Fjölmiðlar hafa ekki verið í vandræðum með uppsláttarfréttirnar síðan Donald Trump tók við forsetaembættinu vestanhafs. Forsetinn hefur látið gamminn geysa, það á bæði við um tístið (Twitter), þar sem hann tjáir sig margoft á degi hverjum, og þegar hann talar við fréttamenn, ýmist í eigin persónu eða gegnum aðstoðarfólk sitt. Í kosningabaráttunni sparaði frambjóðandinn ekki loforðin og meðal þess sem mesta athygli vakti voru yfirlýsingar hans um hertar aðgerðir í innflytjendamálum.
Innflytjendatilskipunin
Trump hafði einungis setið viku í Hvíta húsinu þegar hann birti tilskipun sem sannarlega má segja að hafi valdið fjaðrafoki. Tilskipunin, sem samstundis tók gildi, bannaði borgurum sjö landa að koma til Bandaríkjanna. Löndin sjö eru Íran, Írak, Líbýa, Sómalía, Súdan, Sýrland og Yemen. Hún tók einnig til flóttafólks frá Sýrlandi. Nokkrir bandarískir fjölmiðlar vöktu strax athygli á því að tilskipunin tæki ekki til ríkisborgara Sádi-Arabíu og létu í það skína að það ætti sér einfalda skýringu: fyrirtæki í eigu forsetans hefðu mikilla viðskiptahagsmuna að gæta þar í landi. Tilskipunin var þegar í stað kærð og alríkisdómari úrskurðaði að hún skyldi felld úr gildi. Að mati dómarans gekk tilskipunin gegn ákvæðum bandarísku stjórnarskrárinnar þar sem hún mismunaði fólki eftir trúarbrögðum.
Úrskurður „svokallaða dómarans“ fáránlegur sagði forsetinn
Forsetinn varð æfur og sparaði ekki stóru orðin: ákvörðun þessa „svokallaða dómara“ væri fáránleg og henni yrði hnekkt. Þessi orð, forsetans, mæltust vægast sagt misjafnlega fyrir og spurt var hvort forsetinn væri ekki betur að sér en svo að hann gerði sér ekki ljóst að forsetaembættið væri ekki hafið yfir lög. Áfrýjunardómstóll tók málið fyrir og niðurstaða hans var sú sama og alríkisdómarans: tilskipun forsetans stæðist ekki lög. Þegar þessi orð eru sett á blað er ekki ljóst hvert framhaldið verður en lang líklegast verður að telja að málið komi til kasta Hæstaréttar Bandaríkjanna. Í Hæstarétti sitja að jafnaði níu dómarar en eru sem stendur átta, fjórir repúblikanar og fjórir demókratar. Repúblikanar gátu ekki sætt sig við að Barack Obama útnefndi níunda dómarann og þvældust fyrir skipan hans. Sama munu demókratar örugglega gera nú þegar Trump hefur útnefnt „sinn mann“, þeir munu tefja hina formlegu útnefningu og á meðan er pattstaða í Hæstarétti. Forsetinn er vægst sagt ósáttur við stöðu mála en getur lítið að gert því hvort sem honum líkar betur eða verr er forseti Bandaríkjanna ekki hafinn yfir lög.
Danski utanríkisráðherrann undrandi
Eftir að Bandaríkjaforseti gaf út tilskipunina (og áður en dómari úrskurðaði hana ógilda) urðu margir til að lýsa undrun sinni. Meðal þeirra sem þannig töluðu var danski utanríkisráðherrann Anders Samuelsen. Í sjónvarpsviðtali sagði ráðherrann að það væri rangt að dæma fólk á grundvelli trúar og þjóðernis. „Maður á ætíð að meta einstaklinginn sem slíkan.“ Ráðherrann endurtók svo þessa skoðun sína á Facebook.
