Margir hafa velt því fyrir sér hvernig helförin gat átt sér stað. Hvernig siðmenntað og lýðræðislegt þjóðfélag gat alið af sér nasismann og framfylgt stefnu hans. Því ekki voru allir Þjóðverjar hreinræktaðir kynþáttahatarar og sadistar. Svarið felst sennilega í sögunni af Brunhilde Pomsel, seinasta eftirlifanda úr innsta kjarna nasistastjórnarinnar. Hún starfaði sem einkaritari Joseph Göbbels, eins versta stríðsglæpamanns mannkynssögunnar.
Hlýðni og værukærð
Brunhilde Pomsel fæddist í Berlín þann 11. janúar árið 1911 inn í dæmigerða prússneska fjölskyldu. Faðir hennar, sem barðist í fyrri heimstyrjöldinni, hikaði ekki við að berja hana og bræður hennar þrjá með teppabankara til að halda uppi aga og það átti eftir að móta alla hennar framtíð. Skyldurækni og hlýðni voru gildin sem systkinin fengu í vöggugjöf. Sem ung kona lærði hún hraðritun og þótti skara fram úr á því sviði.
Á þeim tíma var Nasistaflokkurinn að ryðja sér til rúms og miklir ólgutímar í Þýskalandi en Pomsel fylgdist lítið með og hafði engan áhuga á stjórnmálum. Hún vann t.a.m. samtímis hjá gyðingi á lögfræðistofu og við að skrifa upp æviminningar manns úr Nasistaflokknum. Þegar nasistarnir komust til valda árið 1933 fékk hún vinnu hjá ríkisútvarpinu RRG en þá þurfti hún einnig að skrá sig í flokkinn. Pomsel hugsaði sig ekki tvisvar um jafnvel þó að ein af hennar bestu vinkonum, Eva Löwenthal, væri gyðingur. Hún hafði ágæt laun, um 250 mörk á mánuði, og vinnustaðurinn var þægilegur.
En á þessum tíma voru margir Þjóðverjar í kröggum vegna vandræða eftirstríðsáranna og heimskreppunnar miklu. Pomsel var ekki virk í flokkstarfi Nasistaflokksins en barst með eins og svo mörg þýsk ungmenni. Hún var t.d. viðstödd hátíðina við Brandenborgarhliðið þann 30. janúar árið 1933 þegar Adolf Hitler var gerður að kanslara Þýskalands. Uppgangur nasistanna hafði þó persónulega mjög slæm áhrif á Pomsel.
Kærasti hennar, listamaðurinn og gyðingurinn Gottfried Kirchbach, sem var nokkuð eldri en hún flúði til Amsterdam. Hún bar barn hans undir belti og fór nokkrum sinnum til að hitta hann þar. Eftir að yfirvöld komust að ferðum hennar sleit Kirchbach sambandinu öryggis hennar vegna og hún lét í kjölfarið eyða fóstrinu. Kirchbach dó hins vegar í Amsterdam árið 1942, 54 ára að aldri. Lífið varð einnig mun erfiðara fyrir vinkonu hennar Evu Löwenthal. Þær héldu þó sambandi alveg þangað til Löwenthal var flutt í fangabúðir. Pomsel vann í 9 ár hjá ríkisútvarpinu þar sem fluttur var stanslaus áróður og henni gekk mjög vel í starfi. Svo vel að einn dag var hún færð til í starfi, til áróðursmálaráðuneytis Joseph Göbbels.
Fyrirmyndarfjölskylda þriðja ríkisins
Joseph Göbbels hafði verið áróðursmálaráðherra síðan í valdtökunni árið 1933. Hann var eftirlæti Hitlers og einn af voldugustu mönnum þriðja ríkisins. Göbbels hafði yfirumsjón með öllum fjölmiðlum landsins, þ.m.t. útvarpi, dagblöðum, bókaútgáfu, kvikmyndum, tímaritum og fleiru. Eins og sönnum áróðursmanni sæmdi var hann hugmyndafræðilegur ofstækismaður sem kom best fram í kröftugum ávörpum hans. Hann stóð jafnfætis sjálfum Hitler í þeim efnum.
En Pomsel kynntist hinni hlið hans, þ.e. hinum hversdagslega, hægláta og afskiptalausa Göbbels. Starfið í ráðuneytinu var umtalsvert betur borgað, um 500 mörk á mánuði, en mun leiðinlegri vinna og færri verkefni. Sex ritarar unnu á skrifstofunni en hún var persónulegur ritari ráðherrans. Störf hennar fólust aðallega í að svara símtölum, rita upp samtöl og bréf fyrir ráðherrann og að skipuleggja fundi og ferðalög.
