Rökin fyrir flutningi málefna Seðlabanka Íslands yfir til forsætisráðuneytisins felast í því að vegna sjálfstæðis Seðlabankans sé æskilegt að yfirstjórn hans og samþykkt peninga- og gengisstefnu sé í öðru ráðuneyti en því sem fer með fjármál ríkisins. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Ný ríkisstjórn ákvað að færa málefni Seðlabankans frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til forsætisráðuneytisins þegar verkaskipting milli ráðuneyta var ákveðin. Bjarni Benediktsson, sem færði sig úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið þegar Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð mynduðu ríkisstjórn í janúar, mun því áfram fara með málefni Seðlabankans.
Málefni Seðlabanka Íslands heyrðu undir fjármála- og efnahagsráðuneytið frá 2012 til 2017. Þar áður höfðu þau heyrt undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti, forsætisráðuneytið og viðskiptaráðuneytið. Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um flutninginn segir að náin tengsl séu milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabankans á ýmsum sviðum. „Þar má nefna fjárhagsleg samskipti Seðlabanka og ríkissjóðs, gengismál og nú á síðustu árum losun fjármagnshafta, samskipti um efnahagsmál og samskipti við lánshæfismatsfyrirtæki og alþjóðastofnanir. Rökin fyrir flutningi málefna Seðlabankans yfir til forsætisráðuneytisins felast í því að vegna sjálfstæðis Seðlabankans sé æskilegt að yfirstjórn hans og samþykkt peninga- og gengisstefnu sé í öðru ráðuneyti en því sem fer með fjármál ríkisins.“
Engar breytingar fyrirhugaðar á stjórnskipulaginu
Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, hefur gengt starfinu frá því að hann var skipaður 20. ágúst 2009. Þá var Már skipaður til fimm ára og sumarið 2014 var starfið auglýst til umsóknar. Alls sóttu tíu um starfið en Már var á endanum endurskipaður.
Nokkrum mánuðum áður en Már var endurráðinn hafði Bjarni Benediktsson skipað starfshóp sem ætlað var að gera tillögur að breytingum á stjórnskipulagi Seðlabankans.
Hópurinn skilaði tillögum í mars 2015 og lagði þar til að seðlabankastjórum yrði fjölgað úr einum í þrjá. Einn yrði seðlabankastjóri en með honum myndu starfa bankastjóri peningamála og bankastjóri fjármálastöðugleika.
Fréttablaðið greindi frá því 18. janúar síðastliðinn að allar tillögur um breytingar á Seðlabankanum væru enn á ís. Þar var haft eftir Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni forsætisráðherra, að henni væri ekki kunnugt um að stjórnskipulag bankans hafi verið rætt sérstaklega í viðræðum Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans er þessi skilningur staðfestir. Þar segir að engar breytingar á stjórnskipulagi Seðlabankans hafi verið ræddar eða ákveðnar.