Kostnaður útgerðarinnar í tengslum við skattlagningu á fæðispeningum og dagpeningum sjómanna er ekki 2,3 milljarðar líkt og kom fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í gær. Raunin er að kostnaðurinn er í kringum 883 milljónir króna á ári. Miðað við það myndi hið opinbera verða af ríflega 400 milljóna skatttekjum.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi í gær frá sér áréttingu „að gefnu tilefni“ um skattlagningu á fæðis- og dagpeningum, vegna sjómannaverkfallsins. Þar kom fram að heildarkostnaður útgerðarinnar vegna greiðslu fæðispeninga sjómanna væri um 2,3 milljarðar króna miðað við gildandi kjarasamninga. Þar var miðað við að fjöldi lögskráningardaga sjómanna sé um 1,5 til 1,6 milljónir daga á ári og fæðispeningarnir séu að jafnaði 1.500 krónur á dag. Miðað við þær forsendur myndi tekjutap ríkisins á ári vera um 730 milljónir króna ef fæðispeningar yrðu undanþegnir skatti. Til viðbótar myndu sveitarfélög tapa um það bil 330 milljónum króna í útsvarstekjur.
Í dag sendi fjármálaráðuneytið aðra tilkynningu þar sem kom fram að þegar útreikningarnir voru gerðir hafi verið stuðst við gögn sem Sjómannasambandið lét ráðuneytinu í té í fyrra. „Komið hefur í ljós að þau eru ekki rétt, heldur er fjöldi lögskráningardaga umtalsvert minni, sagði í tilkynningu ráðuneytisins í dag. Ekki var tekið fram hversu margir lögskráningardagarnir séu í raun og veru.
Kjarninn leitaði því til Samgöngustofu, sem heldur utan um lögskráningardaga á bæði fiskiskipum og flutningaskipum. Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu var fjöldi lögskráningardaga á fiskiskipum tæplega 589 þúsund í fyrra, töluvert langt frá 1,5-1,6 milljón sem reiknað var út frá í gær.
Út frá þeim fjölda lögskráningardaga og því að fæðispeningar séu að jafnaði 1.500 krónur á dag fæst út að kostnaður útgerðarinnar yrði 883,5 milljónir króna, en ekki 2,3 millarðar. Að sama skapi yrðu skattekjurnar sem ríkið yrði af talsvert minni, en miðað við sömu forsendur og í útreikningum ráðuneytisins myndi ríkið verða af rétt rúmlega 280 milljónum króna í skatttekjur á ári en sveitarfélögin 126,7 milljónum króna. Þannig yrði samanlagt tekjutap hins opinbera 407 milljónir á ári, en ekki rúmur milljarður króna.
Ráðherra vill heildstæða nálgun
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, átti í gærkvöldi fund með deiluaðilum, fulltrúum samninganefnda sjómanna og útgerðarmanna. Þar lagði hún fram þá tillögu að að láta gera heildstæða greiningu á því hvernig farið er með fæðiskostnað og greiðslur vegna fæðis almennt, í skattalegu tilliti. Slík greining verði unnin í samvinnu stjórnvalda og deiluaðila. Markmiðið á að vera að tryggja einfalda og sanngjarna skattframkvæmd og að jafnræðis sé gætt milli launþega hvað varðar skattalega meðferð greiðslna og hlunninda vegna fæðiskostnaðar. Samkvæmt tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ættu niðurstöður að liggja fyrir í lok apríl í síðasta lagi, þannig að hægt sé að breyta lögum á þessu þingi ef þess gerist þörf.
Sjómenn sendu tilkynningu í morgun þar sem fram kom að góður gangur hafi verið í viðræðum við útgerðarmenn undanfarna daga. „Sameiginlegur skilningur er með aðilum um helstu kröfur. Líkt og komið hefur fram í umræðu hafa sjómenn talið að leiðréttingar sé þörf á ójafnræði í skattalegri meðferð á dagpeningum. Sjómenn telja mikilvægt að úr þessu verði bætt.“ Greiningin sem ráðherra leggi til sé vafalaust jákvæð, en „enn stendur þó útaf að fá viðurkenningu stjórnvalda á skattalegri meðferð á dagpeningagreiðslum til sjómanna,“ segir í tilkynningu sjómanna.