust aðgerðir vísindamannanna nokkuð taugaveiklðar og jafnvel þeir sem stóðu að þeim viðurkenndu að þær væru fyrst og fremst í varúðarskyni. „Ég held ekki í raun að þetta muni gerast en ég hugsa að það gæti gerst,“ sagði veðurfræðingurinn Eric Holthaus sem hafði frumkvæði að því að vísindamenn tækju saman lista yfir gögn sem brýnt væri að glötuðust ekki við Washington Post í desember.
Nú þegar forsetatíð Trump er ekki orðin vikugömul lítur út fyrir að ótti vísindamannanna hafi verið á rökum reistur. Með minnisblaði sem sent var yfirmönnum Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA) í vikunni var starfsmönnum hennar í sem einföldustu málið skipað að halda sér saman.
Þeim var bannað að tjá sig opinberlega, hvort sem er við fjölmiðla eða á opinberum vettvangi, þeir skyldu hætta að birta fréttir og rannsóknir á vefsíðu stofnunarinnar, bloggsíðum eða samskiptamiðlum. Allar vísindarannsóknir og gögn þurfa nú að hljóta blessun pólitískt skipaðra fulltrúa áður en þau koma fyrir augu almennings. Á sama tíma voru allir rannsóknarstyrkir sem stofnunin veitir frystir með tilheyrandi fjárhagslegri óvissu fyrir fjölda rannsakenda og doktorsnema.
Þessi ákvörðun um að múlbinda Umhverfisstofnunina var ekki kynnt opinberlega af hálfu Trump-stjórnarinnar en hún rataði engu að síður í fjölmiðla eftir að ónafngreindir starfsmenn stofnunarinnar láku upplýsingunum. Breska blaðið The Guardian hefur eftir fyrrverandi starfsmönnum EPA að takmarkanirnar sem Trump hefur lagt á hana gang langt um fram það sem fyrri ríkisstjórnir hafi sett henni.
Uppreisnin á Twitter
Þöggunin á opinberum stofnunum sem hafa með vísindi að gera nær ekki aðeins til Umhverfisstofnunarinnar heldur fjölda annarra, þar á meðal þjóðgarða um gjörvöll Bandaríkin. Þeim var sömuleiðis meinað að miðla upplýsingum til almennings á vefsíðum, bloggsíðum og samfélagsmiðlum. Ekki hafa allir tekið þessum kvöðum þegjandi og hljóðalaust. Þannig sendi ósáttur starfsmaður Badlands-þjóðgarðsins í Suður-Dakóta út fjölda tísta um loftslagsbreytingar á Twitter-síðu garðsins á þriðjudag. Tugþúsundir deildu tístunum en skömmu síðar var þeim öllum eytt.
Tístbyltingin til varnar loftslagsvísindum breiddist hins vegar út. Innan skamms hafði fjöldi Twitter-síðna sprottið upp í nafni ýmissa stofnana eins og Þjóðgarðsþjónustu Bandaríkjanna og geimvísindastofnunarinnar NASA sem tístu upplýsingum um loftslagsmál og gagnrýni á aðgerðir Trump.
Á samfélagsmiðlum hefur jafnframt mikil umræða átt sér stað um að vísindamenn standi fyrir mótmælagöngu gegn því sem þeir sjá sem árásir nýrra valdhafa á vísindin.
Repúblikanar hafna vísindunum
Þótt fjöldi vísindamanna með fjölbreytt sérsvið hafi lýst þungum áhyggjum sínum af afstöðu nýja forsetans og ríkisstjórnar hans til vísinda almennt eru það afdrif loftlagsvísinda í þessum nýja pólitíska veruleika sem vekur helst ótta þeirra. Stór hluti repúblikana hafnar enn viðteknum vísindum sem segja að menn valdi loftslagsbreytingum á jörðinni með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á kolum, olíu og gasi.
Afneitunin nær ekki aðeins til þingmanna flokksins heldur til venjulegra Bandaríkjamanna sem styðja hann. Könnun Pew-rannsóknstofnunarinnar síðasta haust leiddi í ljós að aðeins 11% íhaldssamra repúblikana töldu að vísindamenn skildu orsakir loftslagsbreytinga vel og 24% hófsamra repúblikana. Svipað hlutfall var sammála þeirri fullyrðingu að nærri því allir vísindamenn væru sammála um að menn bæru mesta ábyrgð á loftslagsbreytingum.