Göbbels var oftast nær einn inni á skrifstofu sinni. Hann var ávallt fínn í tauinu og vel snyrtur en hann var jafnan fámáll og skipti sér lítið af riturunum. Hann hafði verið haltur frá bernsku og Pomsel vorkenndi honum vegna þess en það risti þó ekki djúpt þar sem hann var mjög hrokafullur og leit stórt á sig. Aðstaðan í ráðuneytinu var mjög góð með fallegum húsgögnum og afslöppuðu andrúmslofti. Göbbels stýrði því ekki með ótta eins og maður myndi halda. Bestu stundirnar voru þegar eiginkona ráðherrans, Magda Göbbels, kom með börnin þeirra á skrifstofuna um helgar. Börnin sex, fimm stúlkur og einn drengur, voru mjög spennt að hitta pabba sinn og Pomsel leyfi þeim að leika sér með ritvélina sína. Börnin voru vel þekkt í Þýskalandi vegna þess að Göbbels notaði þau mikið í störfum sínum, t.a.m. í áróðursmyndböndum og ljósmyndum. Til eru ótal myndir af Adolf Hitler með börnunum en hann var sjálfur barnlaus. Í eitt skipti var Pomsel boðið í höll Göbbels hjónanna á Wilhelmplatz torginu. Þau borðuðu gæs og Magda gaf henni föt. Ráðherrann yrti hins vegar aldrei á hana allt kvöldið. Pomsel var ekki einu sinni viss hvort hann vissi hvað hún héti.
Brjálaði dvergurinn
Pomsel hóf störf í ráðuneytinu árið 1942 eða um það leyti sem stríðið var að snúast til hins verra fyrir Þjóðverja. En það var einnig sá tími þegar Göbbels fór að láta til sín taka á meðan Hitler varð minna sjáanlegur. Í febrúar árið 1943 hélt hann sína þekktustu ræðu í Sportpalast íþróttahúsinu í Berlín eftir hinn mikla ósigur Þjóðverja í orrustunni um Stalíngrad. Þar viðurkenndi hann að stríðsreksturinn gengi ekki sem skyldi en kallaði jafnframt á “allsherjarstríð” allra þýskra þegna til að vernda heimalandið. Pomsel var viðstödd ræðuna og sat í næsta sæti við ráðherrafrúnna. Henni var brugðið við að sjá umbreytinguna á manninum.
„Enginn leikari hefði getað breytt sér á þennan hátt, úr siðmenntuðum og alvarlegum manni yfir í hávaðasaman ofstopamann….eins og brjálaðan dverg.“
En þrátt fyrir tilraunir Göbbels til að þjappa saman þýsku þjóðinni þá versnaði stríðsreksturinn með hverjum deginum. Í október árið 1944 kom hann á fót heimavarnarliði (Volksturm) sem var að mestu leyti samansett af unglingum og eldri körlum. Allir ungir og hraustir menn landsins voru annað hvort dauðir eða í víglínunni. Þar á meðal allir þrír bræður Brunhilde Pomsel en tveir af þeim létust í bardgögum.
Á þessum tíma jókst ábyrgð hennar til muna í ráðuneytinu. Hún fékk það hlutverk að skrifa tilkynningar í fjölmiðla um tölu látinna hermanna og ávallt reyndi hún að fegra þær nokkuð. Hún margfaldaði einnig tölur um dráp og nauðganir sovéskra hermanna á þýskum konum þar sem Rauði herinn sótti hratt í átt að Berlín. Göbbels reyndi að skapa hryllingsástand í augum Þjóðverja vegna komu Rússanna til þess að knýja þá til varna. En æ fleiri skýrslur rötuðu á borð Pomsel sem sýndu svo ekki varð um villst að stríðið væri tapað.
Endalokin
Í aprílmánuði árið 1945 höfðu Sovétmenn umkringt Berlínarborg og aðeins átti eftir að veita náðarhöggið. Göbbels fór með fjölskyldu sinni í neðanjarðarbyrgi Hitlers (Führerbunker) á meðan starfsfólk áróðursmálaráðuneytisins dvaldi dægrin löng í kjallara byggingarinnar. Þar var drukkið mikið af áfengi til að deyfa óttann og Pomsel sagði að eitthvað inni í sér hefði dáið þarna. Í byrjun maí kom Günther Schwägermann, aðstoðarmaður Göbbels, í kjallarann með þær fréttir að Hitler hefði framið sjálfsvíg þann 30. apríl og Göbbels sjálfur degi seinna. “En Magda og börnin?”
Þegar Hitler hafði tekið eigið líf ásamt konu sinni Evu Braun var Göbbels gerður að kanslara. Hans eina gjörð í starfi var að láta Sovétmenn vita af dauða Hitler og biðja þá um vopnahlé sem var hafnað. Þann 1. maí var Helmut Kunz, tannlæknir úr SS-sveitunum, fenginn til að svæfa börnin með morfíni. Þau voru þá á aldrinum fjögurra til tólf ára. Þá komu Magda Göbbels og Ludwig Stumpfegger, einkalæknir Hitlers, inn og bruddu blásýrutöflur ofan í þau. Þegar það var gert tóku Göbbels hjónin sitt eigið líf. Sjálfsvíg Göbbels hjónanna og morðið á börnum þeirra var ekki skyndiákvörðun. Hjónin voru heltekin af hugmyndafræði nasismans og eigin ímynd. Mörgum vikum fyrr hafði Magda haft orð á því að þau myndu öll þurfa að deyja ef stríðið tapaðist því að hún gat ekki hugsað sér að börnin þyrftu að lifa í heimi þar sem faðir þeirra væri álitinn glæpamaður. Vissulega óttuðust þau ofbeldi og svívirðingar frá sovéskum hermönnum en þau höfðu næg tækifæri til að koma Mögdu og börnunum úr landi, t.d. til Sviss eða Svíþjóðar, áður en Berlín féll.