„Það er nefnilega það“
Þessi orð voru fyrirsögn dagblaðsgreinar Martins Henriksen, þingmanns og talsmanns Danska Þjóðarflokksins um málefni innflytjenda. Í greininni vakti þingmaðurinn athygli á því að að stefna Bandaríkjaforseta í þessum efnum væri eiginlega nákvæmlega sú sama og dönsku ríkisstjórnarinnar. Semsé að flokka þá sem hyggjast koma til Danmerkur, eftir þjóðerni. Undir þetta tekur Jens Vedsted-Hansen prófessor við Háskólann í Árósum, „Við deilum fólki í tvo flokka: þá sem koma frá löndum sem við krefjumst ekki vegabréfsáritunar og svo allra hinna. Þetta er mismunun. Í öðru lagi flokkum við fólk frá löndum sem þurfa vegabréfsáritun til Danmerkur í tvo hópa: þá sem fá áritun og svo hina sem er synjað um áritun. Svo er það hópurinn sem fær einfaldlega ekki leyfi til að koma til Danmerkur vegna þjóðernis. Þar má nefna Sómali og Sýrlendinga.“
Fimm flokkar
Ráðuneyti innflytjendamála í Danmörku skiptir þeim sem þurfa vegabréfsáritun til Danmerkur í fimm flokka: Auðveldast fyrir þá sem falla í flokk númer 1 og erfiðast fyrir þá sem flokkast númer 5.
Í flokki 1 eru 54 lönd. Þau eiga það sameiginlegt að líkur á ólöglegum innflytjendum eru litlar. Í þessum flokki eru t.d mörg lönd í Afríku, Maldíveyjar og Qatar.
Í flokki 2 eru 18 lönd. Fólk frá löndum í þessum flokki geta hugsanlega reynt að komast ólöglega til Danmerkur. Í þessum hópi eru t.d. Albanía, Nepal, Serbía og Tæland.
Í flokki 3 eru 27 lönd. Fólk frá þessum 27 löndum er talið líklegt til að reyna að komast til Danmerkur á fölskum forsendum. Í þessum hópi eru m.a Egyptaland, Kína, Rússland, Tyrkland, Indland og Víetnam.
Í flokki 4 eru 12 lönd. Miklar líkur eru taldar á að fólk frá þessum löndum reyni að komast til Danmerkur. Írak, Afganistan og Pakistan eru í þessum flokki, einnig Palestíumenn án ríkisfangs.
Í flokki 5 eru 2 lönd: Sýrland og Sómalía. Íbúar þessara tveggja landa fá einfaldlega ekki vegabréfsáritun til Danmerkur, nema í algjörum undantekningartilvikum.
Forsendurnar ólíkar
Þótt dönsku reglurnar varðandi vegabréfsáritun og þar með leyfi til að koma til landsins séu svipaðar og tilskipanir Bandaríkjaforseta eru forsendurnar ólíkar. Donald Trump telur að ríkisborgurum landanna sjö fylgi hætta á hryðjuverkum og forsetinn hefur ítrekað tengt þessa skoðun sína trúarbrögðum. Af múslímum stafi hætta. Ótti Dana er annars eðlis, þeir telja líkur á að fólk frá tilteknum löndum vilji komast til Danmerkur í þeim tilgangi að setjast þar að, fá pólitískt hæli.
Þjóðernið ræður ekki
Stjórnandi danska sjónvarpsþáttarins Detektor spurði Anders Samuelsen utanríkisráðherra hvað hann ætti við þegar hann segði að fólk skyldi ekki dæmt á grundvelli þjóðernis. Spurningin var borin upp í ljósi áðurnefndrar flokkunar ráðuneytis innflytjendamála. Ráðherrann svaraði því til að allar umsóknir um vegabréfsáritun, þrátt fyrir flokkunina áðurnefndu, væru skoðaðar og metnar hver fyrir sig. Þegar spurt var hvernig umsókn um vegabréfáritun Sýrlendings eða Sómala yrði afgreidd svaraði ráðherrann því til að þótt almenna reglan væri sú að ríkisborgarar þessara tveggja landa fengju ekki leyfi til að koma til Danmerkur gætu sérstakar aðstæður ráðið því að frá þessari reglu væri vikið. „Ef sómalskur maður, sem á dauðvona móður í Danmörku, vildi fá að koma og hitta hana áður en það væri um seinan yrði það vitaskuld leyft,“ sagði ráðherrann.