Málflutningi fyrir áfrýjunardómstóli í San Francisco lauk í gær í máli Washington ríkissins gegn Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, vegna komubanns sem hann setti á borgara frá sjö ríkjum þar sem múslimatrú er í meirihluta. Ríkin eru Líbía, Sýrland, Súdan, Sómalía, Íran, Írak og Jemen. Á sama tíma kom hann í veg fyrir að tekið yrði á móti flóttamönnum frá Sýrlandi.
Bannið varð strax afar umdeild og fóru fram mörg hundruð fjöldamótmælafundir víðs vegar um Bandaríkin í kjölfar þess að það var sett á. Þá olli það miklum titringi og upplausn og flugvöllum, enda margir sem urðu fyrir því.
Ríkisstjóri Washington ríkis, Robert Ferguson, höfðaði mál fyrir alríkisdómstólnum og taldi bannið og tilskipun forsetans ekki standast lög. Hinn 27. janúar dæmdi James L. Robart í málinu og féllst á rök Washington ríkis að stóru leyti. Bannið féll úr gildi í kjölfarið, tímabundið.
Eftir máflutninginn í gær sagðist Ferguson viss um að áfrýjunardómstóllinn myndi komast að sömu niðurstöðu og alríkisdómstóllinn. Bandaríkjaforseti væri sem betur fer ekki hafinn yfir lög og stjórnarskrá.
Trump brást hinn versti við niðurstöðunni og sagði „hinn svokallaða“ dómara hafa gert mikil mistök, og ef það yrðu framin hryðjuverk í Bandaríkjunum vegna þessa þá væri það á ábyrgð hans. En um hvað snýst málið í reynd? Hvers vegna var málið höfðað? Greinargerðir Washington ríkis og yfirvalda hafa verið birtar, og má þar sjá í smáatriðum á hverju er byggt.
Fjögur atriði má sérstaklega nefna til sögunnar.
1. Ríkisstjóri Washington ríkisins taldi bannið fara gegn stjórnarskránni þar sem það beindist sértækt gegn fólki frá fyrrnefndum ríkjum, og það fólki sem hefði heimild til þess að ferðast til og frá Bandaríkjunum. Ferguson sagði forsetann ekki hafa heimild til að setja fram tilskipun sem þessa (excetuvie order) sem væri ái skjön við stjórnarskrárvarinn rétt fólksins. Þetta er grunnforsenda málsóknarinnar.
2. Þá telur Washington ríki að þó að landamæraeftirlit og innflytjendamál, séu á könnu ríkisins og stjórnvalda í Washington D.C., þá séu takmörk á því hvað stjórnvöld geti gert þegar að því kemur. Fyrir því séu mörg dómafordæmi að leita þurfi bæði álits og samstarfs við ríki Bandaríkjanna þegar að þessu kemur, og framhjá þeirri stöðu sé ekki hægt að fara.
3. Washington ríki leggur enn fremur áherslu á það í máflutningi sínum að bannið sé það víðtækt, að það hafi gríðarlega mikil áhrif á daglegt líf í Washington ríki og raunar um öll Bandaríkin. Fram kemur í greinarðgerð ríkisins, sem er mun ítarlegri en greinargerð dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, að fyrirtæki eins og Amazon, Microsoft, Starbucks og Boeing séu háð erlendu vinnuaflil og séu öll með mörg hundruð starfsmenn sem eru frá ríkjunum sjö sem eru á bannlistanum eða tengist fólki þaðan. Bannið hafi þegar haft mikil áhrif. Þá er einnig nefnt að ferðaþjónusturisinn Expedia, sem er með höfuðstöðvar í Belleveu í útjaðri Seattle, hafi fundið verulega fyrir banninu og víðtækum áhrifum þess á bókanir fólks. Þetta sé vísbending um að bannið hafi verið alltof víðtækt.
4. Donald Trump og dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna nefna einkum það atriði, að fyrirskipun Bandaríkjaforseta hafi byggt á þjóðaröryggissjónarmiðum. Þá sé óumdeilt að landamæraeftirlit og innflytjendamál séu á hendi yfirvalda og þar með forsetans. Þegar komi að þjóðaröryggi þá þurfi yfirvöld að hafa til heildarmyndarinnar, og bann við komu fólks frá ákveðnum löndum sé ein leið til að tryggja öryggi.
Dómararnir þrír hjá áfrýjunardómstólnum, sem dæma í málinu, munu taka sér einhverja daga til að fara yfir gögn og málflutning. Talið er líklegt að stjórnvöld vísi málinu til Hæstaréttar Bandaríkjanna, falli dómur þeim í óhag.