Pomsel og samstarfsmenn hennar voru í losti við fregnirnar. Hún sagði:
„Ég mun aldrei fyrirgefa Göbbels það sem hann gerði heiminum eða fyrir þá staðreynd að hann myrti sín eigin saklausu börn.“
Þegar Rauði herinn tók borgina gaf starfsfólkið í ráðuneytinu sig fram við hermennina. Pomsel var dæmd í fimm ára þrælkunarvinnu í vinnubúðum Sovétmanna í nágrenni Berlínar.
Harmur í hljóði
Pomsel fékk að fara til Vestur-Þýskalands eftir afplánun sína árið 1950. Hún sagðist hafa fyrst þá heyrt af helförinni og raunverulegum afleiðingum stríðsins. Hún hafði heyrt af búðum á borð við Buchenwald og að gyðingar hefðu verið fluttir þangað frá Berlín. En hún taldi að gyðingarnir hefðu síðan verið fluttir til Súdetahérðanna (í Tékklandi) og að útrýmingarbúðirnar hefðu í raun verið betrunarbúðir fyrir óeirðarseggi.
„Enginn trúir okkur. Allir halda að við höfum vitað allt. Við vissum ekkert.“
Hún sá hins vegar eftir því að hafa starfað fyrir Göbbels og sagði það hafa verið heimskulegt af sér. En hún neitaði allri ábyrgð á ódæðum nasismans nema þeirri samábyrgð allra Þjóðverja að hafa hleypt þeim til valda.
Þegar hún kom til Vestur Þýskalands fékk hún vinnu hjá Südwestfunk, nýstofnaðri útvarpsstöð í Baden Baden í suðvesturhluta Þýskalands. Seinna flutti hún til München og vann sem ritari hjá sjónvarpsstöðinni ARD þar til hún settist í helgan stein árið 1971, sextug að aldri. Á þessum tíma var sjaldan rætt opinberlega um stríðið og nasismann í Vestur Þýskalandi. Fólk bar þess í stað harm sinn og sök í hljóði. Pomsel var ógift og barnlaus og fáir gáfu henni nokkurn gaum. Þegar minnisvarði um fórnarlömb helfararinnar var vígður í Berlín árið 2005 fór hún þangað og spurðist í fyrsta sinn fyrir um vinkonu sína, Evu Löwenthal. Löwenthal hafði verið flutt til Auschwitz í nóvembermánuði árið 1943 og skráð látin árið 1945.
Hvað myndir þú gera?
Traudl Junge, einkaritari Hitlers, varð fræg þegar hún ritaði æviminningar sínar árið 2002 . Þær urðu að miklu leyti efniviðurinn í kvikmyndina Der Untergang (2004) sem segir frá endalokunum í neðanjarðarbyrginu. Saga hennar er svipuð og Pomsel, þ.e. hún sagðist ekki hafa vitað af helförinni og hefði borist með nasismanum í einhvers konar móðu. Eftir að kvikmyndin kom út jókst áhugi fjölmiðla á Pomsel enda var hún eina eftirlifandi manneskjan í innsta hring þriðja ríkisins. Fjölmörg viðtöl voru tekin við hana og árið 2013 var ákveðið að ráðast í gerð heimildarmyndar. Myndin A German Life var frumsýnd haustið 2016 og byggir að mestu leyti á viðtölum við hana. Leikstjórarnir Florian Weigensamer og Olaf Müller eru þó ekki sannfærðir um ábyrgðarleysi hennar.
„Þið getið trúað henni en margir fela sig á bakvið falska eftirsjá. Hún var svo sannarlega ekki ákafur nasisti en henni var sama og hún ákvað að horfa í hina áttina. Það er það sem gerir hana seka.“
Aðal markmið myndarinnar var einmitt að rannsaka hvernig venjulegt fólk bregst við þegar hættulegt fólk kemst til valda. Að fá áhorfendur til að spyrja sig hvort þeir myndu fljóta með og jafnvel aðstoða slíkt fólk til þess eins að hagnast á því persónulega. Pomsel var 105 ára þegar myndin var frumsýnd en hún var ennþá ern og fylgdist grannt með þjóðmálunum. Hún hafði sjálf áhyggjur á ástandinu og uppgangi manna á borð við Donald Trump og Recep Erdogan. Þeir væru raunverulega hættulegir menn þó þeir hefðu verið kjörnir lýðræðislega. Hitler hafði einnig lýðræðislegt umboð.
„Nú á dögum segir fólk að það hefði sjálft gert meira fyrir hina ofsóttu gyðinga og ég held að það meini það í alvöru. En það hefði samt ekki gert það.
Brunhilde Pomsel lést 27. janúar 2017 í München, rúmum tveimur vikum eftir 106 ára afmælisdag sinn.