Skipanir Trump í embætti hafa endurspeglað loftslagsafneitun flokksins. Scott Pruitt sem hann tilnefndi sem yfirmann EPA hefur sem ríkissaksóknari í Oklahoma höfðað fjölda mála gegn stofnuninni til að hnekkja reglum sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Rick Perry, sem eitt sinn sóttist eftir að verða forsetaefni repúblikana, er nú orkumálaráðherra þrátt fyrir að hann hafi áður sagst vilja leggja Orkumálaráðuneytið niður.
Endurkoma afneitunarinnar
Þrýstihópar á vegum jarðefnaeldsneytisiðnaðarins hefur lengi reynt að ala á sundrungu um loftslagsvísindi og hafa margir repúblikanar dansað eftir lagi þeirra. Misvísandi upplýsingar sem þeir hafa haldið á lofti áttu um skeið nokkuð greiðan aðgang að stærri fjölmiðlum. Gerðu þeir sitt besta til að grafa undan niðurstöðum vísindamanna með því að sérvelja gögn til að henta málstað sínum auk þess að ráðast beint á æru vísindamannanna sjálfra.
Eftir því sem áhrif loftslagsbreytinga hafa orðið greinilegri hafa alvörugefnir fjölmiðlar orðið síður ginnkeyptir fyrir villandi upplýsingum afneitara loftslagsvísindina. Því fer þó fjarri að herferðinni til að þvæla umræðuna um loftslagsvísindin hafi lokið.
Þannig birtist grein í breska blaðinu Daily Mail í lok nóvember þar sem því var haldið ranglega fram að meðalhiti jarðar hafi tekið metdýfu eftir að El niño-veðurfyrirbrigðinu slotaði á síðasta ári. Tilgangur hennar virtist vera að grafa undan fullyrðingum loftslagsvísindamanna um að hnattræn hlýnun af völdum manna hafa verið aðalorsök langrar raðar hitameta sem slegin voru í fyrra og árið áður. Öfgahægrisíðan Breitbart tók fréttina meðal annars upp og vísinda-, geim- og tækninefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings deildi henni á Twitter-síðu sinni.
Umræðan versni á tímum eftirsannleikans
Með grein Daily Mail var sami tónn sleginn og eftir síðasta sérstaklega kröftuga El niño sem keyrði upp hnattrænan hita árið 1998. Afneitarar notuðu hlutfallslega svalari árin sem á eftir komu á meðan hnattræn hlýnun af völdum manna náði í skottið á metunum sem voru slegin á meðan El niño naut við til að tönglast á því að „hlé“ hefði orðið á hnattrænni hlýnun. Með því að velja 1998 sem upphafsár samanburðar síns héldu þeir því fram að engin hnattræn hlýnun hefði átt sér stað um árabil.
Loftslagsvísindamaðurinn Michael Mann frá Ríkisháskólanum í Pennsylvaníu, sem hefur fengið að kynnast árásum afneitara á eigin skinni meira en flestir, óttast að með lokum El niño nú hefjist sami söngurinn aftur. Búast megi við því að hnattræn hiti verði hlutfallslega minni næstu ár en á meðan á veðurfyrirbrigðinu stóð. Afneitarar loftslagsvísindanna muni beita sömu bellibrögðum og þeir gerðu eftir 1998.
Í tölvupóstsvari við fyrirspurn Kjarnans segir Mann að talað sé um að framboð Trump og umfjöllun fjölmiðla um hann hafi markað upphaf hættulegs eftirsannnleikstímabils þar sem gervifréttir fara víða sem erfitt sé að stemma stigu við.
„Í þessu nýja umhverfi og með harðkjarnaloftslagsafneitara í lykilhlutverkum í ríkisstjórn Trump þá óttast ég að ástand mála eigi eftir að versna en ekki batna þegar kemur að opinberri umræðu um loftslagsbreytingar,“ segir Mann.