Vonir eru bundnar við að vinna við gerð kaupsamnings vegna kaupa Fjarskipta hf., eiganda Vodafone á Íslandi, á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla ljúki fyrir lok marsmánaðar. Gangi það eftir verður leitað samþykkis eftirlitsaðila, meðal annars Samkeppniseftirlitsins, í kjölfarið. Þetta kemur fram í ársreikningi Fjarskipta sem birtur var í gær.
Þar kom einnig fram að tekjur Fjarskipta á Íslandi lækkuðu lítillega á milli áranna 2015 og 2016 og rekstrarhagnaður dróst saman um 15 prósent. Hagnaður Fjarskipta í fyrra var rúmur milljarður króna og minnkaði um 22 prósent á milli ára.
Tilkynnt var um kaupin 31. ágúst síðastliðinn. Þá sendu Fjarskipti tilkynningu til Kauphallar um að til stæði að kaupa ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla á samtals átta milljarða króna. Til stóð að greiða 1,7 milljarða króna í reiðufé, sömu upphæð með útgáfu hlutabréfa í Fjarskiptum. Auk þess átti félagið yfirtaka 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum 365 miðla.
Þann 22. desember síðastliðinn var svo send ný tilkynning um að endursamið hefði verið um kaupverðið. Það var gert eftir að fulltrúar Fjarskipta höfðu fengið aðgang að gögnum um rekstrarstöðu 365 miðla. Nýja kaupverðið var 1,2 milljarði krónum lægra og dróst sú upphæð frá þeirri sem núverandi hluthafar 365 miðla áttu að fá greidda í reiðufé. Eftir stendur því 500 milljóna króna peningagreiðsla. Í tilkynningunni kom fram að til stæði að ljúka kaupunum á fyrstu vikum ársins 2017. Það hefur dregist og nú er stefnt að því að ljúka gerð kaupsamnings fyrir marslok.
Verði af þeim munu núverandi hluthafar 365 miðla eignast allt að 12,2 prósent hlut í Fjarskiptum, ef greitt verður með þegar útistandandi hlutum. Það þýðir að stærsti eigandi 365 miðla, aflandsfélög í eigu Ingibjargar S. Pálmadóttur, munu eignast allt að 8,9 prósent í Fjarskiptum. Það myndi þýða að hún yrði stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hluthafahópi félagsins. Í dag er það Ursus, félag Heiðars Guðjónssonar, sem á 6,4 prósent hlut. Í krafti þess eignarhlutar er Heiðar stjórnarformaður Fjarskipta. Stærstu eigendur Fjarskipta eru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Samanlagt eiga þeir 32,13 prósent eignarhlut í félaginu.
Ekki komið á hreint hvort fréttastofa 365 fari með
Það sem Fjarskipti vill kaupa er sjónvarps- og útvarpsrekstur 365 miðla ásamt fjarskiptahluta fyrirtækisins. Það þýðir að sjónvarpsstöðvar á borð við Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásina eru undir ásamt útvarpsstöðvum á borð við Bylgjuna, FM957 og X-ið. Eignir sem eru undanskildar eru Fréttablaðið og vefurinn Vísir.is.
Í dag eru fréttastofa 365 miðla, sem framleiðir efni í alla miðla fyrirtækis, ein eining. Þ.e. hún vinnur efni inn í dagblaðið Fréttablaðið, á vefinn Vísi.is, í sjónvarpsfréttir Stöðvar 2 og á útvarpsstöðvar fyrirtækisins. Hún tilheyrir því bæði ljósvakahlutanum, sem Fjarskipti vill kaupa, og prent- og vefhlutanum, sem skilin verður eftir í 365 miðlum.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Fjarskiptum liggur enn ekki fyrir hvort eða hvaða hluti fréttastofu 365 fylgi með yfir til Fjarskipta í kaupunum. Það verður hins vegar útfært áður en gengið verður frá kaupsamningi.
Vodafone mun styrkjast við kaupin á 365
Íslenskum farsímamarkaði er bróðurlega skipt upp í þrennt. Nova er með mesta markaðshlutdeild (34,4 prósent) og Síminn með næsta mesta (33,7 prósent). Þriðji risinn á fjarskiptamarkaði er síðan Vodafone. Því hefur tekist að halda vel á áskriftarfjölda sínum á farsímamarkaði og raunar bætt við sig rúmlega sex þúsund viðskiptavinum frá miðju ári í fyrra. Alls nemur markaðshlutdeild fyrirtækisins 27,5 prósentum.
365 sameinaðist Tali í desember 2014 og tók þar með yfir farsímaviðskipti síðarnefnda fyrirtækisins. Alls eru viðskiptavinir 365 í farsímaþjónustu nú um 16.335 talsins. Það er umtalsvert færri viðskiptavinir en Tal var með í árslok 2012, þegar þeir voru um 20 þúsund.
Verði af kaupum Fjarskipta á 365 miðlum mun Vodafone auka veltu sína um hátt í tíu milljarða króna og vera mun betur í stakk búið til að keppa við sinn aðalkeppinaut, Símann sem þegar rekur víðfeðma sjónvarpsþjónustu, á sjónvarpsmarkaði. Samanlagt verða viðskiptavinir hins sameinaða fyrirtæki á farsímamarkaði 136.023 og sameiginleg markaðshlutdeild 31,2 prósent. Vodafone verður því ekki langt frá Símanum, sem er með 33,7 prósent markaðshlutdeild á farsímamarkaði, og Nova, sem er með 34,4 prósent hlutdeild.